Hægur efnahagsbati framundan í Evrópu

UNICE, Evrópusamtök atvinnulífsins, sendu í dag frá sér greiningu á og spá um þróun efnahagsstærða. Samtökin spá 0,9% hagvexti á evrusvæðinu á þessu ári og 2,1% á því næsta og þar af leiðandi mun efnahagsbati ekki eiga sér stað eins fljótt og búist var við í upphafi ársins. Samtökin vara við auknum álögum á fyrirtæki, einkum auknum gjöldum og launakostnaði, þar sem fyrirtækin berjast við að halda uppi arðsemi og búa flest við umframafkastagetu. 

Óvissuþættir
Efnahagsumhverfið er óvisst í ljósi veikingar bandaríska hagkerfisins, bágborins ástands á hlutabréfamörkuðum og pólitískrar spennu í Mið-Austurlöndum.  UNICE býst við hægum bata við núverandi aðstæður þar sem verðbólga hefur aukist, kostnaðar- og verðþensla hefur dregið úr hagnaði og fjárfestingum er slegið á frest.  Loks er atvinnuleysi mikið sem dregur úr sjálfstrausti neytenda. 

Vara við auknum launakostnaði
UNICE telur að við þessar aðstæður séu heilladrýgstu viðbrögðin að lækka vinnuaflskostnað í því skyni að lágmarka aukningu atvinnuleysis, sem þegar er mjög mikið. UNICE telja ekki mikið svigrúm til þensluskapandi aðgerða af hálfu hins opinbera í ljósi mikil halla í opinberum fjármálum. UNICE kynnti einnig aðgerðir sem samtökin telja að ríkisstjórnir og fyrirtæki þurfi að grípa til í glímunni við vaxandi erfiðleika í efnahagsmálum. Ríkisstjórnir í Evrópuríkjunum verða að stuðla að samkeppnishæfni, aukinni framleiðni, lækkandi vinnuaflskostnaði og bættri stöðu opinberra fjármála.

Sjá greiningu UNICE á heimasíðu samtakanna.