Vinnumarkaður - 

24. maí 2017

Fyrirvari SA vegna viðbótariðgjalds LSR

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fyrirvari SA vegna viðbótariðgjalds LSR

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, hefur sent launagreiðendum á almennum vinnumarkaði bréf með athugasemdum vegna þeirra starfsmanna sem aðild eiga að LSR.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, hefur sent launagreiðendum á almennum vinnumarkaði bréf með athugasemdum vegna þeirra starfsmanna sem aðild eiga að LSR.

Er þar kynnt til sögunnar sérstakt 5,85% viðbótariðgjald vegna breytinga á lögum um sjóðinn. Samtök atvinnulífsins hafa fyrir hönd félagsmanna sinna gert fyrirvara vegna gjaldsins enda eru félagsmenn SA óbundnir af þessari ákvörðun sjóðsins.

Breytingar á lögum um LSR eru liður í samræmingu lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði. Opinberir starfsmenn hafa til þessa áunnið sér jöfn lífeyrisréttindi óháð aldri en á almennum vinnumarkaði ræðst ávinnsla réttinda af aldri sjóðsfélaga þegar iðgjald er greitt. Eftir breytinguna verða allir launamenn með aldurstengda réttindaávinnslu. Til að bæta þann mismun sem er á jafnri réttindaávinnslu og aldurstengdri ávinnslu mun ríkið greiða 107 milljarða til LSR.

Vegna launamanna á almennum vinnumarkaði hefur LSR reiknað út sérstakt viðbótarframlag sem nauðsynlegt er að greiða ef tryggja á sömu réttindi og sjóðsfélagar hafa áunnið sér til þessa, þ.e. m.v. jafna réttindaávinnslu. Viðbótariðgjaldið bætist við 11,5% mótframlag atvinnurekanda. Gjaldið verður endurskoðað árlega í samræmi við tryggingafræðilega athugun.

Breyting úr jafnri réttindaávinnslu yfir í aldurstengda getur haft veruleg áhrif á lífeyrisréttindi starfsmanns. Því er afar brýnt að atvinnurekendur og starfsmenn ræði um fyrirhugaða breytingu og þá valkosti sem í boði eru.

Atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði óbundnir
Starfsmenn á almennum vinnumarkaði eiga ekki lögbundinn rétt til aðildar að LSR en slík aðild hefur viðgengist með samþykki sjóðsins að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Aðildarumsókn byggir á samkomulagi atvinnurekanda og launamanns og ræðst því af samkomulagi þeirra hvort viðbótarkostnaður af LSR aðild sé borinn af launagreiðanda eða starfsmanni.

Sama á við um það viðbótariðgjald sem nú er kynnt af hálfu LSR. Starfsmaður á ekki sjálfkrafa rétt til þessa viðbótarkostnaðar úr hendi atvinnurekanda nema ráðningarsamningur tryggi honum ábyrgð vinnuveitanda á greiðslu mótframlags til LSR eins og það er hverju sinni.

Atvinnurekendur og starfsmenn tali saman
Breyting úr jafnri réttindaávinnslu yfir í aldurstengda getur haft veruleg áhrif á lífeyrisréttindi starfsmanns. Því er afar brýnt að atvinnurekendur og starfsmenn ræði um fyrirhugaða breytingu og þá valkosti sem í boði eru. Í einhverjum tilvikum kunna hagsmunir starfsmanna af því að halda jafnri ávinnslu að vera slíkir að þeir velji að greiða sérstaka iðgjaldið í formi launalækkunar eða fyrirframgreiddrar kauphækkunar.

Ef sérstakt viðbótariðgjald er ekki greitt verður iðgjaldið óbreytt, þ.e. 11,5%, og færast þá hlutaðeigandi starfsmenn yfir í aldurstengda ávinnslu.

Munur á jafnri ávinnslu og aldurstengdri
Í jafnri ávinnslu er ávinnsla réttinda jöfn yfir starfsævina, óháð aldri. Hver króna sem greidd er til sjóðsins gefur sömu réttindi, óháð því hversu lengi sjóðurinn nær að ávaxta hana.  Í aldurstengdri ávinnslu taka réttindi á hinn bóginn mið af aldri sjóðsfélaga þegar iðgjald berst sjóðnum. Iðgjöld yngri sjóðsfélaga eru verðmætari því þau ávaxtast yfir lengri tíma. Réttindi sjóðsfélaga verða því í samræmi við verðmæti iðgjaldanna sem þeir greiða.

Tengt efni:

Bréf SA til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (PDF)

Samtök atvinnulífsins