Hækkun vísitölunnar kemur á óvart

Vísitala neysluverðs í mars 2003 er 226,7 stig og hækkaði um 1,08% frá fyrra mánuði, skv. mælingu Hagstofu Íslands. Í samtali við Morgunblaðið segir Hannes Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hækkun vísitölunnar nú talsvert meiri en SA hafi búist við og komi á óvart. "Hækkunina má rekja til fárra stórra breytinga og augljósast eru útsölulok og miklu meiri kraftur í þeim en gert hafði verið ráð fyrir. Undanfarna mánuði hefur þessi liður lækkað meira en undanfarin ár og töldum við að þar væri um að ræða blönduð áhrif af gengishækkunum og útsöluáhrifum. Það virðist eins og að áhrif gengishækkunarinnar skili sér ekki inn að þessu sinni," segir Hannes.

Hann segir enn mikla hækkun á húsnæðisliðnum af völdum mikillar eftirspurnar en þar megi einnig sjá áhrif lækkunar ávöxtunarkröfunnar sem komi fram sem hækkun á staðgreiðsluverði á húsnæði. "Vísitalan byggist á staðgreiðsluverði og peningagreiðslan kann að breytast þó svo að markaðsverðið sem slíkt breytist ekki eins mikið. Hækkun eldsneytisverðs er náttúrlega af alkunnum ástæðum. Þessir þrír liðir hafa mest áhrif til hækkunar en matvælaverð hefur hins vegar lækkað," segir Hannes.