Fyrirtæki hyggjast draga úr fjárfestingum (1)
38% fyrirtækja hyggjast fjárfesta minna í ár en árið 2002, 43% hyggjast fjárfesta álíka mikið og 19% hyggjast fjárfesta meira en í fyrra. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Samtök atvinnulífsins gerðu meðal aðildarfyrirtækja sinna í janúar.
Lítill munur milli greina
Samdrátturinn virðist nokkuð almennur milli greina, alls
staðar hyggjast fleiri fyrirtæki draga úr fjárfestingum en auka
þær. Ef skoðaður er mismunur á hlutfalli þeirra sem hyggjast
fjárfesta meira annars vegar og minna hins vegar er hann þó sínu
mestur meðal fjármálafyrirtækja (SFF) og í fiskvinnslu (SF), en
minnstur í verslun og þjónustu (SVÞ).
Smellið á myndina
Það vekur raunar athygli að samdráttur fjárfestinga í verslun og þjónustu sé þó ekki almennari en raun ber vitni, svo skömmu eftir opnun Smáralindar, og hlýtur það að skýrast af annarri starfsemi en smásöluverslun á höfuðborgarsvæðinu. Mikill samdráttur í fjárfestingum fjármálafyrirtækja kemur hins vegar ekki á óvart þar sem mjög mikil áhersla er á kostnaðarlækkun. Í fiskvinnslunni hefur mikið verið fjárfest undanfarin ár en rekstrarskilyrði eru mjög erfið nú sökum hás gengis krónunnar, eins og í öðrum útflutningsgreinum og greinum í beinni samkeppni við innflutning.
Meiri samdráttur á landsbyggðinni
Loks virðist samdráttur vera almennari meðal fyrirtækja á
landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Meðal fyrirtækja með
starfssvæði á höfuðborgarsvæðinu hyggjast 20% fjárfesta meira í ár
en 31% draga úr fjárfestingum, en meðal fyrirtækja með starfssvæði
á landsbyggðinni hyggjast 17% fjárfesta meira í ár en 45% hyggjast
draga úr fjárfestingum. Hjá fyrirtækjum með starfssvæði á landinu
öllu eru hlutföllin 21% og 37%, eða nokkurn veginn þau sömu og í
heildarniðurstöðum.
Ekki skilaboð um upphæðir
Ekki er hægt að draga þá ályktun af þessum tölum að
heildarfjárfesting atvinnulífsins verði minni í ár en í fyrra.
Einstakar fjárfestingar geta skipt sköpum um þá tölu og ljóst að
væntanlegar framkvæmdir við Kárahnjúka munu hafa þarna veruleg
áhrif strax á þessu ári. Hins vegar sýna þessar tölur að almennt
halda fyrirtækin ennþá að sér höndum, að enn er slaki í
atvinnulífinu, sem skýrist m.a. af háum vöxtum og að sumu leyti af
háu gengi krónunnar.
Könnunin var gerð í janúar og var hún send til 1350 fyrirtækja.
Svör bárust frá um 650 þeirra, eða um 48%.