Efnahagsmál - 

04. Apríl 2002

Furðulegur málflutningur heimilislækna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Furðulegur málflutningur heimilislækna

Ein furðulegasta uppákoman í fjölmiðlum síðustu daga eru viðbrögð heilsugæslulækna við þeim úrskurði kjaranefndar að vinna þeirra við útgáfu læknisvottorða teljist hluti af aðalstarfi þeirra og þeim sé því ekki heimilt að taka sérstaka þóknun fyrir þau umfram það sem kjaranefnd ákveður. Blasir við að læknunum hefur aldrei verið heimil þessi sjálftaka samhliða launum ákveðnum af kjaranefnd og að viðbrögð þeirra nú fela í sér brot á starfsskyldum.

Ein furðulegasta uppákoman í fjölmiðlum síðustu daga eru viðbrögð heilsugæslulækna við þeim úrskurði kjaranefndar að vinna þeirra við útgáfu læknisvottorða teljist hluti af aðalstarfi þeirra og þeim sé því ekki heimilt að taka sérstaka þóknun fyrir þau umfram það sem kjaranefnd ákveður. Blasir við að læknunum hefur aldrei verið heimil þessi sjálftaka samhliða launum ákveðnum af kjaranefnd og að viðbrögð þeirra nú fela í sér brot á starfsskyldum.

Stjórn Félags íslenskra heimilislækna segir þetta hins vegar alvarlega kjaraskerðingu og segir marga heilsugæslulækna hafa ákveðið að vinna ekki vottorð til annarra en Tryggingastofnunar og vegna félagslegrar þjónustu.

Nýleg mál tveggja forstöðumanna
Hefur umfjöllun í fjölmiðlum um þetta mál verið nokkuð einkennileg, en þar hefur fyrst og fremst bergmálað að útgáfa læknisvottorða sé nú í uppnámi vegna þeirrar kjaraskerðingar sem þeir læknar hafi orðið fyrir sem nú eigi í "kjaradeilu." Er fróðlegt að bera þessa umfjöllun saman við umfjöllun fjölmiðla um nýleg mál forstöðumanna Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns. Þar var um það að ræða að viðkomandi forstöðumenn, sem njóta heildarkjara sem ákvörðuð eru af kjaranefnd, þáðu viðbótarlaun án vitundar nefndarinnar og sem ekki var stofnað til með réttum hætti.  Öllum ber saman um að þeir hefðu átt að gera sér grein fyrir að það væri ekki heimilt. Þegar heilsugæslulæknar eiga í hlut virðast a.m.k. einhverjir telja að allt aðrar reglur eigi að gilda.

Minnir á löngu horfna tíma
Það verður að teljast einkennilegt fyrirkomulag að opinberir starfsmenn þiggi sérstakar greiðslur frá sjúklingum fyrir að sinna starfi sínu fyrir hið opinbera.
Auðvitað þyrfti að vera sérstök lagaheimild fyrir slíku gjaldi, sem rynni þá ekki beint í vasa tiltekinna starfsmanna heldur til viðkomandi stofnana í formi þjónustugjalda. Þessar greiðslur beint til heilsugæslulæknanna minna helst á löngu horfna tíma þegar tilteknir embættismenn fengu prósentur af ríkistekjum. Alls kyns þess háttar furðurlegheit viðgengust á sínum tíma við ýmis embætti, þar sem starfsmenn innheimtu gjöld og þóknanir af almenningi í eigin vasa, jafnvel utan við allt bókhald og skattskil. Munu flestir hafa talið að slíkt væri aflagt. Dæmi heilsugæslulæknanna hlýtur að gefa tilefni til að Ríkisendurskoðun og jafnvel skattyfirvöld kanni hvernig þessi ólöglega framkvæmd snýr að rekstri þessara stofnana.


 

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins