Efnahagsmál - 

20. Maí 2011

Frumvörp sjávarútvegsráðherra ávísun á áralangar deilur og skaða fyrir þjóðfélagið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Frumvörp sjávarútvegsráðherra ávísun á áralangar deilur og skaða fyrir þjóðfélagið

Frumvarpsdrög sjávarútvegsráðherra um breytingar á stjórn fiskveiða ganga þvert á ítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að skapa sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði til langs tíma. Samtök atvinnulífsins eru reiðubúin til samráðs og samvinnu við ráðherra þannig að unnt verði að ná sátt um rekstrargrunn þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Frumvarpsdrög sjávarútvegsráðherra um breytingar á stjórn fiskveiða ganga þvert á ítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að skapa sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði til langs tíma. Samtök atvinnulífsins eru reiðubúin til samráðs og samvinnu við ráðherra þannig að unnt verði að ná sátt um rekstrargrunn þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Ljóst er að frumvarpsdrögin geta ekki orðið grundvöllur að sátt. Þau munu kalla fram áframhaldandi deilur og átök á komandi árum og verða tilefni stöðugra breytinga á fiskveiðistjórninni. Þessi átök geta ekki leitt til neins annars en þess að afkoma sjávarútvegsins verður verri en ella og um leið rýra þau hag fyrirtækjanna, fólksins sem hjá þeim starfar, þjónustuaðila, sveitarfélaga og um leið þjóðarinnar allrar.

Samtök atvinnulífsins, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva, hafa sent sjávarútvegsráðherra sameiginlegar umsagnir um frumvörpin og má nálgast umsagnirnar hér að neðan. Það er mat samtakanna að verði frumvörpin óbreytt að lögum muni þau kollvarpa rekstri starfandi útvegsfyrirtækja og stórauka skattheimtu á sjávarútveginn, aflahlutdeildarkerfi sem hafi í öllum aðalatriðum reynst vel verði gjörbreytt og óvissa í greininni aukin. Jafnframt ógni frumvörpin tilveru fyrirtækja sem þjónusti útveginn og setji hag og framtíð starfsmanna útvegsfyrirtækja í uppnám. Mikil óvissa verði þannig sköpuð um hagsmuni byggðarlaga og framtíð þeirra.

Samtökin lýsa miklum áhyggjum vegna þess að ekkert mat er lagt á hugsanlegar afleiðingar af ákvæðum þessara frumvarpsdraga. Ekki verður séð að málsmeðferðin sé í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 28. september 2010 þar sem fram koma reglur um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa né virðist tekið mið af handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem gefin var út af forsætisráðuneytinu, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og skrifstofu Alþingis 2007. Samtökin eru, eins og ráðuneytinu er kunnugt um, tilbúin til samráðs og samvinnu um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða þannig að unnt verði að ná sátt um málaflokkinn.

Það vekur athygli að ekkert er að finna í þeim frumvarpsdrögum sem lögð hafa verið fram sem líklegt er að bæti hag fyrirtækja sem starfa við sjávarútveg. Minna má á að Íslendingar hafa áratuga reynslu af miklum afskiptum hins opinbera um málefni útgerðar og fiskvinnslu sem byggði á stöðugum inngripum í rekstrarskilyrði, opinberum rekstri, og sérstakri úthlutun fjármagns og fastafjármuna til valinna fyrirtækja og byggðarlaga. Allt  endaði þetta með reglulegum gengisfellingum krónunnar, efnahagslegum kollsteypum og björgunaraðgerðum til illra staddra fyrirtækja. Ótrúlegt er að eftir alla þessa reynslu skuli nú, rúmum tveimur áratugum eftir síðustu björgunaraðgerðir, haldið af stað í sömu vegferð sem reynst hefur svo illa hér á landi og í raun hvarvetna sem þessi leið hefur verið farin.

Samtökin skora á ríkisstjórnina að hverfa af þeirri braut sem mörkuð er með fyrrgreindum frumvarpsdrögum.

Sjá nánar:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Ódagsett skjal, afhent í ráðuneytinu 13. maí sl.

Umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Merkt: "Í vinnslu. - 13. maí 2011"

Tengt efni:

HANDBÓK UM UNDIRBÚNING OG FRÁGANG LAGAFRUMVARPA


Þar segir m.a.:

Samráð við hagsmunaaðila og almenning

Samráð stuðlar að því að forsendur mála liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin. Einnig styðst samráð við þau lýðræðisrök að þeir sem ákvarðanir varða eigi þess kost að hafa áhrif á efni þeirra. Æskilegt er að efna til samráðs við hagsmunaaðila og almenning við gerð allra þýðingarmeiri frumvarpa eftir því sem tími og aðstæður leyfa. Við mat á því hvort frumvörp eru þýðingarmikil mætti líta til þess hvort:

  • um nýja stefnumörkun er að ræða, sem horfir til breytinga á viðkomandi málefnasviði

  • nýjar skyldur eru lagðar á einstaklinga, atvinnulíf, sveitarfélög o.s.frv.

  • réttindi framangreindra aðila eru aukin eða þau skert

  • fyrirhugaðar breytingar snerta marga

Kosturinn við að efna til samráðs um frumvörp áður en þau eru lögð fram á Alþingi er sá að á því stigi er gjarnan auðveldara að taka tillit til athugasemda. Enn fremur er tími þingnefnda til að fara yfir athugasemdir oft knappur eftir að mál hafa verið lögð fram.


Mikilvægt er að skipuleggja samráð vandlega, heppilegt er að útbúa kynningarefni þar sem aðalatriði frumvarps eru dregin fram. Þá þarf að greina við hverja æskilegt sé að hafa samráð, þ.e. væntanlega þá sem munu verða fyrir áhrifum af lagasetningunni, samtök er hafa beina hagsmuni af breytingu og þá sem bera munu meginábyrgð á framkvæmd, t.d. sveitarfélögin. Einnig er rétt að freista þess að láta sjónarmið aðila sem kunna að hafa ólíka afstöðu til málefnisins koma fram. Á sumum sviðum hafa einnig skapast venjur um samráð, t.d. með þátttöku aðila vinnumarkaðarins í undirbúningi lagasetningar.

Í samþykkt ríkisstjórnarinnar 28. september 2010 segir ennfremur:

Í almennum athugasemdum með frumvörpum skal koma fram stutt og almennt mat á áhrifum fyrirhugaðrar lagasetningar. Rekja skal afleiðingar fyrir almannahagsmuni og helstu hagsmunaaðila. Áhrif á stjórnsýslu ríkisins skulu rakin eftir því sem tilefni er til. Rökstyðja skal hvers vegna ávinningurinn af samþykkt frumvarps sé meiri en hugsanleg neikvæð eða íþyngjandi áhrif.

Samtök atvinnulífsins