Garðar Örn hlýtur námsstyrk

Garðar Örn Garðarsson hlýtur Chevening-námsstyrkinn fyrir skólaárið 2020-2021. Chevening-styrkir eru veittur af breskum stjórnvöldum en á Íslandi er hann fjármagnaður af Samtökum atvinnulífsins. Styrkurinn er fyrir nám á meistarastigi við háskóla í Bretlandi og nemur 10.000 sterlingspundum á ári. Sérstaklega er hvatt til þess að fólk sem hyggst á nám sem gæti nýst atvinnulífinu sæki um styrkinn. Gert er ráð fyrir að styrkþegar snúi aftur til heimalands síns að námi loknu.

Garðar Örn mun leggja stund á meistaranám í heildstæðum vélrænum gagnanámskerfum við rafeindatækni- og rafmagnsverkfræðideild University College London. Hann er með B.Sc. gráðu í hátækniverkfræði og hefur starfað hjá EFLU verkfræðistofu á Austurlandi síðustu fimm ár.

Á myndinni eru með eins metra millibili líkt og vera ber, Davíð Þorláksson, forstöðumaður hjá SA, Garðar Örn og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi.