04. júlí 2025

Gæði umfram magn

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Gæði umfram magn

Því er stundum fleygt fram að stjórnmálamenn geri mest gagn þegar þeir gera sem minnst. Óháð því hversu miklu eða litlu er komið í verk er þó fyrir öllu að Alþingi samþykki vandaða og vel undirbyggða lagasetningu. Fyrir þinginu liggja nú nokkur áherslumál ríkisstjórnarinnar sem ljóslega krefjast aukinnar umhugsunar.

Erfiðlega hefur gengið að reikna út áhrif tillagna um breytingu veiðigjalda, hvað þá að rökstyðja nauðsyn þeirra. Það hlýtur að teljast óheppilegt þegar kollvarpa á rekstrarumhverfi einnar undirstöðugreinar þjóðarbúsins. Allar atvinnugreinar hljóta að fylgjast með slíkum vinnubrögðum. Skaðinn er skeður, fjárfestingaráform um allt land sett á ís og traust milli stjórnvalda og atvinnulífs laskað.

Keyra á í gegn launavísitölutengingu örorkubóta og á sama tíma vanmeta áhrif hennar verulega við gerð fjármálaáætlunar. Þannig á að festa í sessi ósjálfbæra útgjaldaaukningu um fimmtungs fjárlaga án þess að ráðast í umbætur á vinnumarkaðslíkaninu. Útgjaldaáætlunum mun skeika um tugi milljarða. Hvati til atvinnuþátttöku minnkar, stöðugleika á vinnumarkaði ógnað.

Varnaðarorð hafa verið virt að vettugi við afgreiðslu þessara mála.

Þá á að meina lífeyrissjóðum að horfa til greiðslna frá TR þegar örorkulífeyrir er ákvarðaður, þvert á samþykktir sjóðanna og upphaflegt markmið þeirra um að tryggja tekjur við orkutap, þó aldrei umfram tekjur fyrir orkutap. Breytingin gengur gegn markmiði kostnaðarsamra kerfisbreytinga sem var ætlað að auka atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu. Til að fjármagna verulega hækkun bóta hyggst ríkisstjórnin ganga á stjórnarskrárvarinn eignarrétt launafólks til ellilífeyris.

Varnaðarorð hafa verið virt að vettugi við afgreiðslu þessara mála. Þingmönnum er engin vorkunn að vinna örlitla yfirvinnu við þjóðþrifamál en það hlýtur að svíða að þurfa að hanga við Austurvöll langt fram á sumar að ræða mál sem hefðu ekki átt að komast á dagskrá. Það er kominn tími á frí og þó fyrr hefði verið.

Þessi grein birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 2. júlí.

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs