Efnahagsmál - 

26. júní 2001

Gjaldtaka RÚV vegna fyrirtækjabíla

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Gjaldtaka RÚV vegna fyrirtækjabíla

Grein Jóns Rúnars Pálssonar, lögmanns hjá SA, í Morgunblaðinu:

Grein Jóns Rúnars Pálssonar, lögmanns hjá SA, í Morgunblaðinu:

Í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins þann 7. júní sl. mótmæltu samtökin gjaldtöku Ríkisútvarpsins á útvarpstækjum í fyrirtækjabifreiðum, enda væri skýr lagaheimild til slíkrar gjaldtöku á fyrirtækjabíla ekki fyrir hendi.  Nokkur fyrirtæki innan SA hefðu orðið fyrir ónæði frá nýlega ráðnum tækjaleitarmönnum, sem hafa þann starfa að leita að útvörpum hjá fyrirtækjum.

 

Í grein í Morgunblaðinu þann 12. júní fullyrðir tækjaleitarmaðurinn Bjarni P. Magnússon að lagaheimildin fyrir sérstakri gjaldtöku á fyrirtækjabíla sé "kristalskýr".  Við lestur greinar hans verður lesendum hins vegar fljótlega ljóst að hann rökstyður ekki þessa sérstöku gjaldtöku á fyrirtækjabíla með vísan til lagatextans sjálfs, þ.e. 12. gr. laga nr. 122/2000. Þess í stað vitnar hann til reglugerðar og rúmlega þrjátíu ára gamallar þingræðu, sem hann virðist misskilja.

 

Kjarni þessa ágreinings er sá að í 12. gr. laga 122/2000 er hvergi talað um sérstaka gjaldtöku vegna útvarpa í fyrirtækjabílum umfram einkabíla.  Texti laganna vísar fyrst og fremst til gjaldtöku vegna viðtækja, sem staðsett eru í fasteignum, þ.e. á sama stað.

 

Í 18. gr. reglugerðar um útvarp nr. 357/1986 hefur hins vegar verið ákveðið að "af viðtækjum í öðrum bifreiðum og vélknúnum tækjum skal greiða fullt gjald".  Í sömu reglugerð er hins vegar ákveðið að viðtæki í einkabifreiðum teljist heimilisviðtæki notenda.  Fjölskyldubíllinn telst þannig samkvæmt reglugerðinni vera hluti af heimili notenda en fyrirtækjabíllinn ekki hluti af húsnæði fyrirtækisins.  Í reglugerðinni, en ekki í lagatextanum, er þannig ákveðin mismunandi gjaldtaka vegna viðtækja í einkabifreiðum annars vegar og fyrirtækjabílum hins vegar.  Ef texti reglugerðarinnar væri tekinn bókstaflega ætti þannig leigubílstjóri að greiða sérstakt gjald af útvarpi í atvinnutæki sínu. Þessi mismunun í reglugerð á sér enga stoð í 12. gr. laga nr. 122/2000. 

 

Stenst ekki stjórnarskrá.

Afnotagjöld til RÚV eru skattur því skylt er að greiða þau án tillits til þess hvort hlustað er á rásir RÚV. Samkvæmt stjórnarskrá má engan skatt leggja á nema samkvæmt skýrri lagaheimild. Á undanförnum árum hafa verið auknar kröfur til þess hvernig skattheimtuákvæði laga eru úr garði gerð. Nauðsynlegt er að upphæð skatts og undanþágur komi skýrt fram í lögunum sjálfum. 12. gr. laga nr. 122/2000 fullnægir ekki þessum kröfum. SA fær hvorki séð að lagaheimild sé til mismunandi opinberra gjalda eftir því hver eigandi bifreiðarinnar er, né að slík mismunun fengi staðist samkvæmt jafnréttisákvæði stjórnarskrár.

Samtök atvinnulífsins