Hafna aðgerðum: Afstaða verkalýðshreyfingarinnar mikil vonbrigði

ASÍ hefur hafnað málaleitan Samtaka atvinnulífsins um að leita leiða til að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtækja. Eftir óformlegar viðræður um skeið og formlegt erindi SA til samninganefndar ASÍ 30. mars hefur nú borist það afdráttarlausa svar að verkalýðshreyfingin ljái ekki máls á tímabundinni lækkun launakostnaðar. Í gær höfðu yfir 25 þúsund umsóknir um hlutaatvinnuleysisbætur borist Vinnumálastofnun og ríflega helmingur þeirra miðar við 25% starfshlutfall hjá atvinnurekanda, sem hefur í mörgum tilvikum tímabundið hætt sinni starfsemi.

Fyrirtæki, sem nú taka ákvarðanir um uppsagnir eða lækkað starfshlutfall, þurfa að taka með í reikninginn að launakostnaður þeirra hækkar um 4% eða meira frá og með deginum í dag. Ástæðan er sú að laun á almennum vinnumarkaði hækka að lágmarki um 24.000 kr. hjá þeim sem hafa lægri laun og 18.000 kr. hjá hærra launuðum frá 1. apríl, samkvæmt Lífskjarasamningnum. Samningurinn, sem gerður var í fyrra, felur í sér kostnað fyrir fyrirtækin í landinu á sama tíma og þau standa mörg frammi fyrir gríðarlegu tekjufalli og mikilli óvissu um framhaldið. Launahækkunin eykur launakostnað alls atvinnulífsins um 50 milljarða króna á ársgrundvelli, eða 4 milljarða á mánuði. Verkalýðshreyfingin hefur hafnað málaleitan atvinnurekenda um að milda eða fresta hækkunaráhrifum samningsins.

Niðurstaða ASÍ veldur SA miklum vonbrigðum. Launahækkunin 1. apríl stuðlar að fleiri uppsögnum starfsfólks en annars hefði orðið. Tímabundin lækkun mótframlags í lífeyrissjóði hefði mildað verulega höggið sem fyrirtækin verða fyrir vegna launahækkunarinnar ofan á gjörbreytta efnahagsstöðu.

Tímabundin lækkun lífeyrissjóðsframlags atvinnurekenda hefði mildað höggið
Í framhaldi óformlegra þreifinga síðustu vikna sendu SA formlegt erindi til samninganefndar ASÍ þann 30. mars. Svar verkalýðshreyfingarinnar er að ljá ekki máls á tímabundinni lækkun launakostnaðar.

Af samtölum mátti ráða að ekki næðist breið sátt um að fresta að hluta eða öllu leyti umsömdum launahækkunum en SA bundu þó vonir við að sátt gæti náðst um tímabundna lækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóð úr 11,5% í 8%. Í svari samninganefndar ASÍ er þeirri leið einnig hafnað.

Hækkun launa enn meiri í sumum greinum eða allt að 8%
Við gerð Lífskjarasamningsins var miðað við að launagreiðslur á almennum vinnumarkaði hækkuðu að jafnaði um 4% þann 1. apríl 2020. Sérstök hækkun kauptaxta þýðir hins vegar mun meiri hækkun hjá sumum hópum, eða að jafnaði um 8% á kauptaxta verkafólks.

Þessar hækkanir koma til framkvæmda á sama tíma og heimsfaraldurinn COVID-19 hefur lamað íslenskt samfélag og atvinnulíf. Stór hluti atvinnustarfsemi um heim allan hefur stöðvast. Tekjugrundvöllur fjölmargra íslenskra fyrirtækja hefur algjörlega brostið og atvinnuleysi er að aukast mjög hratt.

Árið 2009 var umsömdum hækkunum frestað vegna aukins atvinnuleysis
Fordæmi eru fyrir frestun umsaminna hækkana vegna skyndilega aukins atvinnuleysis. Rifja má upp að í fjármálahruninu haustið 2008 voru í gildi kjarasamningar sem giltu fyrir tímabilið 2008-2010. Samkvæmt þeim áttu kauptaxtar verka- og afgreiðslufólks að hækka 1. mars 2009 um 13.500 kr. og iðnaðarmanna og skrifstofufólks um 17.500 kr. Til þess kom þó ekki þar sem þann 25. febrúar 2009 náðist samkomulag milli samninganefndar ASÍ og SA um að fresta launahækkuninni í að minnsta kosti fjóra mánuði og taka skyldi ákvörðun um framhaldið fyrir júnílok. Þann 25. júní 2009 gerði samninganefnd ASÍ og SA þær breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga ASÍ og SA að helmingur umsaminna hækkana kauptaxta kom til framkvæmda 1. júlí og hinn helmingurinn 1. nóvember 2009. Hækkun kauptaxta sem áttu að taka gildi 1. janúar 2010 voru færðar til 1. júní 2010.

Afstaða verkalýðshreyfingarinnar, þá og nú, gerólík
Árið 2009 voru það sameiginleg viðbrögð samningsaðila almenna vinnumarkaðarins að bregðast við alvarlegu kreppuástandi með breytingum á kjarasamningum til að vernda störf og atvinnustarfsemi. Núverandi forysta Alþýðusamband Íslands virðist hafa allt aðra afstöðu en sambandið hafði þá til stóraukins atvinnuleysis og hættu á lömun atvinnulífsins.

Aðgerðir stjórnvalda hafa allar miðast við að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja og fordæmalausa fjölgun atvinnulausra vegna þess tímabundna áfalls sem COVID-19 faraldurinn hefur valdið. Á sama tíma skellir verkalýðshreyfingin hurðinni á nef atvinnurekenda þegar óskað er eftir samstarfi um leiðir til að bregðast við þeirri grafalvarlegu stöðu sem ríkir í atvinnulífinu.

Það eru vægast sagt mikil vonbrigði á sama tíma og fyrirséð er að allt að fimmti hver einstaklingur á vinnumarkaði muni fá bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði á næstunni.

Sjá nánar:

Bréf SA til ASÍ vegna launahækkunar í apríl (PDF)