Fyrirtæki dæmdar bætur vegna brota starfsmanns á samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi

Með dómi Hæstaréttar 23. október s.l. í máli nr. 124/2003 var fyrrverandi starfsmaður fyrirtækis dæmdur til greiðslu 900.000 kr. févítis vegna brota á ákvæði í ráðningarsamningi um að hann skuldbindi sig til að ráða sig ekki hjá fjórum nafngreindum fyrirtækjum í tvö ár frá starfslokum sínum hjá fyrirtækinu. Talið var að samningsskuldbinding starfsmannsins hafi hvorki verið víðtækari en heimilað sé samkvæmt lögum né þannig að henni yrði vikið til hliðar. Dómurinn staðfestir  fyrri dómaframkvæmd um lögmæti afmarkaðra samkeppnisákvæða og að heimilt sé að semja um greiðslu févítis sé brotið gegn slíkum ákvæðum.

Málavextir voru þeir að í tengslum við launahækkun starfsmanns var gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Í samningnum var ákvæði um að léti hann af starfi skuldbindi hann sig til þess að taka ekki við starfi, hvorki beint eða óbeint, hjá fjórum tilgreindum fyrirtækjum, þar á meðal P ehf., í a.m.k. tvö ár frá starfslokum. Brot á samkeppnisbanninu skyldi varða févíti kr. 12.000 á dag.

Starfsmaðurinn sagði upp starfi sínu árið eftir og hóf nokkru síðar störf hjá P ehf. andstætt fyrrgreindu ákvæði ráðningarsamningsins. Bæði fyrirtækin, áfrýjandi og P ehf., selja sérhæfðan búnað til fyrirtækja og hafa hvort sín umboð fyrir tæki sem gegna sama eða svipuðu hlutverki. Markaðurinn, sem fyrirtækin starfa á, er þröngur, þau hafa yfirburða markaðsstöðu hér á landi og eru í harðri samkeppni.

Í dómi Hæstaréttar, sem snéri við dómi héraðsdóms, segir að grunnregla samningaréttarins sé að samninga skuli halda. Í meginreglunni um samningsfrelsi felst meðal annars heimild atvinnurekanda til að semja við starfsfólk um að það ráði sig ekki í vinnu hjá öðrum í framhaldi af ráðningartímanum. Gert sé ráð fyrir slíku samningsákvæði í 1. mgr. 37. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þar sé jafnframt kveðið á um að við tilteknar aðstæður séu slík samningsákvæði óskuldbindandi, það er ef skuldbindingin er víðtækari en nauðsynlegt er til þess að varna samkeppni eða hún skerðir með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess sem tókst skylduna á herðar. Starfsmaðurinn hafi gert ráðningarsamning við fyrirtækið, sem báðir hafi haft ávinning af. Hann hafi fallist á að hafa samkeppnisákvæðið í samningnum og þurfi því að sýna fram á að þær aðstæður séu fyrir hendi sem geri ákvæðið óskuldbindandi fyrir hann.

P ehf sé eitt þeirra fyrirtækja og hið fyrsta í röðinni sem starfsmaðurinn hafi lofað að taka ekki til starfa hjá í tvö ár eftir starfslok. Samningsákvæðið sé því þröngt, afmarkað og hnitmiðað, sett í því skyni að vernda ákveðna og lögmæta samkeppnishagsmuni. Það skyldi aðeins gilda í tvö ár, sem sé hæfilegur tími. Það geti því ekki talist víðtækara en nauðsynlegt var til að varna samkeppni. Þá þótti ekki hafa verið sýnt fram á að starfsmaðurinn ætti erfitt með að fá atvinnu við sitt hæfi. Hann hafi gegnt lykilstöðu í fyrirtækinu, verið í beinu sambandi við viðskiptamenn og borið ríka trúnaðarskyldu. Þegar þetta sé virt verði ekki talið að samningsákvæðið hafi skert atvinnufrelsi hans með ósanngjörnum hætti. Því séu hvorki skilyrði til þess að telja loforð starfsmannsins óskuldbindandi fyrir hann með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 né til 36. gr. sömu laga.

Gerð var krafa um févíti vegna 260 daga, samtals 3.120.000 krónur. Í dómi Hæstaréttar segir að starfsmaðurinn hafi gengist undir þetta févíti ryfi hann samninginn við fyrirtækið. Fallist var á að févítisákvæðið fæli í sér samningsbundnar bætur og þyrfi fyrirtækið því ekki að sanna tjón sitt. Þar sem starfsmaðurinn réði sig sem launaðan starfsmann en stofnaði ekki sitt eigið fyrirtæki þótti við ákvörðun bóta mega líta til mánaðarlauna starfsmannsins og þeirrar launahækkunar sem hann fékk við gerð samningsins, fremur en dagsekta þeirra sem févítið ákvað. Bætur voru því ákveðnar að álitum, 900.000 krónur.

Sjá nánar dóm Hæstaréttar.