Góðar horfur fyrir atvinnulífið

Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem liggur til grundvallar fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði enginn á þessu ári en 1,5% vöxtur á því næsta.  Breytingin frá síðustu spá Þjóðhagsstofnunar, frá því í júní sl., er sú að þá var spáð 0,8% samdrætti á þessu ári en 2,4% vexti á því næsta.  Þótt spá fjármálaráðuneytisins sé verulega frábrugðin spá ÞHS þá er samanlagður vöxtur beggja áranna svipaður, eða um 1,5%.

Spáin fyrir næsta ár er byggð á því að ekki komi til stóriðjuframkvæmda, sem eðlilegt er þar sem endanlegar ákvarðanir liggja ekki fyrir, þótt á þessari stundu verði að telja fremur líklegt að af þeim verði. 

Mikill viðsnúningur
Um stöðu og horfur í efnahagsmálum má almennt segja að þær eru afar jákvæðar í flestum atriðum í ljósi þess sem á undan er gengið.  Samdrátturinn sem flestir gerðu ráð fyrir að sigldi í kjölfar þensluáranna ætlar ekki að verða að veruleika, verðbólgan sem um tíma nálgaðist tveggja stafa prósentutölu er komin á eðlilegt stig, viðskiptahallinn sem náði áður óþekktum stærðum fyrir aðeins tveimur árum er að hverfa og vextir, bæði skammtíma- og langtímavextir, fara lækkandi.  Mikill viðsnúningur hefur átt sér stað á stuttum tíma og ber þess vitni að hagstjórn undangenginna missera sé að skila árangri. 

Það eru einkum þrjár forsendur sem standa að baki væntingum um betra jafnvægi og aukinn vöxt.  Í fyrsta lagi hefur sparnaður heimilanna verið að aukast að undanförnu og er gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram.  Það hefur jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn.  Í öðru lagi er gert ráð fyrir að fjárfestingar atvinnuveganna aukist á næsta ári í ljósi lækkandi langtímaraunvaxta og skattalækkana á hagnað fyrirtækja.  Hvort tveggja stuðlar að óbreyttu að auknum fjárfestingum en óvissan er mikil um það hvort þær breytingar skili sér strax og í hve miklum mæli.   SA hafa bent á í því sambandi að gríðarleg skuldaaukning fyrirtækja á undanförnum árum muni hamla fjárfestingum á næstunni.  Skuldirnar hafa vaxið í krónum úr 300 milljörðum króna árið 1996 í um 900 milljarða í lok síðasta árs.  Í þriðja lagi er gert ráð fyrir 10% aukningu útflutnings annarra afurða en sjávarafurða og áls og kísiljárns, t.d. lyfja o.fl.  Þá er einnig gert ráð fyrir 5,5% aukningu þjónustuútflutnings, sem telja verður að sé bjartsýn forsenda í ljósi þess að þjónustuinnflutningur er talinn aukast um 1,5%.

Góðar afkomuhorfur
Þau skilyrði sem atvinnulífinu eru búin á næsta ári, ef framangreindar forsendur haldast, eru almennt góð og til þess fallin að stuðla að styrkingu atvinnulífsins þótt vöxtur verði hægur á næstu misserum ef ekki kemur til stóriðjuframkvæmda.  Ef vextir halda áfram að lækka, bæði til skamms og langs tíma, jafnvægi ríkir á vinnumarkaðnum og gengi krónunnar hækkar ekki frá því sem nú er má gera ráð fyrir að afkoma fyrirtækjanna í landinu verði góð á næsta ári.