Efnahagsmál - 

02. mars 2006

Frelsi í þjónustuviðskiptum?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Frelsi í þjónustuviðskiptum?

Morgunblaðsgrein Evu Margrétar Ævarsdóttur, forstöðumanns skrifstofu Samtaka atvinnulífsins í Brussel:

Morgunblaðsgrein Evu Margrétar Ævarsdóttur, forstöðumanns skrifstofu Samtaka atvinnulífsins í Brussel:

Með aðild að EES-samningnum var Íslandi veittur að gangur að innri markaði Evrópusambandsins og réttindin sem fylgdu með kristallast í fjórfrelsinu, frjálsum vöruflutningum, frjálsri för fólks, frjálsri þjónustustarfsemi og frjálsum fjármagnsflutningum milli aðildarlandanna. Grundvallarhugsunin er að engin mismunun megi eiga sér stað á þessum þáttum á því svæði sem innri markaðurinn tekur til. Frá stofnun ESB hefur sambandið unnið hörðum höndum að því að vinna að þessum markmiðum. Hefur því orðið vel ágengt í flestum þáttum fjórfrelsins að undanskilinni þjónustustarfseminni, þar sem gífurleg skriffinska, hægagangur og mikill kostnaður hefur verið frelsi á því sviði mikill fjötur um fót og er eiginlega hægt að halda því fram að raunverulegt frelsi á þessu sviði hafi verið afar takmarkað. Sem dæmi um takmarkanir má nefna bæ í Þýskalandi sem gerir kröfu um að erlend fyrirtæki gerist aðilar að verslunarráði bæjarins, sem er með fimm ára biðlista. Annað dæmi er um ítalska reglu sem felur í sér að erlendum fyrirtækjum er skylt að hafa a.m.k. fjóra starfsmenn á Ítalíu og setji 500.000 evrur sem tryggingu fyrir starfseminni.

Markmið um frjáls þjónustuviðskipti

Hinni svokölluðu þjónustutilskipun er ætlað að taka á þessu. Markmiðið með henni er að gera að veruleika frjálst flæði þjónustu í samræmi við ákvæði stofnsamnings ESB og ryðja úr vegi hindrunum eins og að framan eru nefndar, sem koma í veg fyrir að fyrirtæki og einstaklingar geti selt þjónustu sína á grundvelli sömu skilyrða alls staðar á innri markaðnum. Í upprunalegri útgáfu tilskipunarinnar var lögð til hin svokallaða upprunalandsregla (e. country of origin principle) sem fólst í því að um veitingu þjónustu í öðru landi ESB gildi reglur heimaríkis þjónustuveitanda, þ.e. ef veita má þjónustuna í ríkinu þar sem þjónustuaðilinn er með staðfestu má einnig veita hana annars staðar innan EES. Gildissviði tilskipunarinnar var ætlað að taka yfir velflesta þjónustugeira auk þess sem hún lagði til mikla einföldun á öllum samskiptum við hið opinbera í öðru aðildarríki, þ.e að þau færu fram á einum stað og í rafrænu formi. Væntingar voru uppi um að tilskipunin kæmi til með að hleypa lífi í Lissabon-ferli ESB sem miðar að því að efla vöxt og atvinnu.

Niðurstaðan vonbrigði

Tilskipunin hefur þokast hægt í gegnum löggjafarferil ESB og á dögunum fór fram fyrsta atkvæðagreiðsla um hana í Evrópuþinginu. Með hliðsjón af því sem lagt var upp með verður ekki annað sagt en að útkoman sé mikil vonbrigði fyrir atvinnulífið. 211 breytingartillögur voru samþykktar á hinni upprunalegu útgáfu tilskipunarinnar og eftir stendur gjörbreytt tilskipun. Upprunalandsreglan er nú horfin en í staðinn er komið almennt ákvæði um að hvert aðildarland skuli tryggja frelsi til að veita þjónustu innan landamæra sinna svo og tryggja frjálsan aðgang að þjónustu. Jafnframt að ef þau nýta sér heimildir til að takmarka frelsi til að veita þjónustu skulu slíkar takmarkanir gerðar á jafnræðisgrundvelli og vera nauðsynlegar og hæfilegar. Aðildarríkjunum verður því heimilt að takmarka frelsi til að veita þjónustu á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis, umhverfisverndar og heilbrigðis.

Hefði þýtt 600 þúsund ný störf

Gildissvið tilskipunarinnar hefur einnig verið takmarkað frá því sem var og nær nú til færri geira. Vonir hafa staðið til þess að með samþykkt tilskipunarinnar myndi samkeppnishæfni Evrópu aukast allverulega og nýleg óháð könnun styður það en hún leiddi í ljós að allt benti til þess að 600.000 ný störf myndu verða til og erlend fjárfesting aukast um 34% sem bein afleiðing af samþykkt þjónustutilskipunarinnar. Ákaft er kallað eftir því enda atvinnuleysi mikið víða í Evrópu.

Tilskipunin fer ekki varhluta af því að Evrópusambandið er að ganga í gegnum mikla vaxtarverki eftir stækkun þess árið 2004, og að aukin alþjóðleg samkeppni vex þar mörgum í augum. Í mörgum af hinum grónu aðildarríkjum standa stjórnvöld frammi fyrir því að borgarar þeirra hafa áhyggjur af áhrifum tilskipunarinnar á kaup þeirra og kjör eftir stækkun ESB vegna samkeppni við starfsfólk frá nýju aðildarríkjunum. Spurningin sem staðið er frammi fyrir er því hvaða afleiðingar það hafi að hindrunum á því að veita þjónustu yfir landamæri verði rutt úr vegi. Tilskipunin gerði hins vegar engar breytingar á reglum tilskipunar ESB um útsenda starfsmenn sem hefur í um 10 ár kveðið á um það að launþegar sem sendir eru til starfa í öðru aðildarríki skulu í grundvallaratriðum njóta sömu kjara og atvinnuréttinda og gilda í landinu sem þeir vinna í. Þessar áhyggjur náðu þó eyrum fjölmargra þingmanna eins og tilskipunin ber með sér eftir atkvæðagreiðsluna.

Tilskipunin heldur nú áfram leið sinni í löggjafarferlinu. Framkvæmdastjórnin fær hana næst til umfjöllunar og þar á eftir ráðherraráðið en báðar stofnanirnar geta gert breytingar á tilskipuninni eins og hún er eftir atkvæðagreiðsluna í þinginu. Að því loknu fer hún aftur til umfjöllunar í þinginu. Það á eftir að koma í ljós hvort það samkomulag sem náðist í þinginu um tilskipunina í breyttri mynd haldi, en efasemdir eru uppi um að sú niðurstaða myndi stuðla að raunverulegu frelsi í þjónustuviðskiptum.

Samtök atvinnulífsins