Framlög til menntunar fólks á vinnumarkaði

Framlög atvinnulífsins og hins opinbera til menntunar starfsfólks á vinnumarkaði námu rúmlega 4 milljörðum króna á árinu 2015. Jafngildir það samanlögðum rekstri Menntaskólans í Hamrahlíð, Menntaskólans í Kópavogi og Fjölbrautarskólans í Breiðholti.

Skipta má þessu framlagi í tvennt. Annars vegar kjarasamningsbundið framlag atvinnulífsins,  A-hluta ríkissjóðs og sveitarfélaga til fræðslu- og starfsmenntasjóða. Algengast er að kjarasamningsbundið iðgjald sé 0,3% af heildarlaunum. Hins vegar framlag ríkissjóðs á fjárlögum ár hvert til Fræðslusjóðs, Vinnustaðanámssjóðs og reksturs símenntunarmið­stöðva.

Kjarasamningsbundin starfsmenntagjöld
Ætla má að kjarasamningsbundin iðgjöld atvinnulífsins til fræðslu- og starfsmenntasjóða hafi samtals numið  um 2,6 milljörðum króna árið 2015.

Iðgjöld atvinnulífsins til starfsmenntasjóða á almennum markaði námu 1.510 m.kr. árið 2015.[1] Auk þessa greiða fyrirtæki á almennum markaði allt að 200 m.kr. í starfsmenntunarsjóði í opinbera geiranum vegna háskólamenntaðra starfsmanna.

Ætla má að ríki og sveitarfélög greiði rúmlega 0,9 milljarða króna í  iðgjöld til starfsmenntasjóða samkvæmt kjarasamningum við stéttarfélög. Er það ríflega þriðjungur heildargreiðslu starfsmenntaiðgjalda.

Samkvæmt ríkisreikningi 2015 námu launagreiðslur A-hluta ríkissjóðs um 160 milljörðum króna. Ætla má að af þeirri fjárhæð hafi verið greiddar 480 m.kr. til starfsmenntasjóða miðað við að iðgjaldið sé að jafnaði 0,3% af heildarlaunum.

Samkvæmt Árbók sveitarfélaga námu launagreiðslur sveitarfélaga 155 milljörðum króna á árinu 2015. Ætla má að af þeirri fjárhæð hafi verið greiddar 465 m.kr. til starfsmenntasjóða miðað við sömu forsendur.

Framlög ríkisins til menntunar fólks á vinnumarkaði
Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2015 námu framlög ríkisins til menntunar starfsfólks á vinnumarkaði samtals 1,5 milljarði króna. Af þeirri fjárhæð fór helmingurinn, eða 770 m.kr. til Fræðslusjóðs. Sjóðurinn stuðlar að því að veita starfsmönnum, sem ekki hafa lokið prófi frá framhaldsskóla, tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Framlagið fer að mestu til kennslu og námskeiðahalds, í raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf.

Til Vinnustaðanámssjóðs runnu 150 m.kr. Markmið sjóðsins er að styrkja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við starfsnámsnemendum sem eru í framhaldsskólum og gera þeim kleift að ljúka tilskildu vinnustaðanámi samkvæmt aðalnámskrá.

Framlag ríkisins til reksturs Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og símenntunarmiðstöðva nam 440 m.kr. árið 2015. Að auki voru veittar úr ríkissjóði 140 m.kr. til íslenskukennslu fyrir útlendinga en vaxandi þörf er fyrir fé til að standa undir henni.

Fyrirtæki nýti sér fræðslu- og starfsmenntasjóðina
Fræðslu- og starfsmenntasjóðir atvinnulífsins eru í sameign aðila vinnumarkaðarins og undir sameiginlegri stjórn SA eða aðildarfélaga þeirra og viðsemjenda þeirra. Sjóðirnir styrkja einstaklinga til starfstengds náms og nýtast vel til þess. Úthlutunarreglur sjóðanna hafa í megindráttum að geyma sömu viðmið varðandi styrkhæft nám og menntun og styrkfjárhæðir eru í öllum megindráttur svipaðar.

Það er miður að fyrirtæki hafa í takmörkuðum mæli nýtt sér sjóðina til að fá fé til starfsmenntunar sem boðið er upp á að þeirra frumkvæði og á þeirra forsendum. SA hafa í samstarfi við viðsemjendur sína hvatt fyrirtækin til frekari sóknar í þá  veru. Liður í því að auðvelda þeim að sækja um vegna allra sinna starfsmanna  var að koma upp Áttinni, sameiginlegri gátt fyrir styrkumsóknir úr stærstu starfsmenntasjóðunum (www.attin.is).

undefined

Margt spennandi er að gerast í starfsmenntun í fyrirtækjum. Nefna má verkefnið Fræðslustjóri að láni þar sem fyrirtæki eru aðstoðuð við að greina menntunarþarfir fyrir allan starfsmannahópinn og hvernig hægt er að sinna þeim. Þá má nefna rafræna fræðslu og á  döfinni er verkefni þar sem raunfærni starfsmanna er metið í gagnvart þeim hæfnikröfum sem störfin krefjast. SA hvetja fyrirtæki innan sinna vébanda til að nýta starfsmenntasjóðina til að efla starfstengda menntun í sínum ranni.

[1] Um er að ræða eftirfarandi sjóði: Iðan fræðslusetur (nær til eftirmenntunar flestra iðngreina), Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks, Starfsafl (almennir starfsmenn í Flóabandalagi), Landsmennt (almennir starfsmenn (ófaglærðir) á landsbyggðinni), Menntasjóður rafiðnaðarins, Starfsmennasjóður verkstjóra og Sjómennt-starfsmenntun sjómanna.