Efnahagsmál - 

12. febrúar 2009

Fyrirtækin þrjóskast við en tími aðgerða er runninn upp

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fyrirtækin þrjóskast við en tími aðgerða er runninn upp

Tæplega sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum SA fækkuðu ekki starfsmönnum á síðasta ári þrátt fyrir versnandi rekstrarhorfur. Tæp 18% fyrirtækjanna brugðu á það ráð að breyta fullum störfum í hlutastörf til þess að forðast uppsagnir og um 18% gripu til launalækkana til að tryggja áframhaldandi rekstur. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á atvinnuhorfum meðal fyrirtækjanna. Ríflega helmingur aðildarfyrirtækja hyggst halda óbreyttum starfsmannafjölda á næstu mánuðum en fram kemur í athugasemdum svarenda að þrek margra fyrirtækja dvínar ört. Í könnuninni kemur skýrt fram að stjórnendur fyrirtækja telja að lækka verði vexti fljótt svo fyrirtækin í landinu geti starfað áfram og koma verði bankaþjónustu í eðlilegt horf á nýjan leik ásamt því að gjaldeyrishöft verði afnumin.

Tæplega sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum SA fækkuðu ekki starfsmönnum á síðasta ári þrátt fyrir versnandi rekstrarhorfur. Tæp 18% fyrirtækjanna brugðu á það ráð að breyta fullum störfum í hlutastörf til þess að forðast uppsagnir og um 18% gripu til launalækkana til að tryggja áframhaldandi rekstur. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á atvinnuhorfum meðal fyrirtækjanna. Ríflega helmingur aðildarfyrirtækja hyggst halda óbreyttum starfsmannafjölda á næstu mánuðum en fram kemur í athugasemdum svarenda að þrek margra fyrirtækja dvínar ört. Í könnuninni kemur skýrt fram að stjórnendur fyrirtækja telja að lækka verði vexti fljótt  svo fyrirtækin í landinu geti starfað áfram og koma verði bankaþjónustu í eðlilegt horf á nýjan leik ásamt því að gjaldeyrishöft verði afnumin.

Ákall um hjálp

Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA  dagana 3.-10. febrúar 2009 en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf.  Markmiðið með könnuninni var að fá skýrari mynd af horfunum framundan í íslensku atvinnulífi. Könnunin sýnir ríkan baráttuvilja íslenskra fyrirtækja í mjög erfiðu árferði. Rúmur helmingur fyrirtækjanna (53%) hyggst halda óbreyttum starfsmannafjölda á næstu þremur mánuðum, tæpur þriðjungur (30%) hyggst fækka fólki en rúm 17% fyrirtækjanna sjá fyrir fjölgun.

Í könnuninni var fyrirtækjum boðið að koma skilaboðum til stjórnvalda um brýnustu úrlausnarefnin sem snúa að atvinnulífinu. Mikill fjöldi svara og ábendinga barst og augljóst að háir vextir hvíla eins og mara á atvinnulífinu og draga úr því allan þrótt. "Hjálp!" voru skilaboðin frá einum atvinnurekanda á meðan annar sagði "Atvinnulíf og heimili sem búa við 18% stýrivexti eiga sér ekki viðreisnar von. Lækkun vaxta er forgangsatriði. Það er alveg ljóst að heilbrigður rekstur getur aldrei og ég endurtek aldrei, staðið undir þeim vöxtum sem nú eru í landinu. Ef þeir lækka ekki hratt næstu vikur verða fjöldagjaldþrot því miður ekki umflúin."

Skortur á fjármagni er einnig farinn að há fyrirtækjum verulega, jafnvel sterkum fyrirtækjum sem fá ekki eðlilega fyrirgreiðslu til að fjármagna rekstur og ný verkefni. Fyrirtæki landsins líða verulega fyrir að bankakerfið ekki í lagi.

Niðurstöður yfirfærðar á atvinnulífið í heild

Fyrirtækin í könnuninni endurspegla sjávarútveg, iðnað, byggingastarfsemi, veitur, verslun og samgöngur, hótel og veitingahús, fjármála- og tryggingafyrirtæki. Áætlað er að í þessum atvinnugreinum hafi starfað um 90.000 manns í upphafi ársins. Áformuð fjölgun starfsmanna hjá þeim fyrirtækjum  í könnuninni sem hyggjast fjölga fram til maímánaðar  er áætluð 2,8% af heildar starfsmannafjölda en áformuð fækkun nemur 6,9%. Nettófækkun starfsmanna fram á vorið er því um 4%. Þessi hlutfallstala, 4%, svarar til þess að störfum muni fækka um 3.700 í þessum atvinnugreinum á næstu þremur mánuðum. Launagreiðslur sem falla brott af þeim sökum nema um 20 milljörðum króna.

Samkvæmt þessum niðurstöðum má ætla að fjöldi fólks án atvinnu verði  á bilinu 15-16 þúsund í maí. Um 3 þúsund manns verði til viðbótar atvinnulausir að hluta og því verði um 18-19 þúsund manns á atvinnuleysisskrá í maí.

41 % þeirra fyrirtækja sem hyggjast fjölga fólki ætla einkum að ráða verkafólk en 32% hyggjast einkum ráða háskólamenntað fólk eða sérfræðinga en 27% einkum iðnaðarmenn. Ljóst er að uppsagnir munu koma harðast niður á verkafólki, því tæpur helmingur fyrirtækja (48%) sem áforma fækkun starfsmanna hyggjast fækka verkafólki, 33% hyggjast einkum segja upp iðnaðarmönnum og 18% einkum háskólamenntuðum eða sérfræðingum.

---------

Um könnunina:

Könnunin var tölvupóstkönnun og var send til 1.809 fyrirtækja en fjöldi svarenda var 753, svarhlutfall var því 42%. Langflestir svarenda (82%) voru með undir 50 starfsmenn í vinnu, flestir með 5 starfsmenn eða færri (35%).

Samtök atvinnulífsins