Fyrirtæki taki á kynferðislegri áreitni og ofbeldi

Áreitni og ofbeldi af kynferðislegum toga hefur lengi verið dulið vandamál á fjölmörgum vinnustöðum. Þolendur hafa átt erfitt með að greina frá brotum sem þeir hafa orðið fyrir enda oft í erfiðri stöðu gagnvart yfirmönnum og samstarfsfólki. Bylgja vitnisburða undanfarið um kynferðisáreitni og ofbeldi hefur leitt í ljós að vandinn er stærri og brotahegðunin algengari en áður var talið. Það er frumskylda atvinnurekenda að senda skýr skilaboð til starfsmanna sinna um að einelti, áreitni og ofbeldi verði ekki liðið.

Þá er mikilvægt að stjórnendur skoði vinnustaðamenningu á sínum vinnustöðum og hvernig er hægt að bæta hana, draga úr hættu á særandi framkomu og að málefni þolenda verði í forgangi þegar brot koma upp.

Ein meginskylda vinnuveitanda er að tryggja starfsmönnum öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Fyrirtækjum ber að gera áhættumat til að greina þá áhættu sem getur verið fyrir hendi. Í matinu skal koma fram til hvaða aðgerða fyrirtækið hyggst grípa til komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um brot.

Það er á ábyrgð vinnuveitanda að fyrirbyggja og uppræta áreiti og ofbeldi á vinnustöðum. Atvinnurekendum ber samkvæmt vinnuverndarlögum að gera starfsmönnum sínum ljóst að slík hegðun sé óheimil og grípa til aðgerða komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um slíkt framferði.

Vinnueftirlitið gaf út leiðbeiningarefni haustið 2016 um að fyrirtæki megi ekki láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi viðgangast á vinnustöðum. Leiðbeiningarnar er að finna hér á vef SA ásamt tengdu efni sem má nálgast hér að neðan.

Tengt efni: