Framtíðarlandið Ísland

Árið 2050 verður Ísland þekkt fyrir að skara fram úr á heimsvísu og hér verður einstakt fyrirmyndarþjóðfélag þar sem lífskjör verða mjög góð. Þetta voru álitsgjafar á aðalfundi SA 2007 sammála um en Guðfinna S. Bjarnadóttir fv. rektor HR, Karl Wernersson hjá Milestone, Þór Sigfússon forstjóri Sjóvá, Þóra Helgadóttir hagfræðingur í greiningardeild Kaupþings og Þórður Friðjónsson, forstjóri Nordic Exchange á Íslandi, ræddu um framtíð lands og þjóðar á aðalfundinum undir stjórn Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA.

Aðalfundur 2007 - umræður

Væntingar til framtíðarinnar

Rætt var m.a. um könnun Capacent Gallup fyrir SA um væntingar fólks til framtíðarinnar, nánar tiltekið hvernig samfélag verður á Íslandi árið 2050.  Þórður Friðjónsson sagði  Íslendinga hafa gríðarlegt sjálfstraust sem hafi skilaði sér í kraftmikilli útrás og aðlögunarhæfni. Ef nefna ætti eitt atriði sem væri forsenda þess að okkur farnaðist vel áfram, þá væri það að breyta grundvallarviðhorfum til aldraðra og öldrunar. Álitsgjafarnir voru sammála um að lífeyriskerfið og séreignarsparnaður fólks myndi bæta stöðu þess í framtíðinni og flestir ef ekki allir myndu eiga vel ávaxtaðan ævisjóð.

Krefjandi verkefni framundan

Þór Sigfússon sagði í umræðunum að mestu máli skipti að þjóðin missti ekki trúna á athafnamennsku en sú trú væri mikil hér. Rætt var um líkurnar á að Íslendingar þyrftu að horfast í augu við meiriháttar kreppu fram til ársins 2050 og hvað mætti mögulega gera til að forðast það. Bent var á að mestu máli skipti að festast ekki í viðjum vanans, eða ákveðinni hugmyndafræði eða loforðum sem ekki væri inneign fyrir. Þóra Helgadóttir sagði nauðsynlegt að tryggja áfram samkeppnishæft atvinnulíf. Karl Wernersson sagði hættu á kreppu þegar verkefni væru leyst illa ef hendi að alls ekki og hættulegt væri þegar ríkið ætlaði sér um of. Gríðarleg verkefni bíði úrlausnar í heilbrigðisþjónustunni og í samgöngumálum væri svo sannarlega verk að vinna. Þar væru tækifæri til að virkja bæði einstaklinga og fyrirtæki til aðgerða. 

Aðalfundur SA 2007 - umræður

Guðfinna S. Bjarnadóttir sagðist helst hræðast óstjórn í efnhags- og atvinnumálum. Miklu skipti að hlúa vel að menntamálum og skoða þar innviðina. Hún taldi bæði raunhæft og skynsamlegt að stefna að því að 50 til 60% fólks lyki námi í háskóla. Mannauðurinn væri það besta  sem við ættum og hann ætti að ávaxta með stöðugri símenntun. Varðandi fjölgun aldraðra var varað við því að "sjúkdóma- og ellivæða" fullfrískt fólk en jafnframt bent á að æskilegt væri að atvinnuþáttaka eldri þegna yrði valfrjáls þar sem sumir myndu kjósa að hætta snemma að vinna en aðrir ekki.