Samkeppnishæfni - 

21. Desember 2005

Gjald fyrir heilbrigðiseftirlit nær nýjum hæðum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Gjald fyrir heilbrigðiseftirlit nær nýjum hæðum

Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur gefið út nýja gjaldskrá þar sem tímagjald fyrir eftirlitsstörf eru hækkuð um 10% frá fyrri gjaldskrá sem gefin var út í janúar 2004. Almennt tímagjald er nú 6600 kr. fyrir hefðbundna starfsemi. Fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum er gjaldið hins vegar 8580 kr/klst eða 30% hærra en hjá þeim sem stunda það sem eftirlitið kallar hefðbundna starfsemi.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur gefið út nýja gjaldskrá þar sem tímagjald fyrir eftirlitsstörf eru hækkuð um 10% frá fyrri gjaldskrá sem gefin var út í janúar 2004.  Almennt tímagjald er nú 6600 kr. fyrir hefðbundna starfsemi. Fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum er gjaldið hins vegar 8580 kr/klst eða 30% hærra en hjá þeim sem stunda það sem eftirlitið kallar hefðbundna starfsemi.

Fordæmalaus gjaldtaka

Þessi gjaldtaka fyrir eftirlit með tímabundinni starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum er alveg fordæmalaus og sambærileg ákvæði er ekki að finna í gjaldskrám heilbrigðiseftirlits Vesturlands (uppbygging stóriðju á Grundartanga), heilbrigðiseftirlits Suðurlands (nýjar virkjanir á Hellisheiði og víðar), heilbrigðiseftiriliti Hafnarfjarðar (stækkun í Straumsvík) né hjá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja (virkjanaframkvæmdir í Svartsengi og víðar).

Gjaldið svarar til þess að kostnaður við dagvinnu eins heilbrigðisfulltrúa þar sem með er talinn kostnaður við yfirstjórn, húsnæði og fleira sé tæplega 1,5 milljón krónur á mánuði.

Við þetta vakna fjölmargar spurningar: Hvers vegna er dýrara að hafa eftirlit með starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum en annarri starfsemi? Hvað þarf starfsemi að standa lengi til að teljast "tímabundin"? Af hverju er gjald fyrir eftirlit með starfsemi tengdri Fáskrúðsfjarðargöngum lægri en fyrir virkjanagöngin?

Nánast sjálftaka

Samtök atvinnulífsins hafa áður bent á óhóflega gjaldtöku heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga þar sem ekkert aðhald er með álagningu gjalda og nánast um sjálftöku að ræða. Það er orðið mjög hagstætt fyrir heilbrigðiseftirlit Austurlands að hafa mikið eftirlit með "tímabundinni starfsemi tengdri virkjunum og stóriðju" en minni hvati til þess að hafa eftirlit með eftirlitsskyldri starfsemi sveitarfélaganna sjálfra.

Samtök atvinnulífsins