Efnahagsmál - 

31. júlí 2001

Hægari útlánavöxtur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hægari útlánavöxtur

Gríðarleg umskipti hafa átt sér stað í lántökum fyrirtækja, heimila og opinberra aðila hjá innlánsstofnunum. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs lækkuðu skuldir innlendra aðila tengdar erlendri mynt, reiknaðar á gengi í lok júní, um hálfan milljarð króna, en gengisvísitalan hækkaði um 16% frá áramótum til júníloka. Í þessum útreikningum eru útlán innlánsstofnana til erlendra aðila ekki meðtalin. Í júnílok í fyrra höfðu hins vegar skuldir tengdar erlendum myntum aukist um 100 milljarða króna frá ársbyrjun 2000, þar af um 75 milljarða króna í júnímánuði 2000, en í júní 2001 lækkuðu þessar skuldir í krónum talið.

Gríðarleg umskipti hafa átt sér stað í lántökum fyrirtækja, heimila og opinberra aðila hjá innlánsstofnunum.  Á fyrstu sex mánuðum þessa árs lækkuðu skuldir innlendra aðila tengdar erlendri mynt, reiknaðar á gengi í lok júní, um hálfan milljarð króna, en gengisvísitalan hækkaði um 16% frá áramótum til júníloka.  Í þessum útreikningum eru útlán innlánsstofnana til erlendra aðila ekki meðtalin. Í júnílok í fyrra höfðu hins vegar skuldir tengdar erlendum myntum aukist um 100 milljarða króna frá ársbyrjun 2000, þar af um 75 milljarða króna í júnímánuði 2000, en í júní 2001 lækkuðu þessar skuldir í krónum talið. 


 

Þessar tölur sýna ljóslega hver áhrif þáverandi gengisstefna hafði, þ.e. að ýta undir erlendar lántökur, og jafnframt að gengisfall krónunnar og aukin gengisóvissa samhliða núverandi gengisstefnu hefur snúið þeirri þróun við.

Verðtryggð útlán innlánsstofnana stóðu nánast í stað á fyrstu sex mánuðum þessa árs, þegar verðtryggðar skuldir í ársbyrjun eru hækkaðar upp til verðlags í júní.  Verðtryggðar skuldir jukust um 700 m.kr. eða um tæp 0,4%.  Í júnílok í fyrra höfðu verðtryggð útlán hins vegar aukist um 23 milljarða frá ársbyrjun. 

Óverðtryggð útlán halda áfram að aukast en hægar en í fyrra.  Óverðtryggð útlán jukust um átta milljarða króna, eða 4,5%, á fyrstu sex mánuðum þessa árs samanborið við 12,5 milljarða króna á sama tíma í fyrra.

Þessi þróun útlána innlánsstofnana er sterk vísbending um að hægja taki á efnahagsstarfseminni í landinu á næstunni.

Samtök atvinnulífsins