21. mars 2023

Fundur með framkvæmdastjóra State of Green

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fundur með framkvæmdastjóra State of Green

Vinna við gerð Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA) er nú í fullum gangi og miðar vel áfram. Í gær bauð verkefnastjórn LVA fulltrúum þeirra atvinnugreina sem taka þátt í verkefninu til fundar með Finn Mortensen, framkvæmdastjóra State of Green í Danmörku. Fundurinn var góður og áttu gestir gagnlegt samtal við Finn um samstarf atvinnulífs og stjórnvalda í loftlagsmálum í Danmörku undanfarin þrjú ár.

Aðildarsamtök SA stýra vinnu við gerð LVA sem eru unnir á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi og viðeigandi aðildarsamtaka með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. LVA eru lifandi vegvísar og verður því hægt að bæta við atvinnugreinum eftir því sem verkefninu vindur fram.

Óumdeilt er að fyrirtæki eru best til þess fallin að greina tækifæri og leita lausna í atvinnustarfsemi og til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að sporna við loftslagsvandanum. Þessir aðilar hafa mikla sérþekkingu á sínu sviði og því er mikilvægt að nýta þann slagkraft sem býr í atvinnulífinu til að ná markmiðum Íslands um samdrátt losunar. Að sama skapi er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg, til að mynda hvað varðar lög og reglugerðir, með hvötum til grænna fjárfestinga, stuðningi við umhverfi nýsköpunar, tækniþróunar og orkuskipta.

Mikilvægt hlutverk atvinnulífsins

Næstu skref í vinnu við gerð vegvísanna hér á landi eru að greina samansafn aðgerða úr vinnustofum atvinnugreina og setja raunhæf, mælanleg og tímasett markmið út frá aðgerðum sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum. Markmiðið með LVA er að stuðla að auknu samstarfi og samtali á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun fyrir Ísland. Þannig megi hraða aðgerðum í þágu loftlagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Ljóst er að íslenskt atvinnulíf gegnir mikilvægu hlutverki í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru til að metnaðarfull loftslagsmarkmið Íslands um 55% samdrátt í losun fyrir 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040 náist. Atvinnulífið hefur þegar stigið stór skref í að ná fram nauðsynlegum umbreytingum í sinni starfsemi en mikið verk er óunnið.

LVA munu innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa með mælanlegum markmiðum, að því marki sem unnt er, sértækum aðgerðum og úrbótatillögum sem stuðla að samdrætti í losun. Þá munu vegvísarnir ramma inn aðgerðir sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum til að stuðla að umbótum í loftslagsmálum.

Samtök atvinnulífsins