Efnahagsmál - 

26. janúar 2007

Hækkun fjármagnstekjuskatts eykur ekki réttlæti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hækkun fjármagnstekjuskatts eykur ekki réttlæti

"Sífellt er klifað á því í opinberri umræðu að skattlagning fjármagnstekna sé mun hagstæðari en skattlagning launatekna. Einfaldur samanburður á skatthlutföllum í fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti einstaklinga er hins vegar mjög villandi þegar dregnar eru ályktanir um réttlæti í skattlagningu. Reynslan sýnir að lykilákvarðanir sem teknar voru við upptöku fjármagnstekjuskattsins voru réttar í ljósi þess að skatttekjur af fjármagnstekjum hafa aukist gríðarlega og nema 1,6% af landsframleiðslu og nálgast 20 milljarða króna. Fjármagnseigendur greiða því háar fjárhæðir til ríkisins en áður voru skatttekjur af fjármagnstekjum hverfandi.

"Sífellt er klifað á því í opinberri umræðu að skattlagning fjármagnstekna sé mun hagstæðari en skattlagning launatekna. Einfaldur samanburður á skatthlutföllum í fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti einstaklinga er hins vegar mjög villandi þegar dregnar eru ályktanir um réttlæti í skattlagningu. Reynslan sýnir að lykilákvarðanir sem teknar voru við upptöku fjármagnstekjuskattsins voru réttar í ljósi þess að skatttekjur af fjármagnstekjum hafa aukist gríðarlega og nema 1,6% af landsframleiðslu og nálgast 20 milljarða króna. Fjármagnseigendur greiða því háar fjárhæðir til ríkisins en áður voru skatttekjur af fjármagnstekjum hverfandi.

Tekjuöflunartæki fyrir ríkið

Við upptöku fjármagnstekjuskattsins var ákveðið að hafa skatthlutfallið sem lægst, eða 10%, en leggja skattinn á eins breiðan skattstofn og mögulegt var. Þannig leggst skatturinn á þann hluta fjármagstekna sem fer í að viðhalda raungildi höfuðstólsins, t.d. verðbætur. Þá eru vaxtagjöld eða útgjöld á móti leigutekjum ekki frádráttarbær og engin skattleysismörk gilda gagnvart skattinum. Hann er því fyrst og fremst byggður upp sem tekjuöflunartæki fyrir ríkið. Væri skatturinn hærri kæmi strax í ljós æpandi óréttlæti, t.d. vegna skattlagningar á verðbótum og öðrum fjármagnstekjum sem viðhalda óbreyttu raunvirði höfuðstólsins, og skorti á frádráttarliðum s.s. vegna greiddra vaxtagjalda og verðbóta. Skattkerfi annarra þjóða eru morandi í undanþágum, frádráttarreglum og sérreglum sem settar eru til þess að draga úr vandamálum vegna hárra skatthlutfalla og það sama myndi gerast hér á landi ef skatthlutfallið yrði hækkað.

Raunverulegt skatthlutfall fjármagnstekna 26,2%

Tekjuskattur fyrirtækja er 18% og iðulega er því ranglega haldið fram að það sé hagstæðara af skattalegum ástæðum að fá tekjur frá atvinnulífinu sem hagnað og arð en launatekjur. Er þá jafnvel dreginn upp sá villandi samanburður að bera saman 10% skatthlutfall í fjármagnstekjuskatti við 35,72% hlutfall tekjuskatts og útsvars í staðgreiðslu. En raunverulegt skatthlutfall verður 26,2% þegar tekjuskattur fyrirtækja og fjármagnstekjuskattur leggjast saman. Jafnframt verður að hafa í huga mismunandi uppbyggingu skattanna. Tekjuskattur einstaklinga hefur innbyggðan persónuafslátt og ef honum væri sleppt, og flatur tekjuskattur og útsvar tekið upp í staðinn, myndi samanlagt skatthlutfall þessara tveggja skatta þurfa að vera 25,3% miðað við tekjuárið 2005 og óbreyttar skatttekjur.  Auk þess eru greiddar barnabætur og vaxtabætur og að teknu tilliti til þeirra eru raunverulegar skattgreiðslur vegna tekjuskatts og útsvars 23,5% í hlutfalli við skattstofninn.

Sífellt meiri tekjur í ríkissjóð

Meginatriði í málinu er hins vegar það að tekjuskattur fyrirtækja og fjármagnstekjuskattur skila nú sífellt meiri tekjum í ríkissjóð. Samanlagt hefur tekjuaukningin vegna fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts fyrirtækja numið um 3,5% af landsframleiðslu eða í kringum 40 milljörðum króna. Það þýðir yfir 130 þúsund krónur á hvert mannsbarn í landinu. Þessi mikla tekjuaukning er forsenda þess að unnt hefur verið að lækka og jafnvel fella niður aðra skatta á síðustu misserum. Nægir að nefna niðurfellingu eignarskatts, lækkun tekjuskatts einstaklinga og lækkun virðisaukaskatts. Allt hefur þetta komið sér vel fyrir heimilin í landinu.

 

Tekjuskattur einstaklinga haldi áfram að lækka

Það hefur verið rétt stefna í skattamálum að líta á tekjuskatt fyrirtækja og fjármagnstekjuskatt sem tæki til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Þetta eru skattar sem nýtast illa til tekjujöfnunar í samfélaginu. Tekjuskattur einstaklinga hentar betur í því skyni. Skynsamlegasta þróunin í skattamálum er sú að nýta enn betur möguleika til tekjuaukningar af fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti fyrirtækja með hóflegum skatthlutföllum og að halda áfram að lækka tekjuskatt einstaklinga eða aðra skatta sem almenningur ber. Lækkun á skatthlutfalli tekjuskatts fyrirtækja, jafnvel allt niður í 12%, myndi hafa þessi áhrif og gefa færi á frekari lækkun á tekjuskatti einstaklinga.

Það er hörmulegt réttlæti sem felst í því að allir skattar séu góðir bara ef þeir eru jafn háir. Hækkun skatthlutfalls fjármagnstekjuskatts og meðfylgjandi breyting á eðli hans í kjölfarið með fleiri undanþágum hefði í för með sér minni tekjur fyrir ríkissjóð og þörf á hækkun annarra skatta, s.s. tekjuskatts einstaklinga. Mikið er íslenska þjóðin lánsöm meðan hún þarf ekki að búa við slíkt réttlæti." 

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins