Efnahagsmál - 

10. maí 2008

Framtíðarstefnumótun verði efld

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Framtíðarstefnumótun verði efld

Rætt er við Þór Sigfússon, nýjan formann SA, í ítarlegu viðtali í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Þar segir hann SA vera skemmtilegan vettvang þar sem komi inn nýjar hugmyndir um samfélagið og hvernig hægt sé að byggja upp lífsgæðin hér með því að horfa til nýrra kynslóða um leið og kjarnastarfsemin sé traust. Þór segir að Íslendingar hafi hingað til verið sparir á umræðuna um framtíðarstefnumótun. "Í Finnlandi hefur til að mynda verið formfest betur öll umræða um framtíðarstefnumótun og það er meðal annars fastur liður í starfi finnska þingsins. Ég á mér þann draum að svo verði einnig hér, bæði á vettvangi þingsins og í stærstu sveitarstjórnum," segir Þór í samtali við Viðskiptablaðið.

Rætt er við Þór Sigfússon, nýjan formann SA, í ítarlegu viðtali í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Þar segir hann SA vera skemmtilegan vettvang þar sem komi inn nýjar hugmyndir um samfélagið og hvernig hægt sé að byggja upp lífsgæðin hér með því að horfa til nýrra kynslóða um leið og kjarnastarfsemin sé traust. Þór segir að Íslendingar hafi hingað til verið sparir á umræðuna um framtíðarstefnumótun. "Í Finnlandi hefur til að mynda verið formfest betur öll umræða um framtíðarstefnumótun og það er meðal annars fastur liður í starfi finnska þingsins. Ég á mér þann draum að svo verði einnig hér, bæði á vettvangi þingsins og í stærstu sveitarstjórnum," segir Þór í samtali við Viðskiptablaðið.

"Það er þýðingarmikið að líta til framtíðar vegna þess að okkar auður liggur í því að inn á markaðinn eru að koma flottar nýjar kynslóðir. Þær eru satt best að segja flottari en gengur og gerist í Evrópu. Það er mikill kraftur í þeim. Þau eru áhugasöm um rekstur, listir og hvað sem er. Þar er blossi sem maður finnur ekki í öllum samfélögum. Við verðum að varðveita þetta," segir Þór.

Umræðan um ESB innan SA

Aðspurður um afstöðu til aðildar að ESB og upptöku evru segir Þór þetta: "Samtök atvinnulífsins hafa aldrei ályktað um inngöngu í ESB en Samtök iðnaðarins hafa gert það. Mörg aðildarsamtök okkar eru hins vegar í því ferli að ræða þetta. Við munum án efa á þessu ári taka meira frumkvæði í umræðum um þessi mál. Það þýðir þó ekki að við munum komast að þeirri niðurstöðu að sækja eigi um inngöngu í ESB. Æ fleirum er hins vegar ljóst að ef við ætlum að taka þátt á alþjóðamarkaði, verðum við að fylgja þeim reglum sem þar eru. Við héldum að við næðum síðasta stigi alþjóðavæðingar sem hófst með útibúum erlendis, síðar kaupum á fyrirtækjum og átti að fullkomnast í meiri gagnkvæmum tengslum yfir landamæri.

Fáir útlendingar vilja hins vegar blanda sér í íslensku sveiflurnar með íslensku krónunni og því má segja að íslenska alþjóðavæðingin hafi strandað á íslensku krónunni. Þótt við þurfum að hlúa að henni núna sjá mjög fáir hana sem draumagjaldmiðilinn okkar. Bankarnir geta ekki stækkað með íslensku krónuna. Þeir eru bara stopp. Ég held að við verðum ekki með krónuna eftir nokkur ár, kannski eftir sjö til tíu ár. Börnin mín munu ekki nota íslenskar krónur og ég held að þau muni búa í landi sem verður partur af Evrópusambandinu."

Aðspurður um hvort SA muni móta sér stefnu í Evrópumálum fljótlega segir Þór aðildarsamtökin vera að gera upp hug sinn. "Fyrr en það liggur fyrir munu Samtök atvinnulífsins ekki stíga fram með af eða á stefnu. Þessi umræða núna verður þó tekin af krafti og hún er skemmtileg. Ég á von á því að hún verði áberandi í okkar starfi á komandi mánuðum."

Tími kominn til að hleypa konum að

Á aðalfundi SA sagði Þór að tími væri kominn til að hleypa konum að - í Viðskiptablaðinu er hann beðinn um að skýra hvað hann átti við með því. "Við sjáum það best í mínu fyrirtæki, Sjóvá, hve fjölbreytnin getur gefið mikið. Við nýtum alla krafta starfsmanna og ef svo er hljóta mestar líkur að vera á því að kynjahlutföll stjórnenda séu nálægt 50/50 eins og þau eru hjá okkur. Fjölbreytni í rekstri fyrirtækja getur skilað alvöru peningum. Þetta er bara bisness.

Þegar ég vann hjá Norræna fjárfestingarbankanum kom með mér bankamaður frá Svíþjóð og heimsótti sjö fyrirtæki hér á landi. Þegar við vorum búnir að heimsækja þau sagði hann við mig: "Ég er búinn að fara í sjö fyrirtæki og hitta um þrjátíu einstaklinga, allt karlmenn og líklega alla undir 35 ára aldri. Hvar er allt hitt fólkið?" Það er svolítill broddur í þessu. Einhæfnin getur verið varasöm og kannski er hún hluti af vandanum hjá okkur nú. Við þurfum að nýta betur það vinnuafl sem fyrir er og ekki bara bæði kynin heldur líka yngri kynslóðir."

Í viðtalinu ræðir Þór einnig störf sín sem forstjóri Sjóvár, formennsku í stjórn Árvakurs og samkeppnina á fjölmiðlamarkaðnum.

Viðskiptablaðið 9. maí

Hægt er að nálgast Viðskiptablaðið á vb.is 

Samtök atvinnulífsins