Fréttir - 

07. nóvember 2016

Góð staða í sjávarútvegi en miklar áskoranir framundan

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Góð staða í sjávarútvegi en miklar áskoranir framundan

Skuldir sjávarútvegsins hafa minnkað verulega frá árinu 2009 þegar þær náðu hámarki og fjárfestingar vaxið undanfarin fjögur ár. Þetta er meðal þess sem fram kom á Sjávarútvegsdeginum 2016 sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í samstarfi Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Deloitte.

Skuldir sjávarútvegsins hafa minnkað verulega frá árinu 2009 þegar þær náðu hámarki og fjárfestingar vaxið undanfarin fjögur ár. Þetta er meðal þess sem fram kom á Sjávarútvegsdeginum 2016 sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í samstarfi Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Deloitte.

Yfirskrift fundarins var Tækifæri á traustum grunni en meðal annars var rætt um áhrif gengisþróunar á afkomuhorfur útflutningsgreina og stöðu sjávarútvegs í alþjóðlegu samhengi. Þótt aðstæður hafi verið hagfelldar í íslenskum sjávarútvegi undanfarið er fjöldi áskorana framundan. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, fór yfir gengisþróunina og áhrif á sjávarútveginn. Sagði hún meðal annars að vegna hagræðingar í íslenskum sjávarútvegi væri greinin betur í stakk búin en áður til að mæta sveiflum vegna styrkingar krónunnar og afkoma greinarinnar enn góð.  Ekki væri þó sjálfgefið að svo yrði til frambúðar. Áframhaldandi gengisstyrking krónunnar muni að öðru óbreyttu skila lakari afkomu í sjávarútvegi.

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, ræddi fleiri áskoranir í sinni ræðu. Meðal annars sagði hún Brexit, eða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, eitt stærsta utanríkismál íslenskra stjórnvalda hin síðari ár vegna þeirra miklu hagsmuna sem Íslendingar hafa af viðskiptum við Bretland.

Glærur fyrirlesara eru aðgengilegar hér á vefnum ásamt stuttum útdrætti úr hverju erindi.

Jónas Gestur Jónasson, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi hjá Deloitte: 

undefined

Skuldir sjávarútvegsins hafa minnkað verulega frá árinu 2009 þegar þær náðu hámarki. Hafa skuldirnar lækkað á þessu tímabili úr 494 milljörðum króna í 333 milljarða. Kemur þetta fram í tölum, sem Deloitte vinnur árlega upp úr ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækja.

Í samantektinni kemur einnig fram að fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum hefur verið að aukast verulega í greininni síðustu ár, en á árunum 2009 til 2011 nam fjárfesting aðeins um 4-6 milljörðum króna árlega. Í fyrra námu fjárfestingar hins vegar 26 milljörðum króna og voru þær 27 milljarðar árið á undan.

Erindi Jónasar má finna hér: Sjávarútvegsgagnagrunnur Deloitte 2015.pdf

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra Íslands:

undefined

Lilja ræddi meðal annars um mikilvægi alþjóðasamninga, útflutningsþjónustu utanríkisráðuneytisins, hvaða verkefni ber þar hæst og svo fyrirhugaða útgöngu Breta úr ESB. Bretland er lang mikilvægasti markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir og því skiptir þróun mála þar í landi afar miklu fyrir efnahagslífið á Íslandi.

Á síðasta ári nam heildarverðmæti útflutnings sjávarafurða til Bretlands rúmum 48 milljörðum króna eða 18% af heildarútflutningi sjávarafurða. Í dag njóta íslenskar sjávarafurðir sérstakra ívilnana samkvæmt EES samningi, sem ekki er sjálfgefið að nýtist þegar Bretar yfirgefa ESB. Brexit er því eitt af stærstu utanríkispólitískum hagsmunamálum íslenskra stjórnvalda hin síðari ár og hefur undirbúningur stjórnvalda, þ.m.t. utanríkisþjónustunnar tekið mið af því.

Erindi Lilju má finna hér: Fiskur og útlönd.pdf

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins:

undefined

Erindi Ásdísar bar heitið „ Stolt siglir fleyið mitt … krónuna á“ en í því fjallaði hún m.a. um þann árangur sem náðst hefur í íslensku efnahagslífi síðustu ár. Miklar breytingar hafa orðið á innlendu hagkerfi á síðustu árum ekki síst vegna tilkomu nýrrar útflutningsatvinnugreinar sem styrkt hefur gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins.

Seðlabankinn hefur spornað gegn frekari styrkingu krónunnar síðustu árin með inngripumsínum á gjaldeyrismarkaði og með því styrkt gjaldeyrisforðann svo um munar. Nú er svo komið að forðinn uppfyllir öll alþjóðleg viðmið og vel það. Ásdís benti þó á að svo ríflegur varaforði sé þjóðarbúinu ekki að kostnaðarlausu en árlegur kostnaður af varaforðanum slagar hátt í 40 milljarða króna.

Vísbendingar eru um að inngripastefna Seðlabankans muni fljótlega taka breytingum og dregið verði úr gjaldeyrisinngripum en krónan hefur styrkst samfleytt frá árslokum 2013 og undirliggjandi hagstærðir gefa ekki tilefni til að ætla annað en að áframhald verði á þeirri þróun.

Eftir 25 ára tímabil hagræðingar er íslenskur sjávarútvegur betur í stakk búinn en áður til að mæta íslensku sveiflunni og þrátt fyrir gengisstyrkingu krónunnar er afkoma í sjávarútvegi enn góð. Koma þar einnig til hagstæð ytri skilyrði og er því ekki sjálfgefið að svo verði til frambúðar. Áframhaldandi gengisstyrking krónunnar mun að öðru óbreyttu skila lakari afkomu í sjávarútvegi.

Á komandi misserum verður talsverð áskorun að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Ef það tekst ekki þá er vitað hvað tekur við, slíka sveiflu þekkja Íslendingar og hafa upplifað margoft áður.

Erindi Ásdísar má finna hér: Stolt siglir fleyið mitt . . . krónuna á .pdf

Dr. Ágúst Einarsson, prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst: 

undefined

Aflaverðmæti íslenskra skipa hefur tvöfaldast á sambærilegu verðlagi á síðustu 30 árum. Þetta er góður árangur og sýnir að aðgæsla hefur verið sýnd við veiðarnar og ráðgjöf fiskifræðinga verið fylgt í meginatriðum, auk þess sem betri skipulagning við veiðar og vinnslu skilar sér í meiri verðmætum.

„Eins og hefðbund­inn sjávarútvegur er skilgreindur skilar hann um 8-9 prósent til landsframleiðslunnar,“ segir Ágúst en bendir á að sjávarútvegur sé mun víðfemari heldur en þessi tala gefur til kynna. Hann bendir á framleiðsla í tengslum við sjávarútveg, svo sem á vélbúnaði og veiðafærum, sé mikil auk þess sem markaðsstarf í kring­um greinina hafi vaxið mjög. Þegar allt sé tekið saman starfi um 24 þúsund manns í sjávarútvegi á Íslandi þá sé framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslunnar um og yfir 20 prósent, sem sé mjög mikið og meira en í öðrum atvinnugreinum.

Erindi Ágústs má finna hér: Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi.pdf

Samtök atvinnulífsins, Deloitte og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi þakka þeim fjölmörgu gestum sem tóku þátt í Sjávarútvegsdeginum 2016. Sjáumst að ári!

undefined

Samtök atvinnulífsins