19. september 2022

Framleiðni - miðjubarnið sem gleymist

Konráð S. Guðjónsson

1 MIN

Framleiðni - miðjubarnið sem gleymist

Senn líður að endurnýjun kjarasamninga og samhliða því er líklegt að umræða um kaup og kjör landsmanna verði framarlega í fréttatímunum næstu mánuði. Mikil áhugi landsmanna á kjarasamningum er bæði ánægjulegur og skiljanlegur, enda fer nú í hönd tímabil sem mun miklu ráða um lífskjör fólks næstu árin.

Nú þegar má lesa beint, og á milli línanna, kröfur um að laun skuli hækka mikið, óháð efnahagslegu samhengi. En þegar upp er staðið er það aftur á móti framleiðni sem langmestu ræður um kjör fólks – hversu mikið verður til ræður eðlilega því hversu mikið er til skiptanna. Á þetta virðist aldrei nógu oft bent því staðreyndin er sú að í umræðu um kjaramál er framleiðni miðjubarnið sem oft gleymist.

Samsetning launanna okkar

Síðustu áratugi hafa lífskjör Íslendinga batnað til muna. Vitnisburður þess er víða en þó ekki í þeirri staðreynd að launakostnaður á vinnustund, sem er að megninu launin á launaseðlinum, hefur hækkað um 543% á 30 árum eða ríflega sexfaldast. Því miður hefur verðlag næstum fjórfaldast á sama tíma, þrátt fyrir að verðbólga síðustu 30 ár hafi verið mun minni en 30 árin þar á undan sem er önnur saga. Það sem skiptir máli fyrir lífskjörin er að framleiðni jókst „einungis“ um 1,8% árlega og 69% samtals á tímabilinu. Auk þess breyttist hlutur launa í verðmætasköpuninni fremur lítið – enda stærð sem er almennt frekar stöðug og raunar há í sögulegu samhengi um þessar mundir. Raunlaun, eða kaupmáttur, jókst litlu meira en framleiðni sem endurspeglar hækkun launahlutfallsins.

Í amstri dagsins er mjög auðvelt að gleyma því að framleiðni ræður ferðinni, en ef við viljum að kjör barnanna okkar verði betri en okkar höfum við ekki val um annað en að bæta framleiðni – í víðu samhengi.

Þetta er í raun sáraeinfalt. Launahækkanir skila auknum kaupmætti launa í samspili verðlags, framleiðni og launahlutfalls. Eins og sést hafa verðlag og framleiðni haft mikil áhrif en launahlutfallið lítil sem engin til lengri tíma. Einhver fjárhæð á launaseðli segir í sjálfu sér ekkert – hvað fjárhæðin gerir okkur kleift að gera segir aftur á móti allt. Ef þetta orsakasamband milli framleiðni og kaupmáttar myndi ekki halda væri leikur einn að gera alla Íslendinga að 367.000 launahæstu einstaklingum heims.

Hátt launahlutfall og skýrt samband við verðlag

Eðlilega vekur framangreint upp spurningar um hvort launahlutfallið, þ.e. hver hlutur launafólks er í verðmætasköpuninni, geti ekki einfaldlega hækkað myndarlega til þess að bæta kjör. Til að svara því má í fyrsta lagi benda á að þetta hlutfall var ríflega 60% árið 2021 og yfir sögulegu meðaltali. Í einu skiptin sem hlutfallið hefur verið verulega hærra, hæst tæp 67% 2006 og 2007, hefur það verið á tímum ójafnvægis í þjóðarbúskapnum og í aðdraganda niðursveiflu. Í öðru lagi má benda á að þetta hlutfall er hærra en í nokkru öðru OECD ríki, en í þeim hópi ríkja eru okkar helstu viðskiptalönd sem íslensk fyrirtæki keppa hart við um bæði starfsfólk og viðskiptavini (mynd 2).

Þau ríki þar sem laun hækka mikið umfram framleiðni búa við meiri verðbólgu.

Það virðast líka oft vakna efasemdir um að launahækkanir kyndi undir verðbólgu. Nóg ætti að vera að rifja upp að heildarlaunakostnaður í hagkerfinu jókst að meðaltali um 40% árlega á verðbólguárunum 1973-1991. Ef það er ekki nóg er nærtækt að skoða samhengi launakostnaðar og verðlags í nokkrum samanburðaríkjum yfir lengri tímabil. Þar er niðurstaðan skýr – þau ríki þar sem laun hækka mikið umfram framleiðni búa við meiri verðbólgu. Orsakasambandið virðist ekki alltaf augljóst á yfirborðinu og áhrifin geta tekið nokkurn tíma að birtast, en niðurstaðan er óumflýjanleg eins og hér hefur verið rakið.

Framleiðni ræður ferðinni

Þessi skýra niðurstaða hefur ekkert breyst síðustu áratugi. Raunverulegar kjarabætur verða ekki nema fyrir tilstilli vaxandi framleiðni þar sem hæfni starfsfólks og fjárfestingar fyrirtækja koma saman í að skapa nýjungar eða gera það gamla betur og með ódýrari hætti.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa því sameiginlegan hag af því að horfa til lengri tíma og vinna saman að því hvernig auka megi framleiðni. Það er forsenda styttri vinnuviku, auk betri nýtingar auðlinda og fjármagns. Til dæmis er hægt að auka sveigjanleika í vinnutíma, auka vægi dagvinnu og skapa þannig hvata til aukinnar framleiðni. Aukin framleiðni í ferli íbúðabygginga (minni skriffinnska) er líka forsenda þess að vinna á íbúðaskorti á næstu árum. Fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfi fyrirtækja ýtir líka undir framleiðni þar sem þá gefst tími og svigrúm til þess að þjálfa starfsfólk og fjárfesta í nýjum búnaði. Fyrirsjáanleiki í launa- og verðlagsþróun getur í því samhengi haft mikil áhrif og þar skipta farsælir og samstilltir kjarasamningar sköpum. Áfram mætti lengi, lengi telja.

Það á ekki að gera upp á milli barnanna sinna, og sjálfur geri ég það ekki. Við Íslendingar ættum þó að gera upp á milli þeirra þátta sem launin okkar skiptast í og hampa framleiðninni sem stendur systkinum sínum, launahlutfalli og verðlagi, miklu framar. Í amstri dagsins er mjög auðvelt að gleyma því að framleiðni ræður ferðinni, en ef við viljum að kjör barnanna okkar verði betri en okkar höfum við ekki val um annað en að bæta framleiðni – í víðu samhengi.

Greinin birtist fyrst í Vísbendingu 16. september 2022

Konráð S. Guðjónsson

Efnahagsráðgjafi SA