Vinnumarkaður - 

02. desember 2013

Fyrirtæki sýni frumkvæði á sviði samfélagsábyrgðar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fyrirtæki sýni frumkvæði á sviði samfélagsábyrgðar

Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, segir mikilvægt að fyrirtæki taki frumkvæði í að sýna samfélagsábyrgð frekar en að stjórnvöld gefi út tilskipanir um slíkt. Það sé fyrirtækjanna að haga rekstri sínum og vinnubrögðum umfram það sem lög og reglur fyrirskipa og eðlilegt að áherslurnar séu þá í samræmi við hagsmuni fyrirtækisins. Rætt er við Hrafnhildi í nýjasta Viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem er að finna ítarlega umfjöllun um samfélagsábyrgð.

Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, segir mikilvægt að fyrirtæki taki frumkvæði í að sýna samfélagsábyrgð frekar en að stjórnvöld gefi út tilskipanir um slíkt. Það sé fyrirtækjanna að haga rekstri sínum og vinnubrögðum umfram það sem lög og reglur fyrirskipa og eðlilegt að áherslurnar séu þá í samræmi við hagsmuni fyrirtækisins. Rætt er við Hrafnhildi í nýjasta Viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem er að finna ítarlega umfjöllun um samfélagsábyrgð.

"Samfélagsábyrgð getur falið ýmislegt í sér, frá því að styrkja nærsamfélagið með beinum framlögum, hlúa að og styðja við starfsmenn fyrirtækisins, umgangast náttúru og umhverfi af virðingu, yfir í að tryggja að vörur og hráefni sem notuð eru hafi verið framleidd með ábyrgum hætti," útskýrir hún.

"Meginatriði er að fyrirtækin ráði sjálf hvar þau leggja áherslurnar þannig að það gagnist þeim best og það verður að gefa þeim svigrúm til að þróa sína samfélagslegu ábyrgð á eigin forsendum þannig að það styrki fyrirtækið sem best."

Í umfjöllun Morgunblaðsins bendir Hrafnhildur á að þó svo að stjórnvöld eigi ekki að stýra samfélagsáherslum fyrirtækjanna þá geti yfirvöld skapað ákveðna hvata til að gera vel. "Þetta hefur verið hitamál hjá ESB enda takast þar á þau sjónarmið að annars vegar verði fyrirtæki að sýna aukna samfélagsábyrgð, og hins vegar að það geti ekki leitt til æskilegrar niðurstöðu ef samfélagsábyrgðin er þvinguð fram ofanfrá."

Í stefnumörkun ESB frá 2011 er þannig lögð áhersla á ábyrgð fyrirtækjanna á áhrifum þeirra á samfélagið og þau marki sér því stefnu um samfélagsábyrgð umfram það sem lög og reglur kveða á um. Þá er þar nú til afgreiðslu umdeild tillaga að tilskipun um það sem á ensku er kallað nonfinancial reporting, þ.e. bókhald um samfélagslega þætti sem standa utan hins hefðbundna rekstrar."

Hrafnhildur segir fyrirkomulag í þessa veru hafa verið innleitt í Danmörku. Þar hafi fyrirtækjum verið gert að gera grein fyrir því í ársskýrslu hvort þau sinni samfélagsábyrgð eða ekki.

"Flest fyrirtæki vilja síður skilja þennan kafla eftir tóman og þannig skapast hvatning til að skoða vel og meta samfélagslegt hlutverk fyrirtækisins, sýna frumkvæði og marka sér stefnu."

Með þessu er ekki bara verið að ýta undir samfélagslega ábyrgan rekstur að sögn Hrafnhildar  heldur tekst með þessu að auka gagnsæi hjá félögum og auðvelda eigendum og fjárfestum að leggja mat á hvort, og þá hvar, má gera betur.

Þegar fjallað er um samfélagsábyrgð segir Hrafnhildur að oft sé einblínt á áhrif rekstrar á nærsamfélagið. Ágætt sé að fyrirtæki taki virkan þátt í að byggja upp öflugt og heilbrigt nærsamfélag en vaxandi kröfur séu um að hugað sé mjög vandlega að samfélagsáhrifum á heimsvísu.

"Á síðustu árum hefur orðið mikil vitundarvakning jafnt hjá almenningi og í atvinnulífinu um mikilvægi þess að samfélags-sjónarmiða sé gætt og aðfangakeðjur séu í lagi. Þessi vakning hefur meðal annars komið fram í stofnun Global Compact, - sáttmála um samfélagsábyrgð -  verkefnis á vegum Sameinuðu Þjóðanna sem miðar að því að hvetja fyrirtæki til að iðka sjálfbæra og ábyrga viðskiptahætti."

Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global Compact og hafa þrettán aðilar, þar af tíu fyrirtæki, hér á landi skrifað undir sáttmálann. "Global Compact vinnur eftir tíu grunnviðmiðum sem snerta á þáttum á borð við mannréttindi, umhverfisáhrif, spillingu og aðbúnað starfsmanna. Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu skuldbinda sig þannig til að ástunda sjálf ábyrga starfshætti og sneiða hjá viðskiptum við birgja sem t.d. virða ekki félagafrelsi starfsmanna, gerast uppvísir að nauðungarvinnu, eða sýna ekki aðgát þegar kemur að mögulegum umhverfisáhrifum."

Hrafnhildur segir að sterk hreyfing sé í hinum vestræna heimi í átt að gildum og vinnureglum í þessa veru og hefur reynslan sýnt að ekki síst neytendur refsa fyrirtækjum ef þau gerast uppvís að því að fara illa með samfélag, umhverfi og fólk. "Má þar t.d. nefna slysið sem varð í fataverksmiðunni í Bangladess fyrr á árinu og vakti kröftug viðbrögð. Ófá vestræn fyrirtæki urðu fyrir töluverðum álitshnekki í kjölfarið og hefur þetta skelfilega slys orðið kveikjan að mikilli umræðu."

Sjá nánar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 28. nóvember 2013.

Tengt efni:

Vefur Global Compact

Norrænt net Global Compact

Samtök atvinnulífsins