Hagnaður fyrirtækja þriðjungur fyrra árs

Hagnaður tuttugu og fjögurra fyrirtækja sem birt hafa uppgjör á Verðbréfaþingi var samtals um 3 milljarðar árið 2000, af reglulegri starfsemi fyrir skatta. Árið á undan var hagnaður sömu fyrirtækja rúmir 9 milljarðar og fellur hagnaðurinn úr 10% af veltu í 3%. Ræður þar mestu fall gengis krónunnar, hlutabréfa og annarra verðbréfa. Mun meiri hækkun launakostnaðar en verðlags bendir jafnframt til þess að fyrirtæki hafi tekið á sig aukinn kostnað eða hagrætt í rekstri.

Fyrstu fréttir af afkomu fyrirtækja árið 2000 benda til þess að þau hafi skilað mun minni hagnaði en 1999, og raunar minni en allar götur frá árinu 1993.  Fall gengis krónunnar, hlutabréfa og annarra verðbréfa ræður mestu um þetta, en afkoma fyrir fjármagnsliði er litlu verri en árið á undan.

Árið 2000 var mjög stormasamt í fyrirtækjarekstri hér á landi.  Gengi krónunnar lækkaði um 10%.  Áður hefðu útflutnings- og samkeppnisfyrirtæki fagnað því, en miklar skuldir í erlendum gjaldmiðlum gera það að verkum að fögnuðurinn er nú blendinn.  Þá hækkuðu laun um hátt í 10% á árinu.  Verðlag hækkaði mun minna, eða um 3,5%.  Það þýðir að annað hvort hafa fyrirtæki hagrætt mikið í rekstri sínum á árinu, eða þá að þau hafa tekið á sig kostnað.

Tuttugu og fjögur fyrirtæki sem birt hafa uppgjör á Verðbréfaþingi högnuðust samtals um rúma 3 milljarða af reglulegri starfsemi, fyrir skatta, á liðnu ári. Árið á undan var hagnaður sömu fyrirtækja rúmlega 9 milljarðar.  Hagnaðurinn datt úr 10% af veltu árið 1999 í 3% árið 2000, en hagnaður umræddra fyrirtækja hefur verið langt umfram landsmeðaltal, líkt og sjá má út frá meðfylgjandi línuriti yfir afkomu allra fyrirtækja á Íslandi.

Fall á gengi hlutabréfa og annarra verðbréfa ræður mestu um að fjármálafyrirtæki hagnast minna en áður.  Í bókhaldi annarra fyrirtækja eru verðbréf yfirleitt ekki metin á markaðsverði, en gengisfelling krónunnar veldur því að skuldir hækka.  Hagnaður 16 fyrirtækja sem ekki eru í fjármálarekstri nam 5% af veltu árið 1999 en var nær enginn árið 2000.  Rekstur útgerðarfyrirtækja gengur mun verr en áður og veldur aukinn fjármagnskostnaður þar mestu.  Tólf fyrirtæki í öðrum greinum högnuðust einnig minna á reglulegri starfsemi árið 2000 en 1999, en breytingin er mun minni en í sjávarútvegi.  Þegar litið er á afkomu fyrir fjármagnsliði hjá öðrum en fjármálafyrirtækjum kemur í ljós að hún hefur versnað mun minna en heildarafkoman frá árinu á undan. 

Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir skatta, % af veltu

 

 

2000

1999

8 fjármálafyrirtæki

 

15%

31%

16 önnur fyrirtæki

 

0%

5%

Alls

 

3%

10% 

Afkoma fyrir fjármagnsliði, % af  veltu

 

2000

1999

16  fyrirtæki, ekki í fjármálarekstri

 

3%

4%