Vinnumarkaður - 

04. Maí 2004

Fyrirtæki setja siðferðisleg viðmið á oddinn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fyrirtæki setja siðferðisleg viðmið á oddinn

"Að efla traust almennings á atvinnulífinu" var heitið á erindi Görans Trogen, framkvæmdastjóra hjá sænsku samtökum atvinnulífsins, á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Trogen sagði frá því hvernig siðferði í viðskiptum hafi mikið verið til umræðu í Svíþjóð undanfarin ár, ekki síst í tengslum við kaupauka-samninga nokkurra stjórnenda Skandia tryggingafélagsins og mútumál sem tengjast sænsku ríkisáfengiseinkasölunni. Samhliða alþjóðlegri umræðu um Enron, Worldcom og fleiri fyrirtæki hafi verulega dregið úr trausti sænsks almennings til atvinnulífsins.

"Að efla traust almennings á atvinnulífinu" var heitið á erindi Görans Trogen, framkvæmdastjóra hjá sænsku samtökum atvinnulífsins, á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Trogen sagði frá því hvernig siðferði í viðskiptum hafi mikið verið til umræðu í Svíþjóð undanfarin ár, ekki síst í tengslum við kaupauka-samninga nokkurra stjórnenda Skandia tryggingafélagsins og mútumál sem tengjast sænsku ríkisáfengiseinkasölunni. Samhliða alþjóðlegri umræðu um Enron, Worldcom og fleiri fyrirtæki hafi verulega dregið úr trausti sænsks almennings til atvinnulífsins.

Siðareglur

Í ljósi þessarar umræðu hefur sænska ríkisstjórnin skipað nefnd stjórnmálamanna og fulltrúa atvinnulífs til þess að semja drög að siðareglum fyrir stjórnir fyrirtækja, sem snúa m.a. að samskiptum stjórnar og aðalfundar og að ákvörðun launakjara æðstu stjórnenda. Trogen sagði þróunina alla vera í átt til aukins gagnsæis og meira vægis hluthafafunda á kostnað stjórna.

Krafa markaðarins

Trogen fjallaði um það hvernig fyrirtæki leggja í vaxandi mæli áherslu á jákvæða ímynd hvað varðar siðferði í viðskiptum og að farið sé eftir ýmsum fjölþjóðlegum viðmiðunum á þessu sviði, sem þó séu ekki lagalega bindandi. Þannig sé NIKE íþróttavöruframleiðandinn með 90 manns í vinnu í höfuðstöðvum sínum í Seattle, gagngert til þess að gæta þess að í öllum starfsstöðvum fyrirtækisins sé unnið í samræmi við helstu fjölþjóðleg viðmið um góða stjórnarhætti og félagslega ábyrgð fyrirtækja. Trogen sagði þessa tilhneigingu sífellt meira áberandi í Svíþjóð. Fyrirtæki leggi vaxandi áherslu á að skapa sér þá ímynd að þau setji siðferðisleg viðmið á oddinn. Öðru vísi njóti þau ekki trausts almennings, neytenda og mögulegs framtíðarstarfsfólks.

Trogen, sem situr í stjórn Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ILO fyrir hönd norrænna atvinnurekenda (þar á meðal SA), sagðist hafa tekið eftir mikilli aukningu í áhuga fyrirtækja á slíkum fjölþjóðlegum viðmiðum um stjórnarhætti og félagslega ábyrgð fyrirtækja, svo sem frá ILO og OECD. Núorðið þurfi fyrirtæki annað hvort að fara eftir slíkum viðmiðum, eða útskýra hvers vegna þau geri það ekki, a.m.k. svokölluð fjölþjóðafyrirtæki sem eru með starfsemi víða um heim.

Eru að efla traust almennings til atvinnulífsins

Trogen sagði frá því hvernig sænsku samtök atvinnulífsins hafa samþykkt viðmiðunarreglur sem snúa að ákvörðunartöku um launakjör æðstu stjórnenda fyrirtækja þar sem áherslan er lögð á gagnsæi, upplýsingagjöf og sjálfstæða ákvörðunartöku. Meðal annars er mælt með því að allir kaupréttarsamningar þarfnist samþykkis hluthafafundar. Sænsku samtök atvinnulífsins hafa jafnframt haldið veglegar ráðstefnur um traust almennings til atvinnulífsins og að sögn Trogens telja samtökin sig hafa náð árangri í að ná skilningi fólks á því að fyrrnefnd mál séu undantekningin en ekki reglan og að ötullega sé unnið að því innan atvinnulífsins að efla siðferði í viðskiptum.

Sjá glærur Görans Trogen.

Samtök atvinnulífsins