Fréttir - 

16. desember 2023

Gífurlegt tjón af völdum verkfalls flugumferðarstjóra

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Gífurlegt tjón af völdum verkfalls flugumferðarstjóra

Á mánudaginn mun að óbreyttu fara fram verkfall flugumferðarstjóra, þriðji verkfallsdagurinn af fjórum sem hafa verið boðaðir í þessum mánuði. Þetta eru þriðju verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra á fimm árum.

Kjarasamningur við flugumferðarstjóra er með þeim síðustu í þeirri kjarasamningalotu sem hófst með stefnumarkandi samningum við stærstu stéttarfélög landsins fyrir rúmu ári, undir yfirskriftinni Brú að bættum lífskjörum. Flugumferðarstjórum býðst að fá sambærilegan samning og sátt náðist um meðal aðila vinnumarkaðarins, en þeir vilja ganga lengra og þannig rjúfa þá sátt.

Verulegt tjón hlýst af þessum aðgerðum, sem leggst fyrst og fremst á ferðaþjónustuna, en aðgerðirnar hafa einnig áhrif á útflutning sjávarafurða sem og önnur afleidd áhrif víða um hagkerfið.

Fjárhagslegt tjón hagkerfisins í heild

Ætla má að beinn kostnaður hagkerfisins af völdum algerrar stöðvunar flugsamgangna í einn dag gæti numið um 1,5 milljörðum króna, þar af má ætla að beint tjón ferðaþjónustu nemi einum milljarði króna hið minnsta. Ef flugsamgöngur stöðvast fyrirvaralítið má ætla að ólíklegt sé að aðfanga- og launakostnaður lækki samhliða tekjufalli. Í slíkum tilvikum er tjón greinarinnar líklega enn meira.

Að auki nemur útflutningur fersks fisks með flugi um 100 milljónum króna á dag sem hliðra þyrfti til með tilheyrandi kostnaði. Þá er ekki tekið tillit til óbeinna áhrifa á aðrar atvinnugreinar, sem geta verið veruleg, þó þau séu illmælanlegri.

Einnig er mikilvægt að líta til þess að öfugt við flest önnur nágrannaríki er flug til og frá landinu eina tenging bæði fyrirtækja og heimila við útlönd. Af því leiðir að tjón vegna stöðvunar flugsamgangna er umtalsvert meira en mælist í hagtölum.

Fjárhagslegt tjón ferðaþjónustunnar

Til að meta tjónið af völdum raskana á flugsamgöngum má skoða gögn um neyslu erlendra ferðamanna. Gróflega má áætla að um fimm þúsund erlendir ferðamenn komi til landsins á hverjum degi í desember. Árið 2022 nam heildarneysla hvers ferðamanns hér á landi um 230 þúsund krónum Þar af var tæpum fimmtungi, um 45 þúsund krónum, varið til kaupa á flugmiðum hjá íslensku flugfélögunum. Hagkerfið gæti því orðið af um 1,2 milljörðum króna í tekjur vegna minni neyslu ferðamanna fyrir hvern dag sem ekki er flogið til landsins. Í útreikningunum er gert ráð fyrir að ferðamennirnir komi ekki til landsins, fremur en að þeir fresti för sinni. Þá er ótalið annars konar beint tjón sem flugfélögin verða fyrir af völdum vinnustöðvunar, sem er verulegt, ásamt ýmsum afleiddum áhrifum á þjóðarbúið.

Samkvæmt því myndi landsframleiðsla dragast saman um u.þ.b. 1%, þ.e. ríflega 40 milljarða króna, ef flug lægi niðri í einn mánuð. Það samsvarar 1,3 milljörðum króna á dag. 

Einnig er hægt að meta tjónið út frá þjóðhagslíkani, sem byggir á þjóðhagslíkani Seðlabankans en tekur sérstaklega mið af umsvifum ferðaþjónustunnar og unnið var af Hagrannsóknum sf. Samkvæmt því myndi landsframleiðsla dragast saman um u.þ.b. 1%, þ.e. ríflega 40 milljarða króna, ef flug lægi niðri í einn mánuð. Það samsvarar 1,3 milljörðum króna á dag.

Áhrifanna verður ekki aðeins vart hjá fyrirtækjum, heldur einnig ríkissjóði. Nýleg skýrsla um skattspor ferðaþjónustu áætlar að skattspor greinarinnar verði ríflega 90 milljarðar króna á þessu ári, eða sem samsvarar ríflega 250 milljónum króna á dag. Það er því ljóst að ríkissjóður mun ekki fara varhluta af þessum aðgerðum.

Ferðaþjónustan hefur þurft að glíma við alvarlegar áskoranir á umliðnum mánuðum og árum vegna heimsfaraldurs og náttúruhamfara. Í því ljósi er sú staða sem nú er upp komin sérlega átakanleg.

Samtök atvinnulífsins