Efnahagsmál - 

20. maí 2010

Hægagangur í úrlausn skuldavanda framlengir kreppuna og tefur endurreisn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hægagangur í úrlausn skuldavanda framlengir kreppuna og tefur endurreisn

"Það er afar brýnt að bankarnir vinni með fyrirtækjunum að úrlausn þess vanda sem skapaðist annars vegar við hrun bankanna og hins vegar gríðarlega gengislækkun íslensku krónunnar. Nauðsynlegt er að sem fyrst takist að ljúka afgreiðslu mála þannig að fyrirtækin þurfi ekki að velkjast um í óvissu misseri eftir misseri án þess að það takist að ljúka samkomulagi við viðskiptabanka sinn." Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, m.a. í ræðu á opnum fundi Samkeppniseftirlitsins um yfirtöku banka á fyrirtækjum og hlutverk Samkeppniseftirlitsins.

"Það er afar brýnt að bankarnir vinni með fyrirtækjunum að úrlausn þess vanda sem skapaðist annars vegar við hrun bankanna og hins vegar gríðarlega gengislækkun íslensku krónunnar. Nauðsynlegt er að sem fyrst takist að ljúka afgreiðslu mála þannig að fyrirtækin þurfi ekki að velkjast um í óvissu misseri eftir misseri án þess að það takist að ljúka samkomulagi við viðskiptabanka sinn." Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, m.a. í ræðu á opnum fundi Samkeppniseftirlitsins um yfirtöku banka á fyrirtækjum og hlutverk Samkeppniseftirlitsins.

Vilmundur sagði vandann sem við er að etja mikinn, í skýrslu AGS við aðra endurskoðun efnahagsáætlunarinnar hafi m.a. komið fram að helmingur fyrirtækja væri í einhvers konar greiðslufrystingum eða öðrum úrræðum.

Í ræðu sinni sagði Vilmundur m.a.:

"Fljótlega eftir bankahrunið töldu bankarnir að það myndi taka 12 til 24 mánuði að fara í gegnum vanda fyrirtækjanna og móta afstöðu til aðgerða gagnvart þeim. Nú, ríflega einu og hálfu ári síðar, er enn talið að þetta verkefni muni taka eitt til tvö ár. Þótt gera megi því skóna að fyrstu hugmyndir um umfang verkefnisins hafi verið óraunhæfar þá er nú svo komið að þessi óvissutími er að verða allt of langur. Drátturinn ýtir undir óvissu og skuldasöfnun fyrirtækjanna og gerir enn erfiðara en ella að bjarga fyrirtækjum sem þó eiga sér rekstrargrundvöll.

Það hefur verið reynsla annara þjóða sem gengið hafa í gegnum svipaða kreppu og hér að hægagangur í úrlausn skuldavanda fyrirtækja framlengir kreppuna og tefur alla endurreisn. Það er því nauðsynlegt að sem fyrst sé brugðist við vanda þeirra fyrirtækja sem eiga sér eðlilegar rekstrarlegar forsendur. Áhyggjur hafa komið fram um að bankar mismuni fyrirtækjum alvarlega og viðbúið að slík gagnrýni muni aukast eftir því sem fram vindur. Því eru vinnureglur bankanna afar mikilvægar og nauðsynlegt að eftir þeim sé farið til að ljóst sé að málefnalega sé staðið að endurskipulagningu fyrirtækja og jafnræðis og sanngirni sé gætt.

Það verður að hafa í huga að sú aukning skulda sem varð við gengisfall krónunnar setur rekstri fyrirtækjanna afar þröngar skorður. Ábyrgir fyrirsvarsmenn þeirra sem búa við sæmilegt greiðsluflæði rembast við að semja um skuldir sínar og greiða af þeim eins og frekast er unnt þrátt fyrir að eigið fé þeirra sé lítið eða jafnvel ekkert. Öll fjárfestingarverkefni eru lögð á hilluna, dregið er úr nýsköpun eins og frekast er unnt og smám saman dregur einnig kraftinn og viljann úr þessum fyrirtækjum. Þessa hringrás verða bankarnir að hjálpa til að stöðva. Það eru langtímahagsmunir bankanna og í raun þjóðfélagsins alls að fyrirtækjum, sem ekki hafa stofnað til óábyrgra skulda, verði veitt aðstoð til að laga efnahagsreikning sinn og með því tryggt að þau geti horft til framtíðar, stundað eðlilega uppbyggingu, sinnt markaðsmálum og stundað nýsköpun. Með þessu er ýtt undir ábyrgð í rekstri, en með sífelldum drætti á að þessu sé sinnt er ýtt undir ábyrgðarleysi í rekstrinum, því að þá skiptir ekki máli hvort skuldirnar eru meiri eða minni.

Við endurskipulagningu fyrirtækja hlýtur fyrsti kostur að vera sá að vinna með eigendum þeirra. Þar liggur þekkingin á rekstri fyrirtækjanna, markaðsmálum og öðrum þeim atriðum sem máli skipta. Fjárhagsleg endurskipulagning byggist auðvitað á því að fyrirtækin eigi sér rekstarforsendur til lengri tíma.

Niðurfelling skulda, án sérstaks framlags frá eigendum, kann í mörgum tilvikum að vera besti kosturinn fyrir fjármálafyrirtækin því þannig hámarkast verðmæti fyrirtækjanna og endurheimtur hámarkast. Það eru einnig rök fyrir lækkun að skulda fyrirtækja að uppbygging fyrirtækjanna er í mörgum tilvikum ævistarf eigendanna og eignir þeirra að langstærstum hluta bundnar í fyrirtækinu. Það kann að vera erfitt eða útilokað fyrir eigendurna að leggja fram nýtt eigið fé, eins og krafist er af sumum en þó ekki öllum bönkum, sem leiðir til þess að fyrirtækin eru af þeim tekin og seld. Eigandinn horfir á ævistarfið hverfa þrátt fyrir að hafa alla tíð stundað ábyrgan rekstur og skuldsetning fyrirtækjanna einungis orðið óhófleg vegna gengisfalls krónunnar.

Í þeim tilvikum sem bankar og fjármálastofnanir taka yfir rekstur fyrirtækja verða þau að stefna að sölu í opnu og gagnsæju ferli sem allra fyrst. Þegar bankar eru farnir að reka fyrirtæki á samkeppnismarkaði um lengri tíma skapast hætta á ójafnvægi á markaðnum, að ekki séu gerðar sömu arðsemiskröfur og til annara fyrirtækja og að bankar í krafti síns fjárhagslega styrks sækist eftir betri stöðu síns fyrirtækis á samkeppnismarkaði en annars gæti náðst."

Sjá nánar:

Ræða Vilmundar Jósefssonar á fundi Samkeppniseftirlitsins 20. maí 2010 (PDF)

Samtök atvinnulífsins