Vinnumarkaður - 

21. janúar 2004

Frestun á frjálsri för launafólks frá nýjum EES-ríkjum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Frestun á frjálsri för launafólks frá nýjum EES-ríkjum

Stjórnvöld hafa ákveðið að nýta sér aðlögunarákvæði er varða stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Óbreyttar reglur eiga samkvæmt því að gilda hér á landi næstu tvö árin um dvalar- og atvinnuréttindi launafólks frá átta af þeim tíu ríkjum sem verða aðilar að Evrópusambandinu frá og með 1. maí nk., þ.e. ákvæði hins sameiginlega innri markaðar um frjálsa för taka ekki gildi strax gagnvart þessu fólki. Þó mun för launafólks frá Kýpur og Möltu verða óhindruð. Sjá nánar í fréttatilkynningu félagsmálaráðuneytisins.

Stjórnvöld hafa ákveðið að nýta sér aðlögunarákvæði er varða stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Óbreyttar reglur eiga samkvæmt því að gilda hér á landi næstu tvö árin um dvalar- og atvinnuréttindi launafólks frá átta af þeim tíu ríkjum sem verða aðilar að Evrópusambandinu frá og með 1. maí nk., þ.e. ákvæði hins sameiginlega innri markaðar um frjálsa för taka ekki gildi strax gagnvart þessu fólki. Þó mun för launafólks frá Kýpur og Möltu verða óhindruð. Sjá nánar í fréttatilkynningu félagsmálaráðuneytisins.

Erlent starfsfólk gegnir veigamiklu hlutverki
Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að SA hafi ekki talið þörf á að nýta aðlögunarákvæðið. "Sú afstaða er í sjálfu sér óbreytt, en í ljósi þess hvernig önnur lönd hafa verið að taka á þessu, og annarra aðstæðna, setjum við okkur í sjálfu sér ekki upp á móti þessari niðurstöðu," segir hann. Ari segir mikilvægt hvernig aðlöguninni verði háttað. "Það er líka hægt að hugsa sér að á aðlögunartíma verði reglur gagnvart innkomulöndunum rýmri en gagnvart þriðju löndunum, þ.e. þeim sem ekki eru að ganga inn í EES," segir Ari. "Erlent starfsfólk hefur gegnt veigamiklu efnahagslegu hlutverki varðandi það að hamla gegn ofþenslu og þá meiri verðbólgu og verri samkeppnisstöðu atvinnulífsins sem getur falið í sér það að störf hverfi hreinlega frá atvinnufyrirtækjum sem gætu ekki þrifist við þær aðstæður. Það getur líka komið þeim sem á að vernda í koll ef takmarkanir á frelsi í þessum efnum eru of miklar," segir Ari.

Frestun heimil í allt að sjö ár
Heimilt er að beita aðlögunarákvæðum í allt að sjö ár eftir stækkun ESB. Fyrst í tvö ár sem síðan má framlengja um þrjú til viðbótar. Loks má framlengja aðlögunartímann um tvö ár til, enda sé sýnt fram á verulega röskun á vinnumarkaði viðkomandi ríkis við það að taka upp reglur hins sameiginlega innri markaðar um frjálsa för launafólks.

Samtök atvinnulífsins