Góður vinnustaður besta meðalið

Ungt fólk með geðraskanir á fullt erindi á vinnumarkaðinn. Ýmislegt er hægt að gera til að hjálpa því að hefja vinnu á nýjan leik eftir veikindi og hefur reynslan sýnt að það er mikilvægur liður í endurhæfingu þeirra. Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa vakið athygli á svokallaðri IPS hugmyndafræði (e. Individual Placement and Support) sem hefur reynst vel við að aðstoða ungt fólk með miklar geðraskanir við að stíga sín fyrstu skref út á vinnumarkaðinn.

Það að auka fjölbreytni á vinnumarkaði, og veita fólki sem hefur glímt við erfið veikindi tækifæri til að leggja sitt af mörkum, er öllum til hagsbóta. 

Stuðningur atvinnuráðgjafa
Hugmyndafræðin kemur úr smiðju Bandaríkjamannanna Deborah Becker og Robert Drake sem byrjuðu að þróa hana fyrir um 30 árum. Hún gengur út á að einstaklingur sem glímir við þungar geðraskanir nýtur stuðnings atvinnuráðgjafa og teymis frá geðsviði Landspítalans. Þegar endurhæfing er komin vel á veg, og einstaklingur vill hefja vinnu, aðstoða þessir aðilar hann við að finna góðan vinnustað. Þar er meginreglan: Því fyrr því betra. Reynslan af IPS sýnir að það besta sem hægt er að gera er að koma fólki sem fyrst út á vinnumarkaðinn. Í raun hafa rannsóknir sýnt að þetta geti verið besta meðferðarúrræðið við geðsjúkdómum í ákveðnum tilfellum. Eftir að vinna hefst hafa bæði starfsmaðurinn og vinnuveitandinn gott stuðningsnet sem er þeim til halds og trausts eins lengi og þörf er á. Líkanið byggir því á snemmbærri íhlutun og traustu stuðningsneti.

Jákvæð reynsla
Reynt er að finna starf sem sniðið er að getu, hæfileikum og áhugasviði hvers og eins. Í þeirri leit er einblínt á styrkleika í stað veikleika. Ekki er þó um að ræða störf sem eru sérstaklega búin til heldur samkeppnishæf störf sem þegar eru til innan fyrirtækja. Til að allt gangi upp verður samvinna meðferðaraðila við atvinnulífið að vera góð. Fyrirtæki þurfa að vera opin fyrir því að starfsfólk þeirra komi víðs vegar að, með ólíkan bakgrunn og reynslu.

Almennt hafa viðtökur fyrirtækja verið jákvæðar og reynsla af verkefninu góð. Hlynur Jónasson atvinnuráðgjafi er í forsvari fyrir verkefnið. Ávinningurinn að hans sögn er mikill og byggir það á reynslusögum fyrirtækja. Stilling, Advania, Samskip, Háskóli Íslands, Sölufélag garðyrkjumanna, Sjávarklasinn og Borgarleikhúsið eru dæmi um vinnustaði sem ráðið hafa starfsfólk á grundvelli IPS hugmyndafræðinnar. Að mati þeirra standa starfsmennirnir sig vel og eru mjög áhugasamir. Ánægjulegt sé að fylgjast með þeim vaxa og dafna í starfi. Verkefnið hafi einnig jákvæð áhrif á annað starfsfólk. Það verður upplýstara um geðsjúkdóma og fordómar í garð í þeirra minnka. Í kjölfarið verða til fjölbreyttir og opnir vinnustaðir þar sem allir fá að njóta sín út frá eigin verðleikum. 

Allir vinna
Ljóst er að IPS virkar vel. Það sem meira er hugmyndafræðin sýnir hversu mikilvæg atvinnuþátttaka er fyrir okkur öll. Hún veitir fólki með þungar geðraskanir tækifæri til að leggja sitt af mörkum og er mikilvægur liður í baráttu við geðsjúkdóma. Auk þess fá stjórnendur áhugasama og góða starfskrafta til leiks. Þá er nokkuð ljóst að aukin atvinnuþátttaka eykur framleiðni og hagsæld. Ávinningurinn er skýr. Það að auka fjölbreytni á vinnumarkaði, og veita fólki sem hefur glímt við erfið veikindi tækifæri til að leggja sitt af mörkum, er öllum til hagsbóta og getur lagt grunn að enn betra samfélagi.

Unnur Elfa Hallsteinsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu