Efnahagsmál - 

03. Desember 2008

Framtíðarlandið Ísland (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Framtíðarlandið Ísland (1)

Mikilvægt er að stjórnvöld taki réttar ákvarðanir varðandi framtíð íslensks atvinnulífs. Þetta sagði Þór Sigfússon, formaður SA, á ráðstefnu Útflutningsráðs sem fram fór á fullveldisdaginn. Þór sagði grundvallaratriði að standa vörð um fyrirtækin í landinu til að þau geti haldið áfram rekstri. Stefna skuli að því að hér á landi verði rekstrarumhverfi þar sem hægt sé að gera áætlanir til minnst tveggja ára sem ómögulegt sé í dag, verðbólga verði ekki hærri en 3% og stýrivextir ekki hærri en 4%.

Mikilvægt er að stjórnvöld taki réttar ákvarðanir varðandi framtíð íslensks atvinnulífs. Þetta sagði Þór Sigfússon, formaður SA, á ráðstefnu Útflutningsráðs sem fram fór á fullveldisdaginn. Þór sagði grundvallaratriði að standa vörð um fyrirtækin í landinu til að þau geti haldið áfram rekstri. Stefna skuli að því að hér á landi verði rekstrarumhverfi þar sem hægt sé að gera áætlanir til minnst tveggja ára sem ómögulegt sé í dag, verðbólga verði ekki hærri en 3% og stýrivextir ekki hærri en 4%.

Yfirskrift ráðstefnu Útflutningsráðs var Nýr dagur - ný hugsun og ræddi Þór um Framtíðarlandið Ísland. Sagði hann að í því landi þyrfti að tryggja langþráðan stöðugleika og að land og þjóð væru í góðum alþjóðleg tengslum og samskiptum við umheiminn. Treysta ætti landið í sessi sem öfluga uppsprettu nýsköpunar og eftirsóttan búsetukost.

Öflugur bakhjarl útrásar

Þór varaði við því á þeim tímamótum sem þjóðin stendur á að kasta öllu gömlu og nýtilegu frá sér. Leita verði allra leiða til að skapa nýja hluti og verðmæti úr því sem við höfum. Þá skyldi einnig varast að tala niður útrásarfyrirtæki en Útflutningsráð Íslands hafi reynst öflugur bakhjarl fjölmargra lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem sótt hafi á erlenda markaði með hugmyndir sínar og vörur. Forðast beri að gera þessi fyrirtæki og stjórnendur þeirra að blórabögglum þess ástands sem nú ríki.

Skapandi hugsun er lykillinn
Þór sagði nýsköpun vera hugarfar og afrakstur markvissrar vinnu en skapandi hugsun leiki lykilhlutverk í allri nýsköpun. Hvatti hann til þess að fyrirtæki, stofnanir og skólar efni til hugarflugsfunda og stefnumóta þar sem fólk úr ólíkum áttum vinni saman að því að leita lausna.

Í erindi sínu sagði Þór að rík hefð væri fyrir nýsköpun á Norðurlöndunum en Norðurlandabúar væru aðeins um 25 milljónir talsins og heimamarkaður norrænna fyrirtækja fyrir sérhæfðar vörur og þjónustu því takmarkaður. Norðurlöndin hafi hins vegar reynst frjór jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir og nýjar lausnir og á mörgum sviðum náð framúrskarandi árangri. Í gegnum tíðina hafi útflutningur því verið samofinn norrænu atvinnulífi og ýtt undir þá hugsun að heimurinn allur sé aðeins eitt markaðssvæði. Undirstrikaði Þór að halda þurfi áfram á þeirri braut og forðast beri umhverfi hafta, forræðishyggju og einangrunar.

Strax í dag
Í lokaorðum sínum sagðist Þór taka heilshugar undir með stjórnendum og starfsmönnum íslenskra fyrirtækja sem lýstu því nýverið yfir á meira en eitt þúsund manna fundi á Hilton Reykjavík Nordica að tækifærið sé NÚNA. Byrja verði strax í dag að leggja grunn að framtíðarlandinu þar sem öflugt atvinnulíf og sköpun verðmæta verður í forgrunni til að Íslendingar geti áfram notið góðs mannlífs.

Samtök atvinnulífsins