Efnahagsmál - 

07. júní 2007

Frjálst flæði matvöru til og frá Íslandi í undirbúningi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Frjálst flæði matvöru til og frá Íslandi í undirbúningi

Á fundi sem SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu hélt nýverið með Halldóri Runólfssyni, yfirdýralækni og Stefáni Bjargmundssyni, deildarstjóra hjá Tollstjóranum á Eskifirði kom fram að samningur Íslands við ESB um innleiðingu matvælalöggjafar ESB er langt kominn.

Á fundi sem SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu hélt nýverið með Halldóri Runólfssyni, yfirdýralækni og Stefáni Bjargmundssyni, deildarstjóra hjá Tollstjóranum á Eskifirði kom fram að samningur Íslands við ESB um innleiðingu matvælalöggjafar ESB er langt kominn.

Með EES-samningnum innleiddi Ísland á sínum tíma matvælalöggjöf ESB hvað varðar fiskafurðir en fékk um leið undanþágu um innleiðingu löggjafarinnar hvað varðar önnur matvæli. ESB setti sér síðan nýja matvælalöggjöf árið 2002 og hefur Ísland nú ákveðið að stíga skrefið til fulls og semja við ESB um innleiðingu þessarar löggjafar hér á landi. Eftir undirskrift samningsins mun taka við tveggja ára aðlögunarferli og er ekki óraunhæft að miða við að löggjöfin taki gildi hér á landi þann 1. janúar 2010. Eftir þetta tímamark mun falla niður bann við innflutningi matvæla eins og hrás kjöts, eggja og mjólkur frá ESB ríkjum og einnig fyrir íslenskar afurðir til þessara sömu ríkja.

Sú krafa verður þó gerð varðandi hrátt kjöt að það verður að hafa verið í frysti í a.m.k. 30 daga frá slátrun áður en það kemur til landsins. Þessi undanþága er sett til að geta brugðist við og hindrað innflutning ef upp koma atvik eins og dýrasjúkdómar í sláturdýrum. Þá er einnig verið að semja um undanþágur hvað varðar ráðstafanir til að vernda landið gegn salmonellu- og camphylobakteríusýkingum í kjúklingum.

Matvæli frá ríkjum utan ESB landanna sem einu sinni hafa verið afgreidd inn á EES svæðið eru eftir það komnar í frjálst flæði og má eftir það flytja inn til Íslands án hindrana.

Að því marki sem þær vörur sem falla undir matvælalöggjöf ESB falla einnig undir fríverslunarsamninga Íslands við ESB og EFTA ríkin svo og samninga við Grænland og Færeyjar mun ekki þurfa að greiða sérstakan toll af vörunum við inn- og útflutning þeirra til og frá þessum ríkjum. Vekja ber athygli á að einungis hluti af landbúnaðarvörum s.s. mjólkurvörur og unnar kjötvörur fellur undir fríverslunarsamningana. Hið sama mun gilda um inn- og útflutning til annarra ríkja sem falla undir þá fríverslunarsamninga sem EFTA hefur gert við ríki utan EFTA, sem eru allmargir.

Ljóst er að innleiðing matvælalöggjafar ESB mun hafa heilmikil áhrif á möguleika íslenskra fyrirtækja til að flytja inn til landsins og selja tollfrjálst ýmsar vörur sem hingað til hefur ekki verið heimilt og má leiða líkur að því að þessi aukna samkeppni leiði til lægra vöruverðs hér á landi. Þá verður einnig auðveldara að flytja inn þær landbúnaðarvörur sem enn bera toll. Um leið opnast miklir möguleikar fyrir aukinn útflutning íslenskra matvæla sem ekki hefur áður verið mögulegur.

Samtök atvinnulífsins