Efnahagsmál - 

15. mars 2013

Hætta með verðtrygginguna en halda verðbólgunni?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hætta með verðtrygginguna en halda verðbólgunni?

Umræðan um verðtrygginguna og verðbólguna er um margt á miklum villigötum. Meginhagsmunamál allra er að losna við verðbólguna sem virðist því miður gleymast alltof oft. Sú skoðun sýnist jafnvel algeng að Íslendingar muni aldrei geta losnað við verðbólguna og hún hljóti alltaf að verða meiri en í nálægum löndum.

Umræðan um verðtrygginguna og verðbólguna er um margt á miklum villigötum. Meginhagsmunamál allra er að losna við verðbólguna sem virðist því miður gleymast alltof oft. Sú skoðun sýnist jafnvel algeng að Íslendingar muni aldrei geta losnað við verðbólguna og hún hljóti alltaf að verða meiri en í nálægum löndum.

Verðbólgan á Íslandi er háð sömu efnahagslegu lögmálum og annars staðar. Ísland hefur enga sérstöðu. Það er líka ljóst hvað það er í löndunum í kringum okkur sem leiðir til þess að verðbólgan er minni þar en hér. Þar er miklu meiri agi í samfélaginu, hagstjórn, ríkisfjármálum og á vinnumarkaði. Hvorki stjórnvöld eða aðilar vinnumarkaðarins gefa sig óskhyggjunni á vald og víkja kerfisbundið frá því sem skynsamlegt er.

Hér virðist enn ekki vera samstaða um að verðbólgan sé vond og að meginmarkmið allra sem starfa í stjórnmálum, við hagstjórn eða á vinnumarkaði eigi að vera að halda henni í skefjum. Þetta skapar Íslandi sérstöðu miðað við nágrannalöndin þar sem samstaða ríkir um að ekki gangi að búa við nema afar lága verðbólgu. Löng og mikil verðbólgusaga Íslands getur vakið upp spurningar um hvort verðbólgan sé innbyggð og kerfislæg. Það er ekki þannig. Verðbólgan á Íslandi er ekki náttúrulögmál.

Af verðbólgunni er mikill skaði þar sem hún veldur lakari frammistöðu. Árangur í rekstri í atvinnulífinu minnkar, óvissa leiðir til verri ákvarðana. Kaupmáttur og lífskjör verða lakari en ella. Heimilin gjalda verðbólgunnar með því að skref til að hækka laun og tekjur ganga til baka. Fólk veit ekki hvar það stendur og áætlanir bregðast.

Af hverju hefst þá mikil umræða um afnám verðtryggingarinnar? Reynt er að kynna afnám hennar sem töfralausn við vanda sem verðbólgan veldur. Staðreyndin er sú að verðtryggð lán skila lægri fjármagnskostnaði en óverðtryggð við lága verðbólgu.

Stundum er fólki talin trú um að hægt sé að afnema verðtrygginguna en halda vöxtunum sem eru á verðtryggðu lánunum. Það er blekking. Vextir á verðtryggðum lánum verða alltaf lægstir, vextir á verðtryggðum lánum með þaki á verðtryggingunni verða alltaf eitthvað hærri og vextir á óverðtryggðum lánum alltaf hæstir þegar upp er staðið.

Það er líka blekking að halda því fram að fólk sé betur sett með hærri vöxtum af óverðtryggðum lánum vegna þess að þau rýrni í verðbólgunni. Það er afar ólíklegt að fólk með óverðtryggðar skuldir geti sigrað í kapphlaupi milli vaxta og verðbólgu.

Besta leiðin til þess að lækka fjármagnskostnað er lág verðbólga. Vextir verða því lægri því minni sem verðbólgan er. Vextir munu alltaf elta verðbólguna þegar hún eykst. Þá er látið liggja milli hluta hvort Seðlabankinn hækkar vexti óþarflega mikið. Lántakendum kemur alltaf best að verðbólga sé lág, en allra síst að afnema verðtrygginguna.

Verðtryggð lán eru aðeins eitt lánsform af mörgum. Þegar upp er staðið eru þetta lán með breytilegum vöxtum og sjálfvirkri skuldbreytingarformúlu. Ef þetta lánsform er afnumið meðan verðbólgan heldur áfram og vextir verða þeim mun hærri þarf að fara aðrar leiðir til skuldbreytinga. Þær leiðir eru síst betri en verðtryggingin.

Það að mörg heimili rísa ekki undir skuldum hefur ekkert með verðtrygginguna sem slíka að gera. Í fjölmörgum löndum þar sem mikil vandræði eru vegna skuldugra heimila er engin verðtrygging og samt missir fólk húsin sín. Vandinn er almennt þríþættur. Fasteignir voru keyptar á alltof háu verði sem síðan lækkaði verulega, fólk skuldsetti sig of mikið og tekjur lækkuðu m.a. vegna minni vinnu eða atvinnuleysis.

Nákvæmlega það sama gerðist hér á landi og úrvinnslan á þeim vanda, sem vissulega er mikill, verður ekkert skynsamlegri með því að ráðast á verðtrygginguna.

Leið númer eitt út úr vandanum er að skapa fleiri og betri störf þannig að tekjur heimilanna verði tryggðar. Þar skiptir lykilmáli að ráða niðurlögum verðbólgunnar og skapa stöðugleika. Leið númer tvö út úr vandanum er að auðvelda heimilunum að ráða við skuldirnar með markvissum skattalegum aðgerðum. Leið númer þrjú er síðan lækkun skulda í þeim tilvikum þegar kröfurnar eru hvort eð er tapaðar og helst þannig að viðkomandi geti byrjað upp á nýtt. Ekkert af þessu hefur neitt með verðtrygginguna að gera.

Umræðan um verðtrygginguna að undanförnu drepur stóra málinu á dreif. Sigur í glímunni við verðbólguna er aðalatriðið. Vonandi munu stjórnmálin á þeim vikum sem eru til kosninga snúast um hvernig hægt er að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Þá er von til þess að árangur náist í framhaldinu við að skapa fleiri og betri störf. Um það þarf að skapast samstaða.

Vilhjálmur Egilsson

Af vettvangi í mars 2013

Samtök atvinnulífsins