Efnahagsmál - 

04. júní 2007

Furðulegur tekjustofn Neytendastofu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Furðulegur tekjustofn Neytendastofu

Það er merkilegt hvað Alþingi eru mislagðar hendur þegar kemur að því að veita ríkisstofnunum heimild til að innheimta gjöld fyrir veitta þjónustu. Margoft hefur umboðsmaður Alþingis vakið athygli á því að löggjafinn hefur gengið of langt í að framselja skattlagningarheimild sína. Slíkt er ekki heimilt eins og kunnugt er. Hins vegar er ríkisstofnunum heimilt að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu enda sé um slíkt kveðið á í lögum og má þá innheimt gjald ekki nema hærri upphæð en sem nemur kostnaði við að veita þjónustuna.

Það er merkilegt hvað Alþingi eru mislagðar hendur þegar kemur að því að veita ríkisstofnunum heimild til að innheimta gjöld fyrir veitta þjónustu. Margoft hefur umboðsmaður Alþingis vakið athygli á því að löggjafinn hefur gengið of langt í að framselja skattlagningarheimild sína. Slíkt er ekki heimilt eins og kunnugt er. Hins vegar er ríkisstofnunum heimilt að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu enda sé um slíkt kveðið á í lögum og má þá innheimt gjald ekki nema hærri upphæð en sem nemur kostnaði við að veita þjónustuna.

Í lögum sem samþykkt voru á Alþingi fyrir um ári síðan um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn er að finna ákvæði um löggildingargjald fyrir mælitæki sem renna á til Neytendastofu. Lögin sem eru nr. 91/2006 er að finna hér. Í lögunum er gengið út frá því að þriðji aðili getur fengið heimild til að annast löggildingu tækja og hafa síðan eftirlit með tækjunum. Neytendastofa á í slikum tilvikum engin bein samskipti við eiganda tækisins þar sem hann nýtir sér einungis þjónustu þessa þriðja aðila og greiðir honum fyrir samkvæmt samkomulagi eða gjaldskrá.

Nú bregður svo við að í ofangreindum lögum er að finna svofellt ákvæði í 31. grein:
"Í gjaldskrá sem ráðherra setur skal kveða á um löggildingargjald sem innheimta skal þegar Neytendastofa eða aðili sem fengið hefur umboð hennar til löggildingar framkvæmir löggildingu mælitækis. Aðili sem annast löggildingu skal innheimta löggildingargjald af eigendum mælitækis þegar innheimt er greiðsla fyrir veitta þjónustu við mælitækið. Löggildingargjald skal greiða af mælitækjum sem um getur í 5.-8. og 11. tölul. 2. mgr. 13. gr.


Löggildingargjald skal nema 15-25% af því þjónustugjaldi sem innheimt er af eiganda mælitækis þegar löggilding fer fram.


Í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir skal kveðið nánar á um löggildingargjald fyrir einstakar tegundir mælitækja samkvæmt þessari grein."

Samkvæmt orðanna hljóðan ber þeim sem annast eftirlit með tækjunum að skila til Neytendastofu 15% - 25% af þeim tekjum sem innheimtar eru fyrir eftirlitið. Í lögunum eða greinargerð með þeim er ekki að finna neinar vísbendingar um í hvaða tilvikum eigi að innheimta 15% og hvenær 25% né við hvað eigi að miða þegar ráðherra fer að staðfesta þá gjaldskrá sem gefa á út.

Gjaldstofn opinberrar stofnunar sem byggir á tekjum þriðja aðila er afar sérstakur svo ekki sé meira sagt. Miklu nær er að Neytendastofa innheimti þann kostnað sem sannanlega felst í eftirliti með þeim aðilum sem hennar umboð hafa til löggildingar án þess að blanda gjaldskrá þeirra inn í það. Viðmiðun við gjaldskrá þriðja aðila hefur enga tengingu við kostnað Neytendastofu. Vandséð er hvers vegna tekjur Neytendastofu eigi að vera komnar undir ákvörðunum aðila úti í bæ og að ráðherra geti hækkað og lækkað þetta gjaldhlutfall án þess að það hafi tengingu við raunverulegan kostnað stofnunarinnar.

Umboðsmaður Alþingis hefur í nokkrum álitum sínum vísað til þess að um þjónustugjöld hins opinbera gildi sú meginregla við ákvörðun gjaldanna að þau séu ekki hærri en nemur þeim kostnaði sem almennt stafar af því að veita þá þjónustu sem í hlut á. Að öðrum kosti væri um að ræða almenna tekjuöflun ríkisins sem byggja verður á fullnægjandi skattlagningarheimild sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskárinnar. Gjaldtaka fyrir eftirlit Neytendastofu virðist því flokkast undir skattheimtu en ekki álögð gjöld vegna þjónustu og þannig ekki vera reist á lögmætum sjónarmiðum.


 

Samtök atvinnulífsins