Efnahagsmál - 

07. Mars 2002

Fyrirtæki hyggjast draga úr fjárfestingum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fyrirtæki hyggjast draga úr fjárfestingum

.

.

Helmingur fyrirtækja hyggst fjárfesta minna í ár en árið 2001, en um 17% hyggjast auka fjárfestingar sínar. Þriðjungur fyrirtækja ætlar að fjárfesta álíka mikið og árið á undan. Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem Samtök atvinnulífsins gerðu í kringum mánaðamótin febrúar/mars

 

(smellið á myndina)

Minni samdráttur á landsbyggðinni
Á höfuðborgarsvæðinu er algengara að fyrirtæki hyggist draga úr fjárfestingum en á landsbyggðinni. Það kemur ekki á óvart, því að uppsveiflan undanfarin ár hefur að miklu leyti verið bundin við suðvesturhorn landsins.

(smellið á myndina)


Minnstur samdráttur í sjávarútvegi 
Af einstökum atvinnugreinum er mest um að dregið sé úr fjárfestingum í ferðaþjónustu (SAF), en einna minnstur virðist samdrátturinn í sjávarútvegi (LÍÚ og SF). Afkoma hefur verið slæm í ferðaþjónustu undanfarin ár. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum í haust gera það m.a. að verkum að menn fara varlega í fjárfestingar í þessari atvinnugrein. Góð afkoma í sjávarútvegi vegna lágs gengis krónunnar virðist aftur á móti vera meginskýringin á því að menn hyggjast síður halda að sér höndum í fjárfestingum þar en í öðrum atvinnugreinum.

Einstakar fjárfestingar geta skipt sköpum
Í haust var giskað á að fjárfestingar atvinnuveganna myndu dragast saman um 10% árið 2001 (Þjóðhagsáætlun). Árin á undan jukust fjárfestingarnar hins vegar miklu meira en önnur útgjöld landsmanna. Frá 1995-2000 var aukningin um 160% að magni til, samkvæmt hagtölum. Þess vegna mátti gera ráð fyrir að þær drægjust hratt saman þegar um hægðist í efnahagslífinu. Þess má þó geta að einstakar fjárfestingar geta skipt sköpum. Ef hafist verður handa við Kárahnjúkavirkjun á árinu, eins og margt bendir til, gætu fjárfestingar þeirra atvinnuvega í heild orðið meiri en árið á undan, þó að önnur fyrirtæki haldi að sér höndum í fjárfestingum. 

Um þrettán hundruð aðildarfyrirtæki SA fengu spurningar í netpósti. Svör bárust frá 334 og er svarhlutfall því um 25%.

Samtök atvinnulífsins