Fyrirtæki hyggjast fækka fólki (1)
Að meðaltali hyggjast fyrirtæki fækka starfsfólki um 1,55% á næstu tveimur til þremur mánuðum, samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins sem gerð var í desember. Þetta er talsverð breyting frá síðustu mælingu sem SA gerðu í júní, en þá hugðust fyrirtæki að meðaltali fækka fólki um 0,8%.
Eins og í fyrri könnunum vega
fyrirtæki með færri en 60 starfsmenn
fjórfalt á við stærri fyrirtæki, en stór fyrirtæki eru með mun
betri svörun en lítil.
Samdráttur í flestum
greinum
Áform eru uppi um fækkun fólks í flestum greinum, utan
ferðaþjónustu (SAF), þar sem fyrirtæki hyggjast fjölga fólki um
0,3%. Mest hyggjast fyrirtæki í útgerð (LÍÚ) og fiskvinnslu (SF)
fækka fólki, eða um fjögur prósent, en fyrirtæki í iðnaði (SI) og í
verslun og þjónustu (SVÞ) hyggjast fækka fólki um tvö prósent.
Fjármálafyrirtæki (SFF) hyggjast fækka um hálft prósent og
rafverktakar (SART) um 0,3%. Fyrirhuguð fækkun fólks í sjávarútvegi
getur m.a. átt rætur að rekja til niðurskurðar aflaheimilda, einkum
í þorski, og til sameininga í greininni og hagræðingar þeim
samfara.
Einkum stærri fyrirtæki sem
hyggjast fækka
Enn eru það stærri fyrirtækin, með yfir 40 starfsmenn, sem virðast
öðrum fremur ætla að fækka fólki, en hið sama kom fram í mælingum
SA í júní 2002 og í júní og desember 2001. Þetta veldur nokkrum
áhyggjum, því reynslan kennir að alla jafna eru það stærri
fyrirtækin sem eru leiðandi í aðlögun að sveiflum í efnahagslífinu,
en smærri fyrirtækin eru gjarnan undirverktakar hjá þeim stærri og
selja þeim vörur og þjónustu. Fimmtungur stærri fyrirtækjanna boðar
hópuppsagnir (tíu starfsmanna eða fleiri).
Minni eftirspurn á landsbyggðinni
Líkt og í síðustu mælingu SA, í júní 2002, mælist nú minni
eftirspurn eftir starfsfólki á landsbyggðinni en á
höfuðborgarsvæðinu. Að meðaltali hyggjast nú fyrirtæki með
starfssvæði á landsbyggðinni fækka fólki um 1,9%, en fyrirtæki á
höfuðborgarsvæðinu hyggjast fækka fólki um 0,6%. Fyrirtæki með
starfssvæði á landinu öllu hyggjast fækka fólki um 1,8%.
Könnunin var gerð í desember 2002. Um 1250 aðildarfyrirtæki
Samtaka atvinnulífsins voru spurð um ráðningaráform sín næstu tvo
til þrjá mánuði. Tekið var fram að lausráðningar væru ekki taldar
með. Alls bárust svör frá rúmlega sex hundruð fyrirtækjum, eða
rúmum 48% aðspurðra.