Efnahagsmál - 

01. desember 2005

Hægar breytingar í tekjuskiptingu á Íslandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hægar breytingar í tekjuskiptingu á Íslandi

Því er ítrekað haldið fram í opinberri umræðu að ójöfnuður í launum fari sífellt vaxandi hér á landi og að Ísland sé að komast í hóp landa þar sem ójöfnuður er hvað mestur. Hvorug þessara staðhæfinga er á rökum reist.

Því er ítrekað haldið fram í opinberri umræðu að ójöfnuður í launum fari sífellt vaxandi hér á landi og að Ísland sé að komast í hóp landa þar sem ójöfnuður er hvað mestur.  Hvorug þessara staðhæfinga er á rökum reist.  

Það sem einkum veldur þessum misskilningi er að fjármagnstekjur einstaklinga hafa vaxið gríðarlega hér á landi undanfarinn áratug en ójöfnuður tekna, að fjármagnstekjum meðtöldum, hefur farið vaxandi af þeim sökum.   Breytingar á tekjuskiptingunni, að fjármagnstekjum undanskildum, undanfarin ár eru hins vegar ekki miklar. 

Hvað alþjóðlegan samanburð varðar, þá liggja engar nýlegar heimildir fyrir um tekjuskiptingu á  Íslandi í samanburði við aðrar þjóðir, en hafa ber í huga að samkvæmt rannsókn  Hagfræðistofnunar árið 2001 var ójöfnuður næst minnstur á Íslandi meðal þeirra 94 þjóða sem fjallað var um.

Hagstofan hefur nýlega gefið út hagtöluárbókina Landshagi 2005, en þar er birt dreifing  ráðstöfunartekna hjóna árið 2004. Í þessum gögnum eru fjármagnstekjur ekki meðtaldar. Tekjunum er dreift eftir tíundarhlutum, þ.e. ef tekið er dæmi um 100 hjón þá sýnir lægsta tíundin meðalráðstöfunartekjur 10 tekjulægstu hjónanna, næst lægsta tíundin sýnir meðaltekjur  hjóna  sem eru elleftu til tuttugustu í röðinni talið neðan frá, og svo koll af kolli þar til komið er að efstu tíundinni sem sýnir meðaltekjur 10 tekjuhæstu hjónanna.

Smellið á myndina

Dreifing ráðst.tekna des 2005

Þróun dreifingar  ráðstöfunartekna hjóna má sjá í línuritinu. Þar er hlutfallið milli hæstu og lægstu tíundar borið saman frá árinu 1998 til ársins 2004 og einnig hlutföllin milli næst hæstu og þriðju hæstu tíundar og næst lægstu og þriðju lægstu tíundar.  Hlutfallið milli ráðstöfunartekna hæstu og lægstu tíundarhluta hækkaði úr 4,6 árið 1998 í 5,3 árið 2004.  Mesta breytingin á hlutfallinu var á síðasta ári þegar meðaltáðstöfunartekjur hjóna í hæstu tíundinni hækkuðu um rúm 10% en ráðstöfunartekjur annarra hjóna um 4-5% að meðaltali. Hlutföllin milli annarra tekjuhópa hjóna hafa verið mun stöðugri undanfarin ár en á milli þeirra allra hæstu og allra lægstu. Hlutföllin milli ráðstöfunartekna næst hæstu tíundarhluta hjóna og þess næst lægsta var 2,4 árin 1998 til 2000 en hækkað í 2,5 árið 2001 og hefur verið óbreytt síðan og hlutföllin milli þriðja hæsta tíundarhluta hjóna og þess þriðja lægsta hafa einnig verið mjög stöðugt, eða á bilinu 1,7-1,8 á þessu tímabili. 

Breytingar á tekjudreifingu hjóna geta átt sér margar skýringar. Aukin atvinnuþátttaka og hækkandi starfshlutfall kvenna hafa augljóslega mikil áhrif og sömuleiðis lengri vinnutími undanfarin ár og stöðugar  breytingar á samsetningu starfa á vinnumarkaðnum.  Í neðstu tíundunum er hátt hlutfall lífeyrisþega og þar af leiðandi hefur þróun lífeyrisgreiðslna í samanburði við launatekjur mikil áhrif.  Einnig má ætla að í neðstu tíundinni séu námsmenn fyrirferðamiklir og hafa sveiflur í atvinnuþátttöku þeirra áhrif á stöðu tekjulægstu tíundarinnar í hlutfalli við aðra. Mikil tekjuhækkun hæstu tíundarinnar undanfarin ár umfram aðra tekjuhópa er þó það sem mesta athygli vekur og skýrist hún m.a. af gríðarlegum vexti í umsvifum fjármálafyrirtækja hér á landi og erlendis og aukinni alþjóðavæðingu atvinnulífsins sem stuðlað hefur að mikilli fjölgun hálaunastarfa.

Samtök atvinnulífsins