Hættulega rangur skilningur á kapítalismanum

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarin misseri, ekki síst á Evrópuvettvangi. Samtök atvinnulífsins hafa m.a. greint frá samevrópskum niðurstöðum ólíkra hagsmunaaðila um skilgreiningar og skilning á þessu hugtaki, sem enska skammstöfunin CSR er gjarnan notuð yfir (corporate social responsibility). Enska vikuritið The Economist fjallaði á dögunum ítarlega um CSR undir heitinu "hið góða fyrirtæki" (tölublað dagsett 22. janúar 2005). Óhætt er að segja að leiðari blaðsins um CSR sé býsna ferskt innlegg í þessa umræðu.

Úrelt að vera bara heiðarlegur og skila arði?

Í leiðaranum segir frá því hvernig þessi umræða um félagslega ábyrgð fyrirtækja hafi haft þau áhrif að víða þyki það alls ekki nóg að vera í rekstri, sýna heiðarleika, virða lög, selja hluti sem fólk vill kaupa og hafa af þessu tekjur. Þetta þyki víða algjörlega úrelt. Í dag eigi fyrirtæki, einkum þau stærri, að hugsa minna um arðsemi en meira um félagslega ábyrgð. Í því skyni hafi mörg fyrirtæki komið sér upp sérstöku starfsfólki, jafnvel heilu deildunum. Leggja beri meiri áherslu á að koma vel fram við starfsfólk, forðast fjárfestingar í löndum þar sem laun eða félagsleg réttindi eru mun lægri eða minni en á Vesturlöndum, spara orku o.s.frv., en áherslurnar eru margar og mismunandi sem sameiginlega rúmast innan þessa CSR hugtaks.

Hættulega rangur skilningur á kapítalisma

Það sem allir talsmenn CSR eiga þó sameiginlegt að mati Economist er að þeir byggja á röngum, og það hættulega röngum, skilningi á þessu kapítaliska efnahagskerfi sem þeir telja sig vera að bæta. Talsmenn CSR gangi út frá því að óáreittur þjóni kapítalisminn ekki almannahag, heldur þjóni kerfið eingöngu hagsmunum hluthafa, ekki annarra. Til að tryggja að fyrirtæki þjóni almannahag þurfi þau ekki bara að sýna heiðarleika og virða lög og reglur, þau verði að temja sér þessa CSR nálgun. Þetta er alrangt, segir Economist. Þótt markmið vel rekins fyrirtækis sé fyrst og fremst það að skila hluthöfum sínum arði þá þjóni fyrirtækið almannahag án þess þó svo mikið sem að reyna það, enda ríki samkeppni á markaði og fyrirtækið sýni heiðarleika og virði lög og reglur.

Blaðið bendir á að slíkt fyrirtæki veitir fólki atvinnu sem sjái sér hag í að starfa þar fyrir tiltekin laun. Viðskiptavinir þess greiði viljugir fyrir vöru þess eða þjónustu, þeir sjái sér einnig hag í því. Með starfsemi sinni sé fyrirtækið, af eigingjörnum ástæðum, því stöðugt að þjóna almannahagsmunum, með leit sinni að góðum samskiptum við starfsfólk sitt og viðskiptavini. Þessi leit að hagnaði er ekki gallinn á kapítalismanum segir blaðið, heldur einmitt ástæðan fyrir því að kerfið virkar, ástæða þeirrar miklu velferðar sem þetta kerfi hefur skilað.

Skaðleg góðvild

Loks eru í leiðaranum nefnd dæmi um aðgerðir í nafni CSR sem skili verri niðurstöðu fyrir alla, m.a. þá stefnu sumra fyrirtækja að fjárfesta ekki í þróunarríkjum þar sem vinnuumhverfið sé lakara en gerist á Vesturlöndum. Þetta segir blaðið vera dæmi um skaðlega góðvild. Þessi stefna sé kannski í raun til komin í hagnaðarskyni, þar sem fyrirtæki kunni að sjá sér hag í þeirri ímynd sem slíkri afstöðu fylgi. Hins vegar séu allar líkur á því að slík stefna skaði það fólk sem hún á að koma til góðs: fólkið í þessum fátæku ríkjum, sem ella hefðu haft hag af hærra launuðum störfum fyrir fyrirtækið en annars bjóðast eða hefðu haft óbeinan hag af hinni erlendu fjárfestingu og efnahagsáhrifum hennar.