Efnahagsmál - 

03. Júlí 2003

Greiðari leið fyrir erlent starfsfólk

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Greiðari leið fyrir erlent starfsfólk

Á vinnumarkaðnum er nú þokkalegt jafnvægi þótt atvinnuleysi sé nokkuð í tilteknum hópum, einkum meðal starfsmanna með litla menntun og starfsreynslu, en í mörgum starfsgreinum er ekkert atvinnuleysi. Á næstunni er fyrirséð vaxandi eftirspurn eftir tækjastjórnendum við jarðvinnu og byggingamönnum vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Þegar fram í sækir munu afleidd áhrif hærra framkvæmdastigs leiða til vaxandi eftirspurnar eftir starfsmönnum á fjölmörgum öðrum sviðum. Við þessa auknu eftirspurn á vinnumarkaði mun síðan bætast starfsmannaþörf við byggingu álversins á Reyðarfirði og að öllum líkindum við stækkun Norðuráls og tengdar virkjunarframkvæmdir.

Á vinnumarkaðnum er nú þokkalegt jafnvægi þótt atvinnuleysi sé nokkuð í tilteknum hópum, einkum meðal starfsmanna með litla menntun og starfsreynslu, en í mörgum starfsgreinum er ekkert atvinnuleysi. Á næstunni er fyrirséð vaxandi eftirspurn eftir tækjastjórnendum við jarðvinnu og byggingamönnum vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Þegar fram í sækir munu afleidd áhrif hærra framkvæmdastigs leiða til vaxandi eftirspurnar eftir starfsmönnum á fjölmörgum öðrum sviðum. Við þessa auknu eftirspurn á vinnumarkaði mun síðan bætast starfsmannaþörf við byggingu  álversins á Reyðarfirði og að öllum líkindum við stækkun Norðuráls og tengdar virkjunarframkvæmdir.

Rúm 2000 ársverk vegna stóriðjuframkvæmda þegar mest lætur
Nefnd á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, sem fjallaði um mannaflaþörf vegna stóriðjuframkvæmda, áætlaði í mars að vinnuaflsnotkunin yrði samtals 7.500 ársverk við byggingu álvers Alcoa, Kárahnjúkavirkjunar, stækkun Norðuráls og tengdar framkvæmdir, bæði vatnsorku- og jarðvarmavirkjanir. Ársverkin yrðu 400 á þessu ári, 1.400 á næsta ári, rúm 2.000 á árinu 2005 og 2006, 1.000 árið 2007 og rúm 600 árið 2008. Er þar einungis um að ræða bein áhrif framkvæmdanna en afleidd áhrif, margfeldisáhrif, voru ekki áætluð af nefndinni. Aðrar athuganir hafa gert ráð fyrir tvöfalt og allt að því þrefalt meiri viðbótareftirspurn á vinnumarkaði af völdum framkvæmdanna en sem nemur upphaflegum áhrifum. Í ljósi þess að eftirspurnin er mismunandi innan ársins getur eftirspurnin orðið mun meiri á álagstoppum en tölurnar sýna.

Í niðurstöðum nefndarinnar segir að "eftirspurn eftir vinnuafli verði talsvert umfram innlent framboð frá miðju ári 2004 til síðari hluta árs 2007". Nefndin áætlaði að 18% af mannaflaþörfinni verði sinnt af erlendum starfsmönnum, en aðrar áætlanir, t.d. Nýsis hf. og Hönnunar hf., hafa áætlað hlutfall erlendra starfsmanna á bilinu 20-30%. Niðurstaða nefndarinnar er sú að yfir sumartímann árin 2005 og 2006 verði þörf fyrir 900 erlenda starfsmenn við framkvæmdirnar, m.a. bygginga- og jarðvinnumenn, málmiðnaðar- og rafiðnaðarmenn.

Flókin leið fyrir erlent starfsfólk
Útlendingar sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjum EES-samningsins þurfa ekki atvinnuleyfi hér á landi. Ríkisborgarar annarra ríkja þurfa að fá dvalarleyfi frá Útlendingastofnun og atvinnuleyfi frá Vinnumálastofnun. SA hafa margsinnis lagt til að þetta fyrirkomulag verði einfaldað og einni stofnun falið að sjá um hvoru tveggja, líkt og gerist víða í nágrannalöndunum. Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga er atvinnurekanda veitt tímabundið leyfi til að ráða útlending til starfa og þarf nokkrum skilyrðum að vera fullnægt, m.a. að atvinnurekandi hafi leitað til svæðisvinnumiðlunar. Vinnumálastofnun er þó heimilt að víkja frá þessu skilyrði ef slík leit er fyrirsjáanlega árangurslaus að mati stofnunarinnar. Auk annarra skilyrða þarf umsögn stéttarfélags í hlutaðeigandi starfsgrein jafnframt að liggja fyrir og hefur félagið að hámarki 14 daga umsagnarfrest.

Oft allt að þriggja mánaða ferli
Reynslan af stórframkvæmdum undanfarinna ára kennir að þeir erlendu starfsmenn sem koma munu til starfa við væntanlegar stórframkvæmdir munu að stórum hluta koma frá ríkjum utan EES-svæðisins. Reynsla þeirra verktaka sem sótt hafa um atvinnuleyfi fyrir erlenda starfsmenn vegna vinnu við verklegar framkvæmdir undanfarin ár er sú að ferlið taki allt of langan tíma og það setji framkvæmdir í uppnám þar sem tímarammar af hálfu verkkaupa eru ávallt þröngir. Dæmi eru um að ferlið frá umsókn til leyfis geti tekið allt að þrjá mánuði og það er óviðunandi langur tími.

Stjórn SA ályktaði í maí sl. að bregðast yrði við umframeftirspurn í ákveðnum greinum með því að greiða fyrir aðgangi erlends starfsfólks með nauðsynlega þekkingu. Sama hefur stjórn Samtaka iðnaðarins gert og lagt áherslu á að hindranir séu fjarlægðar og komið sé í veg fyrir tímatafir vegna komu erlends vinnuafls til landsins. Þá lagði Seðlabanki Íslands áherslu á þennan þátt í síðasta ársfjórðungsriti bankans, Peningamálum, þar sem segir að það "ætti að auka framboð vinnuafls á framkvæmdatímanum með meiri notkun erlends vinnuafls en ella".

Stytta þarf ferla
Á næstu mánuðum og misserum mun mikið mæða á Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun við útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa fyrir útlendinga. Atvinnulífið gerir þá eðlilegu kröfu til þessara stofnana að nauðsynlegir ferlar við útgáfu þessara atvinnuleyfa verði styttir eins og unnt er. Það blasir við að Vinnumálastofnun  getur í ljósi upplýsinga sem hún hefur fallið frá skilyrðinu um að atvinnurekandi sem hyggst flytja inn starfsmenn vegna vinnu við byggingu álvers eða virkjunarframkvæmda þurfi að snúa sér fyrst til svæðisvinnumiðlunar. Þá ætti að vera auðvelt að afgreiða  umsögn stéttarfélags á verulega skemmri tíma en tveimur vikum. Æskilegt væri að  Vinnumálastofnun og verkalýðshreyfingin kæmu sér saman um að stytta frestinn niður í 3-5 daga nema í sérstökum undantekningartilvikum, enda ljóst að við þensluaðstæður á vinnumarkaði geta slíkar  umsagnir vart annað en staðfest að skortur sé á vinnuafli á viðkomandi sviði.

Sérreglur um starfsmenn EES-fyrirtækja sem hingað koma til að veita þjónustu
Samkvæmt EES-samningnum eiga fyrirtæki rétt á að fara á milli landa til að veita þjónustu og geta þá tekið með sér starfsfólk sitt jafnvel þótt það hafi ekki ríkisborgararétt í EES-ríki. Samkvæmt íslenskum lögum mega starfsmenn fyrirtækisins í slíkum tilvikum koma hingað til lands og veita hér þjónustu í allt að 90 daga hafi þeir atvinnuleyfi í EES- eða EFTA ríki. Starfsmenn sem uppfylla fyrrgreind skilyrði þurfa hvorki dvalar- né atvinnuleyfi. Nauðsynlegt er að koma á vinnuferlum sem tryggja að engin fyrirstaða verði við komu þessara starfsmanna til landsins.

Undarleg meðferð á umsóknum fyrir verk- og tæknifræðinga
Það vakti athygli á dögunum þegar í ljós kom að Vinnumálastofnun hafði óskað eftir umsögnum Stéttarfélags verkfræðinga og Tæknifræðingafélags Íslands um umsókn verktakans við Kárahnjúkavirkjun, Impregilo SpA, um atvinnuleyfi fyrir tæknimenn fyrirtækisins. Það vakti síðan undrun að stéttarfélögin lögðust gegn því að leyfi væri veitt með tilvísun til þess að innlendir tæknimenn gætu sinnt þessum störfum og að launakjörin hjá fyrirtækinu væru ekki nægilega góð. Þessi afstaða félaganna er þeim ekki til sóma enda myndu þau trauðla sýna sambærilegum umsögnum skilning frá stéttarfélögum í löndum sem íslensk fyrirtæki hafa starfað í. Þá hlýtur að orka tvímælis að Vinnumálastofnun sendi félögunum umsagnarbeiðnir í ljósi þess að fráleitt er að innlendir verk- og tæknifræðingar geti með einföldum hætti eða skömmum fyrirvara komið í stað þeirra verk- og tæknifræðinga í starfi hjá erlendum fyrirtækjum sem fengið hafa verkefni við virkjunarframkvæmdir hér á landi.  

Mikilvægt er að menn missi ekki sjónar á því að greið leið erlends starfsfólks inn í landið í tengslum við virkjunar- og stóriðjuframkvæmdir stuðlar að því að jafnvægi geti haldist á vinnumarkaði sem er forsenda stöðugleika í efnahagslífinu og viðunandi starfsskilyrða atvinnulífsins.

Hannes G. Sigurðsson

Samtök atvinnulífsins