Hækkun launa í sjávarútvegi um tugi prósenta hefði áhrif á allar atvinnugreinar

Samtök atvinnulífsins hugsa um atvinnulífið í heild í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Í samtali við Fréttablaðið segir formaður SA, Vilmundur Jósefsson, að sjávarútvegurinn hafi fengið hörðustu kröfurnar í upphafi samningalotunnar, kröfur um 20 til 30 prósenta launahækkanir fyrir ákveðinn hóp fólks. "Við vitum alveg hvað gerist ef það verður gengið að þessu. Það leiðir út í allt samfélagið í formi verðbólgu og þar af leiðandi atvinnuleysi."

Vilmundur segir að SA vilji semja til þriggja ára og fara atvinnuleiðina út úr kreppunni sem áhugasamir geta kynnt sér á vefnum á vinnumarkadurinn.is.

"Staðan er sú að við teljum ekki annað fært en að semja til þriggja ára. Við viljum fara það sem við köllum atvinnuleið, það er að segja skapa atvinnu en ekki verðbólgu. Við viljum fara leið fjárfestinga en ekki fara á verðbólgudrifið neyslufyllerí. Við viljum hóflegar launahækkanir í takti við það sem gerist á nágrannalöndunum. Með því að semja til þriggja ára teljum við að hægt sé að skapa stöðugleika í þjóðfélaginu og getum skapað hagvöxt, og þar með betri lífskjör. Það gildir fyrir allar atvinnugreinar."

Vilmundur segir að launakröfur sem hafi beinst að SA séu gríðarlega mismunandi en þær nemi tugum prósenta í sumum tilfellum.

"Við teljum að sjö til átta prósenta launahækkun á þriggja ára tímabili muni viðhalda stöðugleika í þjóðfélaginu. Það eru vissulega mun hærri kröfur víða, sérstaklega í sjávarútveginum, en við getum ekki samið sér fyrir sjávarútveginn svo þeir sem vinni í sjávarútvegi séu á hærri launum en aðrir. Það hlýtur að flæða yfir þjóðfélagið með tilheyrandi verðbólgu, kaupmáttarrýrnun og atvinnuleysi.

Það er aldeilis útilokað að ætla að taka út ákveðna hópa vegna þess að staðan í ákveðnum fyrirtækjum sé betri í augnablikinu. Mesta kaupmáttaraukningin sem fengist væri að gengið myndi styrkjast, og að atvinnan myndi aukast. Við fáum ekki betri kjarabót en vinnu fyrir alla."

Viðtalið í heild má lesa á vef Vísis - í rafrænni helgarútgáfu Fréttablaðsins

Smelltu hér til að lesa viðtalið við Vilmund Jósefsson