Frumkvöðlastarfsemi mikil en skortir fjármagn

Global Entrepreneurship Monitor (GEM) er rannsóknarsamstarf sem London Business School og Babson College í Bandaríkjunum eru í forsvari fyrir. 37 lönd tóku þátt í könnuninni og er Háskólinn í Reykjavík rannsóknaraðili fyrir Ísland og nýtur hann til þess stuðnings frá forsætisráðuneytinu, Seðlabankanum, Samtökum atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóði.

Niðurstöður íslensku GEM-skýrslunnar eru á vissan hátt mótsagnakenndar hvað varðar stöðu frumkvöðlastarfsemi á Íslandi. Miðað við önnur GEM-lönd eru óvenju margir Íslendingar þátttakendur í frumkvöðlastarfsemi og svo virðist sem óvenjuhátt hlutfall íslenskra frumkvöðla ætli sér stóra hluti í rekstri sinna fyrirtækja. Á sama tíma virðist sem að skortur á fjármagni og menntun standi í veginum fyrir því að hægt sé að nýta þessi tækifæri á árangursríkan hátt, að því er fram kemur í skýrslunni. Á meðan frumkvöðlaandinn virðist vera til staðar er líklegt að hann sé vannýttur.

Í mörgum af þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við hafa stjórnvöld áhyggjur af því að of fáir stundi frumkvöðlastarfsemi. Á Íslandi virðist þetta vandamál ekki vera til staðar. Hins vegar er ýmislegt sem bendir til þess að sú mikla frumkvöðlastarfsemi sem starfrækt sé á Íslandi sé ekki vel nýtt vegna skorts á fjármagni og menntun. Fram kemur í skýrslunni að það sé að miklu leyti í hendi stjórnvalda hvort okkur beri gæfa til þess að nýta hana betur. Til þess að svo megi verða sé nauðsynlegt að skapa forsendur fyrir aukinni sprotafjármögnun og almennri frumkvöðlamenntun. Hvorugt gerist af sjálfu sér og þess vegna sé þörf á markvissum aðgerðum stjórnvalda.

Sjá skýrsluna á vef Háskólans í Reykjavík (pdf-skjal).