Hægist um hjá eignarleigum

Nýjustu tölur frá Seðlabankanum um umsvif eignarleiga gefa til kynna að hægt hafi um í þessum viðskiptum. Staða eignarleigusamninga lækkaði í ágúst sl. um tæplega 300 m.kr. og var lækkunin nær einvörðungu hjá fyrirtækjum en hjá einstaklingum var staðan nánast óbreytt. Útlán eignarleiga jukust hins vegar nokkuð í ágústmánuði en þó töluvert minna en í sama mánuði í fyrra. Á fyrstu átta mánuðum ársins jukust útlán og eignarleigusamningar eignarleiga samtals um tæpa fimm milljarða króna samanborið við tæpa sjö milljarða króna í fyrra. Þessar tölur eru enn ein vísbendingin um viðsnúninginn í efnahagslífinu um þessar mundir.