Efnahagsmál - 

18. nóvember 2005

Hagnaður fyrirtækja undirstaða betra umhverfis

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hagnaður fyrirtækja undirstaða betra umhverfis

Umhverfisþing árið 2005 fjallar um sjálfbæra þróun og í ræðu sinni við upphaf þingsins vék Þorgeir Baldursson, varaformaður SA, að því að hagnaður fyrirtækja væri undirstaða sjálfbærrar þróunar, nokkuð sem gleymdist oft að nefna í umræðu um umhverfismál og sjálfbæra þróun. - umræðu sem væri oft einlit. "Hagnaður í atvinnulífinu er undirstaða alls hagvaxtar og allrar sjálfbærrar þróunar. Án hagnaðar greiða fyrirtæki ekki skatta, þau hækka ekki laun starfsmanna sinna og bæta ekki umhverfi sitt. Það er því lykilatriði og á ekkert frekar við hér á landi en annars staðar að stjórnvöld skapi atvinnustarfseminni sem bestan efnahagslegan ramma þar sem atvinnufrelsi, einkaeign og samkeppni ríkir á sem flestum sviðum. Eitt mikilvægasta framlag Íslendinga til þróunarríkjanna er að halda sjónarmiðum sem þessum á lofti og styðja við tillögur um frelsi í alþjóðaviðskiptum þar sem tryggt er að þróunarríkin geti keypt og selt vörur án þess að lagðar séu á viðskiptahindranir til að viðhalda úreltum framleiðsluháttum í þeim ríkjum sem betur eru stæð."

Umhverfisþing árið 2005 fjallar um sjálfbæra þróun og í ræðu sinni við upphaf þingsins vék Þorgeir Baldursson, varaformaður SA, að því að hagnaður fyrirtækja væri undirstaða sjálfbærrar þróunar, nokkuð sem gleymdist oft að nefna í umræðu um umhverfismál og sjálfbæra þróun. - umræðu sem væri oft einlit. "Hagnaður í atvinnulífinu er undirstaða alls hagvaxtar og allrar sjálfbærrar þróunar. Án hagnaðar greiða fyrirtæki ekki skatta, þau hækka ekki laun starfsmanna sinna og bæta ekki umhverfi sitt. Það er því lykilatriði og á ekkert frekar við hér á landi en annars staðar að stjórnvöld skapi atvinnustarfseminni sem bestan efnahagslegan ramma þar sem atvinnufrelsi, einkaeign og samkeppni ríkir á sem flestum sviðum. Eitt mikilvægasta framlag Íslendinga til þróunarríkjanna er að halda sjónarmiðum sem þessum á lofti og styðja við tillögur um frelsi í alþjóðaviðskiptum þar sem tryggt er að þróunarríkin geti keypt og selt vörur án þess að lagðar séu á viðskiptahindranir til að viðhalda úreltum framleiðsluháttum í þeim ríkjum sem betur eru stæð."

Frumkvæði fyrirtækjanna
Þá fjallaði Þorgeir um frumkvæði íslenskra fyrirtækja í umhverfismálum og þá byltingu sem hefur átt sér stað í umgengni fyrirtækja við náttúru landsins, umhverfi og auðlindir á síðustu áratugum. "Verulega hefur dregið úr mengun frá fyrirtækjum hvort sem litið er til fiskimjölsverksmiðja, einstakra stóriðjufyrirtækja, eða almennra iðnfyrirtækja.  Meðhöndlun úrgangs og frárennslis hefur tekið miklum breytingum og endurnotkun og endurnýting er nú stór þáttur í starfsemi margra fyrirtækja. Á síðustu árum hefur atvinnulífið byggt upp öflugan sjóð, Úrvinnslusjóð, sem stendur fyrir söfnun, endurnýtingu og förgun á ýmsum úrgangi sem áður fór óflokkaður inn á sorphauga sveitarfélaga. Hér er um að ræða hjólbarða, bílhræ, heyrúlluplast og spilliefni en auk þess eru nú að bætast við umbúðir ýmis konar. Aðstæður fólks á vinnustöðum hafa víða tekið algerum stakkaskiptum hvort sem litið er til vinnuaðferða, mengunar og hávaða í vinnunni, öryggis, almenns aðbúnaðar eða félagslegra aðstæðna," sagði Þorgeir m.a. og benti á að fyrirtæki, t.d. Prentsmiðjan Oddi, hefðu unnið öflugt umhverfisstarf með það að markmiði að vernda og bæta umhverfið, en jafnframt að nýta sem best orku og hráefni. Breytingarnar hafi orðið að frumkvæði fyrirtækjanna og atvinnugreinanna sjálfra vegna þess að þau hafi áhuga á að nýta umhverfi sitt og bæta nýtingu aðfanga og njóta þar með efnalegs ávinnings. Þetta sé þróun sem eigi ekki uppsprettu í opinberum reglugerðum eða stofnunum - þær fylgi hins vegar þróuninni eftir og tryggi að ákveðnar lágmarkskröfur séu uppfylltar.


Úrelt eftilitskerfi
Þorgeir Baldursson gagnrýndi á Umhverfisþingi að eftirlitskerfi hins opinbera með atvinnulífinu væru ekki í takt við tímann. "Því miður er það þannig að eftirlitskerfi það sem rekið er á vegum umhverfisráðuneytisins hefur ekki fylgt eftir þróun þjóðfélagsins heldur er enn byggt á hugmyndum frá því um og fyrir miðja síðustu öld. Þá var talið að með eftirliti og forsjá ríkisins mætti tryggja gæði framleiðslu og koma í veg fyrir mengun og aðra óáran sem fylgt getur ef ekki er að gætt. Það er hins vegar algerlega úrelt viðhorf að opinberir starfsmenn sveitarfélaga eða ríkisins geti, betur en fyrirtækin sjálf, fylgst með framleiðslu og hollustuháttum, sérstaklega þegar engin tilraun er gerð til nýta nútímatækni við eftirlitið heldur einungis byggt á heimsóknum og tilviljanakenndu mati á því sem eftirlitsmennirnir kunna að skynja í hverri heimsókn. Þá er það ólíðandi að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafi auk þess eftirlit með samkeppnisrekstri sveitarfélaganna sjálfra, hvort sem um er að ræða mötuneyti, samkomustaði, gistiheimili eða líkamsræktarstöðvar. Sveitarfélögin hafa auk þess í mörgum tilfellum nánast sjálfdæmi um gjaldtöku fyrir eftirlit og það er enginn hvati fyrir þau að draga úr eftirliti hjá þeim fyrirtækjum sem standa sig vel, eins og þó er heimilt samkvæmt lögum og reglugerðum. Fyrir vikið hafa fyrirtækin einnig, því miður, minni hvata en æskilegt væri til þess að taka upp virk gæðastjórnunarkerfi."

Þorgeir skoraði á umhverfisráðherra að færa eftirlitskerfi umhverfisráðuneytisins inn í 21.öldina og sagði að í atvinnulífinu væru miklar vonir bundnar við átak forsætisráðherra undir yfirskriftinni einfaldara Ísland. "Ítrekað er að ekki er verið að biðja um afslátt á efnislegum kröfum í lögum og reglugerðum heldur fyrst og fremst breytingar á eftirlitinu sjálfu."

Staða Íslands í alþjóðlegu samhengi
Þorgeir fjallaði einnig um stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi, og benti t.a.m. á þá staðreynd að álver sem nýti kol sem orkugjafa losi margfalt meira af gróðurhúsalofttegundum en álver sem byggi á vatnsorku eða jarðhita . "Við búum við það hér á landi að hafa til ráðstöfunar gnægð orkulinda sem nýta má á skynsamlegan hátt.  Þessar orkulindir hafa verið nýttar til uppbyggingar á stóriðju hér á landi.  Álver sem nýtir kol sem orkugjafa við framleiðslu sína losar 7 til 8 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum en álver sem byggir á vatnsorku eða jarðhita.  Það liggja því engin skynsemisrök til þess að takmarka nýtingu þessara orkugjafa með alþjóðlegum samningum.  Slíkt leiðir einungis til tjóns fyrir umhverfið."


Ræða Þorgeirs Baldurssonar frá Umhverfisþingi 2005.

Samtök atvinnulífsins