Efnahagsmál - 

04. október 2001

Gott útspil í skattamálum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Gott útspil í skattamálum

Útspil ríkisstjórnarinnar í skattamálum frá því í gær er í heild afar jákvæð niðurstaða fyrir atvinnulífið og góðar fréttir fyrir íslenskt efnahagslíf. Fyrstu viðbrögð hlutabréfamarkaðarins eru til vitnis um það. Eins og fram hefur komið hafa starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja versnað hlutfallslega í samanburði við flest nágrannalönd okkar vegna breytinga sem þar hafa orðið á undanförnum misserum. Sá samdráttur sem nú gerir vart við sig í íslensku efnahagslífi knýr einnig á um að hlúð sé að starfsskilyrðum fyrirtækjanna. Því ber ekki síst að fagna þeirri stefnumótun og framtíðarsýn sem að baki fyrirhuguðum skattabreytingum býr. Þar er á ferðinni sú nálgun sem Samtök atvinnulífsins hafa lagt megináherslu á undanfarin misseri, þ.e. að hóflegri skattheimta stuðli að öflugra atvinnulífi og aukinni verðmætasköpun, sem treystir lífskjör almennings og bætir tekjugrundvöll ríkisins til lengri tíma litið.

Útspil ríkisstjórnarinnar í skattamálum frá því í gær er í heild afar jákvæð niðurstaða fyrir atvinnulífið og góðar fréttir fyrir íslenskt efnahagslíf. Fyrstu viðbrögð hlutabréfamarkaðarins eru til vitnis um það.  
 
Eins og fram hefur komið hafa starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja versnað hlutfallslega í samanburði við flest nágrannalönd okkar vegna breytinga sem þar hafa orðið á undanförnum  misserum. Sá samdráttur sem nú gerir vart við sig í íslensku efnahagslífi knýr einnig á um að hlúð sé að starfsskilyrðum fyrirtækjanna. Því ber ekki síst að fagna þeirri stefnumótun og framtíðarsýn sem að baki fyrirhuguðum skattabreytingum býr. Þar er á ferðinni sú nálgun sem Samtök atvinnulífsins hafa lagt megináherslu á undanfarin misseri, þ.e. að hóflegri skattheimta stuðli að öflugra atvinnulífi og aukinni verðmætasköpun, sem treystir lífskjör almennings og bætir tekjugrundvöll ríkisins til lengri tíma litið.

Lækkun tekju- og eignarskatts er líkleg til að örva fjárfestingu í íslensku atvinnulífi og hafa styrkjandi áhrif á gengi krónunnar. Fjarlægt er að ræða um verðbólguáhrif af þessum breytingum sem hafa bein áhrif á pyngju fyrirtækja á árinu 2003.

Vissulega hefðu ýmsir viljað sjá lengra gengið í lækkun tekjuskatts fyrirtækja, en tillaga SA var að hann yrði lækkaður í 15%. Þá hefðu SA viljað sjá skrefið stigið til fulls í afnámi stimpilgjalda og eignarskatta á fyrirtæki, enda er nánast um að ræða óþekkta skattheimtu í helstu viðskiptalöndum Íslendinga. Taka ráðherrar undir það í sínum ummælum að þessi skattheimta sé á útleið þótt ekki sé hægt að ganga lengra nú, og er það fagnaðarefni. Gott er að sjá nú tillögur um afnám sérstaks eignarskatts, svonefnds Þjóðarbóklöðuskatts, sem sýnir að tímabundnir skattar þurfa ekki að verða varanlegir í reynd. Þá hafa SA lagt áherslu á afnám verðbólgureikningsskila og á að fyrirtækjum yrði heimilað að gera ársreikninga og telja fram til skatts í erlendri mynt og fela þær breytingar í sér mikilvægar umbætur. Hækkun tryggingagjaldsins vegur að nokkru leyti á móti lækkunaráhrifum annarra skattabreytinga, en þar er á ferðinni breyting sem er íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu. Að sjálfsögðu kann að vera misjafnt gagnvart einstökum fyrirtækjum hvernig slíkar breytingar koma út en í  það heila tekið eru fyrirhugaðar breytingar mjög jákvætt útspil til eflingar íslensks atvinnulífs.


 

Samtök atvinnulífsins