Efnahagsmál - 

01. apríl 2009

Gjaldeyrishöft hert af Alþingi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Gjaldeyrishöft hert af Alþingi

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum til að herða gjaldeyrishöft og hafa breytingarnar þegar tekið gildi. Samkvæmt þeim skulu útflutningsviðskipti vöru og þjónustu fara fram í erlendum gjaldmiðli en ekki íslenskri krónu. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 þetta fullkomna afneitun þjóðar á eigin gjaldmiðli.

Alþingi  hefur samþykkt breytingar á lögum til að herða gjaldeyrishöft og hafa breytingarnar þegar tekið gildi. Samkvæmt þeim skulu útflutningsviðskipti vöru og þjónustu fara fram í erlendum gjaldmiðli en ekki íslenskri krónu. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 þetta fullkomna afneitun þjóðar á eigin gjaldmiðli.

"Ég tel að ein þjóð geti varla afneitað eigin gjaldeyri meira en að neita að taka við honum fyrir eigin útflutning," var haft eftir Vilhjálmi í fréttum Stöðvar 2.

Með breytingu á tollalögum og lögum um gjaldeyrismál hyggst Alþingi tryggja virkni gjaldeyrishafta og styrkja gengi krónunnar en illa hefur tekist að byggja upp gjaldeyrisforða þrátt fyrir skilaskyldu á gjaldeyri og ákvæði um sektir og jafnvel fangelsi sé skilaskyldan ekki virt.

Fréttastofa RÚV ræddi við Þór Sigfússon, formann SA, fyrir gildistöku laganna í gær. Þar sagði hann mikilvægt að samið yrði við eigendur jöklabréfa til að koma í veg fyrir tvöfalt gengi íslensku krónunnar. SA hafi lengi varað við því að gjaldeyrishöftin myndu kalla á enn meiri höft sem sé að koma á daginn.

Í atvinnustefnu SA sem kom út fyrr á árinu, Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna, er m.a. rætt um skaðsemi gjaldeyrishaftanna. Þar segir m.a. á bls. 16: "Lög um víðtæk gjaldeyrishöft sem sett voru aðfararnótt 29. nóvember 2008 voru mikil mistök." Þar segir að gjaldeyrishöftin hafi verið of viðamikil og með þeim hafi verið sköpuð meiri vantrú en ella á að gengi krónunnar geti styrkst og krafan stækkuð á væntanlegt gjaldeyrisútflæði. Eftir því sem tíminn líði komi betur í ljós hversu skaðleg höftin eru.

Í atvinnustefnu SA segir ennfremur: " Skaðsemi gjaldeyrishaftanna kemur jafnframt fram í því að þeir sem eiga viðskipti með vörur og þjónustu milli landa þurfa að leita ýmissa hjáleiða til þess að skapa sér öryggi og minnka áhættu í viðskiptum sínum. Í nútíma viðskiptum er mikið svigrúm til að stýra tekjuflæði og greiðsluflæði þannig að tekjur og greiðslur berist ekki til landsins nema vegna nauðsynlegs kostnaðar og greiðsluþarfa innanlands. Við innflutning á vöru og þjónustu eru ennfremur möguleikar til þess að hraða gjaldfærslum og greiðslum og byggja upp varasjóði í erlendum bönkum fullkomlega löglega."

Sjá nánar á vef Alþingis:

Lög um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum

Samtök atvinnulífsins