Efnahagsmál - 

14. Maí 2010

Glötuð tækifæri?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Glötuð tækifæri?

Vetur víkur fyrir vori og vor fyrir sumri þótt stundum skeiki nokkrum vikum til eða frá. Það sama á hins vegar ekki við um þróun efnahags- og atvinnumálanna. Eftir þungan efnahagslegan vetur og atvinnuleysi síðustu misseri var farið að glitta í vorið en einhvern veginn virðist að sú vorkoma muni tefjast meira en í góðu hófi gegnir.

Vetur víkur fyrir vori og vor fyrir sumri þótt stundum skeiki nokkrum vikum til eða frá. Það sama á hins vegar ekki við um þróun efnahags- og atvinnumálanna. Eftir þungan efnahagslegan vetur og atvinnuleysi síðustu misseri var farið að glitta í vorið en einhvern veginn virðist að sú vorkoma muni tefjast meira en í góðu hófi gegnir.

Samdrátturinn í efnahagslífinu í fyrra var minni en reiknað var með, landframleiðslan minnkaði um 6,5% í stað meira en 10% eins og fyrstu spár eftir bankahrunið bentu til. Á fyrstu mánuðum þessa árs var margt sem benti til að staðan væri betri en opinberar spár gáfu til kynna, að meiri kraftur væri í atvinnulífinu sérstaklega í útflutningsstarfsemi og atvinnuleysi færi ekki í þær hæðir sem óttast var. Tölur um vinnumarkaðinn á 1. ársfjórðungi gefa tilefni til bjartsýni þar sem störfum í heild fækkar lítið milli ára og störfum á landsbyggðinni fjölgar umtalsvert. Það segir að atvinnulífið gæti strax byrjað að vaxa hægt á 2. ársfjórðungi ef allt væri eðlilegt og árið í heild komið út á núlli eða með örlitlum hagvexti í stað 2-3% samdráttar sem nú er spáð. Aðeins eldgosið í Eyjafjallajökli ógnar nú þeirri þróun.

Allt þetta er að gerast þrátt fyrir að þeir möguleikar séu nýttir sem raunverulega gætu komið atvinnulífinu á verulegan skrið. Ennþá eru fjárfestingar í atvinnulífinu í lágmarki og fyrirtæki, stór og smá, halda að sér höndum. Ennþá hefur ekki tekist að hrinda af stað stórum fjárfestingum á vegum hins opinbera með aðkomu lífeyrissjóðanna eins og talað var um síðastliðið sumar að gera fyrir 1. september 2009.

Stóru fjárfestingarnar í atvinnulífinu í álverum og tilheyrandi virkjunum hafa ekki farið á fullt eins og áætlanir höfðu miðast við. Hafinn er fyrsti áfangi endurbóta og framleiðsluaukningar í Straumsvík en ennþá er óvissa um framhaldið og þar með Búðarhálsvirkjun. Af álverinu í Helguvík er fátt að frétta. Orkuöflun er enn í óvissu bæði hvar varðar orku frá Orkuveitu Reykjavíkur og HS orku. Bygging gagnavers Verne Holding hefur tafist vegna hægagangs á Alþingi. Of hár fjármagnskostnaður letur auk þess fjölmörg smá og meðalstór fyrirtæki til þess að ráðast í fjárfestingar.

Stóru fjárfestingarnar í atvinnulífinu eru ekki eingöngu mikilvægar vegna stærðar og þýðingar fyrir atvinnustigið á tímum mikils atvinnuleysis, heldur myndu þær snúa við væntingum í efnahagslífinu. Þessar framkvæmdir gæfu skýr og örugg skilaboð um að nú væri kreppunni lokið og uppgangur hafinn með sköpun nýrra starfa, auknum tekjum og minna atvinnuleysi.

Vandinn í ríkisfjármálunum verður líka auðveldari viðfangs ef atvinnulífið kemst af stað í alvöru. Skattahækkanirnar á síðasta og þessu ári gætu skilað meiri tekjum í ríkissjóð ef hagvöxtur væri tryggur. Það kemur líka í ljós, eins og marg oft var bent á, að skattahækkanir á minnkandi skattstofna eru ekki skynsamlegar. Þess vegna er það úrslitamál fyrir ríkissjóð að hagvöxtur hefjist fyrir alvöru.

Ríkisstjórnin hefur boðað að minni halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári verði fyrst og fremst náð með lækkun útgjalda. Þetta er í samræmi við fyrri markmið í ljósi þeirra 70 milljarða króna skattahækkana sem þegar hafa komið til framkvæmda. Verkefnið í fjárlagagerðinni er mjög erfitt og kallar á grundvallarbreytingar í mörgum þáttum ríkisbúskaparins. Slík uppstokkun mun þó skila sér í öflugri og hagkvæmari starfsemi ríkisins til lengri tíma ef vel tekst til.

Það verður erfitt að ná saman endum hjá ríkissjóði á næsta ári en ekki verða málin auðveldari viðfangs 2012 og 2013 ef kyrrstaðan í atvinnumálunum heldur áfram. Þess vegna er erfitt að skilja hvers vegna ríkisstjórnin tekur ekki einbeittari forystu í því að koma stóru fjárfestingunum í atvinnulífinu af stað sem allra fyrst. Jarðvegurinn fyrir 5% árlegan hagvöxt fram til 2015 er til staðar. Slíkur hagvöxtur er nauðsynlegur til þess að atvinnuleysi hverfi með nýjum störfum og að þjóðin endurheimti fyrri tekjur og lífskjör.

Við höfum ekki endalaust efni á því að glata tækifærum sem eru innan seilingar.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í maí 2010

Samtök atvinnulífsins