Efnahagsmál - 

20. Maí 2009

Fyrningarleiðin er þjóðnýtingarstefna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fyrningarleiðin er þjóðnýtingarstefna

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ákvæði um upptöku aflaheimilda sem hefjast á haustið 2010. Í sjávarútveginum hafa menn þungar áhyggjur af þessum áformum og sama gildir um bankana, birgja og aðra viðskiptamenn sjávarútvegsins. Sjávarútvegurinn þarf, eins og aðrar atvinnugreinar, að búa við stöðugleika og sæmilega vissu um framtíðarskilyrði til þess að framþróun og nauðsynlegar fjárfestingar eigi sér stað. Þessi áformaða eignaupptaka án bóta hefur þegar haft áhrif á fjármögnun í bönkum þar sem óvissa hefur verið aukin um tryggingar og framtíðarhorfur fyrirtækjanna.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ákvæði um upptöku aflaheimilda sem hefjast á haustið 2010. Í sjávarútveginum hafa menn þungar áhyggjur af þessum áformum og sama gildir um bankana, birgja og aðra viðskiptamenn sjávarútvegsins. Sjávarútvegurinn þarf, eins og aðrar atvinnugreinar, að búa við stöðugleika og sæmilega vissu um framtíðarskilyrði til þess að framþróun og nauðsynlegar fjárfestingar eigi sér stað. Þessi áformaða eignaupptaka án bóta hefur þegar haft áhrif á  fjármögnun í bönkum þar sem óvissa hefur verið aukin um tryggingar og framtíðarhorfur fyrirtækjanna.

Þær athuganir sem gerðar hafa verið á ársreikningum fyrirtækja í sjávarútvegi hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að 5% upptaka heimilda hefði það alvarleg áhrif á fjölda fyrirtækja að þau myndu ekki geta staðið í skilum með skuldir sínar. Fyrningarleiðin myndi fljótlega leiða til þess að mörg sjávarútvegsfyrirtæki yrðu gjaldþrota. Ef svo færi þá  væri grundvelli nýju bankanna teflt í tvísýnu. Það er því mikill ábyrgðarhluti að skrifa slíka stefnu inn í stjórnarsáttmála án þess að fram hafi farið ítarlegt mat á áhrifum svo róttækrar stefnubreytingar í sjávarútvegsmálum.

Ef fyrningarleið stjórnarflokkanna yrði framkvæmd og hún hefði þær afleiðingar sem óttast er þá myndu  margir núverandi eigendur fyrirtækjanna missa þau í hendur ríkisins í gegnum ríkisbankana. Hér er því um grundvallarstefnu að ræða og fráhvarf frá þeim markaðsbúskap sem efnahagslífið byggir á og almennt er talið að sé skilvirkasta leiðin til þess að fá sem mest verðmæti út úr atvinnustarfseminni.

Stjórnun fiskveiða hefur vissulega verið umdeild hjá þjóðinni á undanförnum áratugum. Verið er að takmarka aðgang að fiskveiðiauðlindunum og skipta á milli aðila og það verður annað hvort gert með takmörkun á afla eða sókn. Líklega er óánægja óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkra takmarkana og fullkomin sátt tæpast  möguleg. Það er þó mikilvægt að leita leiða til þess að mæta gagnrýni og ná meiri sátt um stjórnunarkerfið. Gagnrýnt er að menn geti selt kvóta og horfið úr atvinnugreininni og kvótaleiga er umdeild og má eflaust finna leiðir til þess að draga úr henni án þess að það komi mikið niður á hagkvæmni greinarinnar. En áform um gerbyltingu á rekstrarforsendum sjávarútvegs, jafnvel þótt síðar verði og á einhverju tímabili, veldur fyrirtækjunum skaða strax. Ljóst er að menn hafa ekki gert sér nægilega vel grein fyrir þessari staðreynd.

Meginmarkmiðið með fiskveiðistjórnun er að sjávarútvegurinn skapi sem mest verðmæti. Lög um fiskveiðistjórnunina hafa það að markmiði að efla samkeppnishæfni sjávarútvegs. Fyrningarleiðin gengur þvert á þessi markmið þar sem óvissa er aukin og rekstrarforsendur fyrirtækjanna sett í uppnám. Í ljósi þess að forgagnsverkefni landsmanna er að endurreisa efnahagslífið kemur á óvart að stjórnarflokkarnir hafi sett þessa umbyltingu á rekstrarforsendunum á dagskrá.

Það umhverfi sem sjávarútvegur hefur búið við hefur stuðlað að mikilli hagræðingu. Fiskveiðistjórnkerfið hefur þann eiginleika að langtímahagsmuna er gætt þar sem góð umgengni um auðlindina er hagsmunamál handhafa aflaheimildanna og þannig fara saman hagsmunir þeirra og þjóðarinnar. Frá upphafi kvótakerfisins hafa 90% aflaheimilda þeirra tegunda sem upphaflega voru kvótasettar skipt um hendur. Sérhæfing og fjárfestingar hafa leitt til gríðarlegrar afkasta- og framleiðniaukningar sem m.a. hafa gert greininni kleift að takast á við mikinn niðurskurð aflaheimilda á undanförnum árum. Nú starfa rúmlega 6.000 manns beint við sjávarútveg og því liggur ljóst fyrir að greinin mun ekki halda uppi byggð um allt land, ef það er markmið einhverra með breytingum á fiskveiðistjórnkerfinu.

Það er hagsmunamál alls atvinnulífs að ljúka óvissunni í tengslum við áform í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna um fyrningu aflaheimilda. Setja þarf af stað opna og óbundna endurskoðun á fiskveiðistjórnkerfinu með það að leiðarljósi að ná víðtækri sátt á grundvelli mikillar samkeppnishæfni. Það er engum í hag að setja sjávarútveginn í uppnám.

Samtök atvinnulífsins