Vinnumarkaður - 

05. Maí 2015

Gerum kaupmáttarsamninga

Kjarasamningar

Kjarasamningar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Gerum kaupmáttarsamninga

Lífleg umræða hefur verið um kjaramálin í fjölmiðlum undanfarna daga enda snúin og erfið staða á vinnumarkaði. Þar hefur komið skýrt fram að Samtök atvinnulífsins vilja gera kaupmáttarsamninga sem byggja á þeim árangri sem náðist í kjölfar síðustu samninga, þannig að kaupmáttur haldi áfram að aukast, vextir lækki enn frekar og verðbólga haldist lág. SA eru tilbúin að skoða sérstaka hækkun lægstu launa en hafna því hins vegar alfarið að gera verðbólgusamninga sem munu rýra lífskjör á Íslandi og valda mestu tjóni hjá fólki með lágar tekjur.

Lífleg umræða hefur verið um kjaramálin í fjölmiðlum undanfarna daga enda snúin og erfið staða á vinnumarkaði. Þar hefur komið skýrt fram að Samtök atvinnulífsins vilja gera kaupmáttarsamninga sem byggja á þeim árangri sem náðist í kjölfar síðustu samninga, þannig að kaupmáttur haldi áfram að aukast, vextir lækki enn frekar og verðbólga haldist lág.  SA eru tilbúin að skoða sérstaka hækkun lægstu launa en hafna því hins vegar alfarið að gera verðbólgusamninga sem munu rýra lífskjör á Íslandi og valda mestu tjóni hjá fólki með lágar tekjur.

Rætt var við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra SA, og Ólafíu B. Rafnsdóttur, formann VR og varaforseta ASÍ í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni og í Eyjunni á Stöð 2 á sunnudag. Viðtölin má nálgast hér að neðan en á mánudagsmorgun var rætt við framkvæmdastjóra SA í Bítinu á Bylgjunni og Björn Snæbjörnsson, formann Starfsgreinasambandsins. Í gærkvöld fóru svo fram umræður í Kastljósinu þar sem Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM og Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, tóku þátt auk framkvæmdastjóra SA.

Hækkun um 210 þúsund
Í Kastljósi kom m.a. fram að aðilar vinnumarkaðarins verði að koma sameiginlega að borðinu til að finna leiðir til að viðhalda stöðugleikanum og jafnvæginu í efnahagslífinu. Í dag er hver hópur að berjast fyrir sínu og lítið samræmi í kröfunum sem allar eiga þó sameiginlegt að vera mjög háar. Starfsgreinasambandið krefst t.d. 50-70% almennrar hækkunar launa en meðallaun innan SGS eru 420 þúsund. Yrði gengið að kröfunum myndu meðaltekjur þessa hóps hækka um 210 þúsund krónur á mánuði.

Tapast 8.000 störf?
Í Kastljósi sagði Þorsteinn Víglundsson það mikils virði að vextir verði lækkaðir en það mun ekki gerast ef laun verða hækkuð um tugi prósenta. Aðalhagfræðingur Seðlabankans hefur t.d. bent á miðað við 11% hækkun  launa árlega til 2018 nálgist stýrivextir 10%. Verðbólga muni einnig aukast hratt og uppsöfnuð verðbólga áranna 2015-2017 verði 17,5%. Þetta þýðir líka að það verða 6-8.000 færri ársverk í hagkerfinu sem jafngildir 2% auknu atvinnuleysi. Stýrivextir eru í dag margfalt hærri en í nágrannalöndunum og greiða íslensk fyrirtæki og heimili 200 milljarða króna aukalega á ári vegna hás vaxtakostnaðar. Hægt væri að bæta lífskjör á Íslandi mikið ef þessi kostnaður væri sambærilegur við nágrannalöndin.

Norrænar fyrirmyndir
Þorsteinn benti á að það sé langhlaup að byggja upp kaupmátt en með því að gera það smátt og smátt á hverju ári í stöðugu verðlagi náist mikill árangur til lengri tíma eins og dæmi frá Norðurlöndunum sanna. Íslendingar hafi mjög góðan grunn til að byggja ofan á en það sé margsannað að sú aðferðafræði að hækka laun um tugi prósenta á skömmum tíma hafi aldrei virkað, heldur eingöngu valdið þjóðinni tjóni. Ýmis tækifæri séu til staðar til að leysa úr deilunum á vinnumarkaði en til þess að það sé hægt þurfi aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld að taka höndum saman.

Umfjöllun fjölmiðla um samningana 2015:

Sprengisandur á Bylgjunni – fyrri hluti

Sprengisandur á Bylgjunni – seinni hluti

Sprengisandur á Bylgjunni – spurningar hlustenda

Eyjan á Stöð 2

Bítið á Bylgjunni

Kastljós RÚV

Samtök atvinnulífsins