Greiddu 550 milljarða í laun 2017

Launagreiðslur lítilla og meðalstórra fyrirtækja hafa nær tvöfaldast frá árinu 2010 og námu á árinu 2017 um 550 milljörðum króna. Þetta kom m.a. fram á opnum fundi Litla Íslands en Hagstofa Íslands tók gögnin saman.

Óttar Snædal, hagfræðingur á efnahagssviði SA, fjallaði um umfang og mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi sem eru uppistaðan í atvinnulífinu.

Kynning Óttars (PDF)

Geta litlu fyrirtækin hækkað kaupið? var yfirskrift fundarins en ljóst er að svigrúm til launahækkana nú er takmarkað eftir miklar launahækkanir undanfarinna ára. Niðurstaða komandi kjarasamninga mun ráða miklu um rekstrarumhverfi fyrirtækja á næstu misserum en sjö af hverjum tíu starfsmönnum á vinnumarkaði vinna hjá litlu eða meðalstóru fyrirtæki, alls um 100 þúsund starfsmenn. Lítil og meðalstór fyrirtæki greiða 68% af greiddum launum í landinu.

Á fundi Litla Íslands ræddu stjórnendur minni fyrirtækja um stöðu og horfur út frá eigin rekstri. Þátt tóku Brynja Brynjarsdóttir, eigandi Hraunsnefs sveitahótels, Eva Hlín Dereksdóttir, framkvæmdastjóri Raftákns verkfræðistofu, Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar og Hrefna Björk Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Rok restaurant. Voru þau sammála um að staðan væri viðkvæm en laun á undanförnum árum hafa hækkað hlutfallslega mest hjá minni fyrirtækjum en launakostnaður vegur þungt í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Fyrirtæki sem kölluð eru örfyrirtæki í hagtölum, með 1-9 starfsmenn, eru mikilvæg í atvinnulífinu og greiddu t.a.m. 126 milljarða króna í heildarlaun árið 2017. Lítil fyrirtæki, með allt að 49 starfsmenn greiddu 216 milljarða og meðalstór fyrirtæki með allt að 249 starfsmenn greiddu 210 milljarða.

Ríkið tekur til sín drjúgan hlut þessara greiðslna og til að mynda nam tryggingagjald 60 milljörðum króna 2017 en lítil fyrirtæki hafa ítrekað kallað eftir lækkun gjaldsins sem heftir nýsköpun og heldur aftur af fjölgun starfa.

Launakostnaður fyrirtækja er hár en á fundi Litla Íslands var sýnt hvernig heildargreiðslur atvinnurekenda eru mun hærri en umsamin laun. Af hverjum 100 krónum sem renna til launafólks þarf atvinnurekandinn hins vegar að greiða 157 krónur og munar um minna.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík á Facebook-síðu Litla Íslands. Sigmar Vilhjálmsson stýrði fundinum en sérstakur gestur hans var Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðabæjar.

Horfðu á fundinn - smelltu til að kveikja á Sjónvarpi atvinnulífsins

Litla Ísland er vettvangur þar sem lítil fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum en landið var stofnað árið 2013. SA og aðildarsamtök eru bakhjarlar Litla Íslands. 

Myndir frá fundinum á Facbook-síðu Litla Íslands